Hoppa yfir valmynd
7. ágúst 2020 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 16/2020. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 15. júní 2020
í máli nr. 16/2020:
Ístak hf.
gegn
Vegagerðinni og
Óskataki ehf.

Lykilorð
Fjárhagslegt hæfi. Gagnaframlagning. Ársreikningar.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála taldi að varnaraðila hefði verið heimilt í útboði um vegagerð að kalla eftir endurskoðuðum ársreikningum frá lægstbjóðanda eftir skil tilboða á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016. Þar sem umrædd gögn voru lögð fram hefði lægstbjóðandi fullnægt kröfum útboðsins um fjárhagslegt hæfi og varnaraðila verið rétt að velja tilboð hans.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 30. apríl 2020 kærði Ístak hf. útboð Vegagerðarinnar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. Vg2020-023 auðkennt „Suðurlandsvegur, tvöföldun, Vesturlandsvegur - Bæjarháls“. Kærandi krefst þess að hið kærða útboð verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Þá er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð Óskataks ehf. í hinu kærða útboði. Jafnframt er krafist málskostnaðar.

Varnaraðila og Óskataki ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð varnaraðila móttekinni 7. maí 2020 var þess krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Með tölvubréfi 19. maí 2020 lýsti kærandi því yfir að ekki yrði skilað andsvörum af hans hálfu. Óskatak ehf. lét málið ekki til sín taka.

Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 11. maí 2020 var að kröfu varnaraðila aflétt sjálfkrafa stöðvun hins kærða útboðs sem komist hafði á með kæru.

I

Í mars 2020 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í tvöföldun Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi. Í grein 1.8 í útboðsgögnum komu fram kröfur til fjárhagslegs hæfis bjóðenda. Þar var meðal annars gerð sú krafa að eigið fé bjóðenda skyldi vera jákvætt samkvæmt ársreikningi „endurskoðuðum af löggiltum endurskoðanda“ og skyldi ársreikningurinn vera án athugasemda um rekstrarhæfi. Í grein 1.9 kom fram að velja skyldi tilboð á grundvelli lægsta verðs. Tilboð voru opnuð 21. apríl 2020. Fimm tilboð bárust í útboðinu og var tilboð Óskataks ehf. lægst en tilboð kæranda næstlægst að fjárhæð. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi kallað eftir endurskoðuðum ársreikningum frá Óskataki ehf. með tölvubréfi 22. apríl 2020. Samdægurs sendi kærandi varnaraðila tölvubréf þar sem hann lýsti efasemdum um að Óskatak ehf. uppfyllti kröfur útboðsgagna um jákvætt eigið fé samkvæmt endurskoðuðum ársreikningi. Með tölvubréfi 27. apríl 2020 ítrekaði varnaraðili beiðni um að Óskatak ehf. legði fram endurskoðaða ársreikninga. Óskatak ehf. sendi umrædda ársreikninga með tölvubréfi síðar þennan sama dag. Með bréfi 28. apríl 2020 var bjóðendum tilkynnt að varnaraðili hygðist leita samninga um verkið við Óskatak ehf. á grundvelli tilboðs þess og að áformað væri að bindandi samningur yrði gerður að fimm dögum liðnum.

II

Kærandi byggir á því að ársreikningur Óskataks ehf. fyrir árið 2018 sé án endurskoðunar og könnunar og uppfylli því ekki skilyrði útboðsgagna um að sýnt væri fram á jákvætt eigið fé bjóðenda með ársreikningum endurskoðuðum af löggiltum endurskoðanda. Því hafi varnaraðila verið óheimilt að taka tilboði fyrirtækisins.

Varnaraðili vísar til þess að Óskatak ehf. hafi lagt fram óendurskoðaða ársreikninga með tilboði sínu sem hafi sýnt að fyrirtækið fullnægði kröfum útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi. Kallað hafi verið eftir endurskoðuðum ársreikningum eftir opnun tilboða á grundvelli 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Hafi endurskoðaðir ársreikningar verið lagðir fram að liðnum þremur virkum dögum frá því að fyrst var kallað eftir þeim. Þar sem Óskatak ehf. hafi átt lægsta tilboðið og fullnægt kröfum útboðsgagna hafi varnaraðila verið skylt að taka tilboði fyrirtækisins.

III

Í máli þessu liggur fyrir að Óskatak ehf., sem átti lægsta tilboðið í hinu kærða útboði, lagði fram með tilboði sínu ársreikninga vegna áranna 2017 og 2018 sem ekki höfðu verið endurskoðaðir. Í grein 1.8 í útboðsgögnum var hins vegar gerð krafa um að ársreikningar hefðu verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi óskað eftir endurskoðuðum ársreikningum með tölvubréfum 22. og 27. apríl 2020 og að Óskatak ehf. hafi sent umrædda ársreikninga með tölvubréfi síðarnefnda daginn. Telja verður að varnaraðila hafi verið heimilt að kalla eftir umræddum gögnum og taka tillit til þeirra samkvæmt 5. mgr. 66. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, enda verður ekki talið að með því hafi grundvallarþáttum í tilboði Óskataks ehf. verið breytt eða samkeppni raskað. Verður því lagt til grundvallar að Óskatak ehf. hafi fullnægt kröfum útboðsgagna um fjárhagslegt hæfi og að varnaraðila hafi verið rétt að taka ákvörðun um að ganga til samninga við fyrirtækið á grundvelli tilboðs þess. Verður því öllum kröfum kæranda í máli þessu hafnað. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Úrskurðarorð:

Öllum kröfum kæranda, Ístaks hf., vegna útboðs Vegagerðarinnar nr. Vg2020-023 auðkennt „Suðurlandsvegur, tvöföldun, Vesturlandsvegur - Bæjarháls“, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Reykjavík, 15. júní 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum