Hoppa yfir valmynd
9. júní 2004 Forsætisráðuneytið

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Hildu Hafsteinsdóttur gegn Íslandi

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm í máli Hildu Hafsteinsdóttur gegn Íslandi. Með dómi sínum frá 8. júní sl. var íslenska ríkið talið hafa brotið gegn 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við frelsissviptingu nema með heimild í lögum. Hinsvegar var bótakröfu kæranda hafnað. Þrír dómarar af sjö skiluðu séráliti þar sem íslenska ríkið er sýknað af tilteknum eða öllum kæruatriðum.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm í máli Hildu Hafsteinsdóttur gegn Íslandi. Með dómi sínum frá 8. júní sl. var íslenska ríkið talið hafa brotið gegn 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við frelsissviptingu nema með heimild í lögum. Hinsvegar var bótakröfu kæranda hafnað. Þrír dómarar af sjö skiluðu séráliti þar sem íslenska ríkið er sýknað af tilteknum eða öllum kæruatriðum.

Málið varðar sex tilvik á tímabilinu 31. janúar 1988 til 11. janúar 1991 þar sem kærandi var handtekinn vegna ölvunar og óspekta og færð í geymslu í fangaklefa lögreglunnar í Reykjavík. Í fjórum tilvikum var um að ræða ónæði á lögreglustöð, þar sem kærandi kom að eigin frumkvæði. Vistun varði í nokkrar klukkustundir eða næturlangt. Kærandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 12. mars 1993 og krafðist skaðabóta af hálfu íslenska ríkisins. Taldi kærandi sig hafa sætt ólögmætri handtöku og fangelsun af hálfu lögreglunnar, sem á engan hátt hafi verið réttmæt. Íslenska ríkið var sýknað með dómi héraðsdóms frá 11. apríl 1996, sem var staðfestur af Hæstarétti 10. október sama ár. Þann 25. október 1996 var íslenska ríkið kært til mannréttindanefndar Evrópu á þeirri forsendu að ofangreindar handtökur færi í bága við 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á árinu 1998 fluttist málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Með úrskurði sínum frá 22 október 2002 taldi dómstóllinn málið tækt til efnismeðferðar.

Mannréttindadómstóllinn taldi þá háttsemi sem talin er upp í e-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmálans, og heimilar löglega gæslu áfengissjúklinga, eiga við um háttsemi kæranda. Þá taldi dómurinn að umræddar handtökur og frelsissvipting hafi verið í samræmi við íslensk lög og málsmeðferðarreglur. Jafnframt að í hvert sinn hafi lögreglan fyrst reynt minna íhlutandi úrræði og hafi verið rétt að álykta að það væri nauðsynlegt að handtaka kæranda. Hinsvegar var dómurinn ekki sannfærður um að þágildandi 7 tölul. 2. mgr. 61 gr. laga um meðferð opinberra mála ætti við um málsatvik. Dómurinn taldi lögreglusamþykkt Reykjavíkur sem tók gildi 1. júlí 1988, og var því í gildi þegar fimm af sex handtökum áttu sér stað, hafa að geyma mun ítarlegri reglur um handtökur vegna óspekta af völdum ölvunar. Hinsvegar taldi dómurinn reglurnar skorta fyrirmæli um hvenær frelsissvipting hætti að teljast nauðsynlegt og viðkomandi ætti rétt á að vera látinn laus. Þá taldi dómurinn ekki sannað að lögreglusamþykktin hafi verið almenningi aðgengileg. Í ljósi þessa taldi dómurinn að lögin, sem í gildi voru þegar málsatvik áttu sér stað, hafi ekki verið nægilega nákvæm og aðgengileg til að fyrirbyggja nokkra hættu á geðþóttaákvörðunum. Kærðar frelsissviptingar hafi því ekki verið lögmætar í skilningi 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Dómurinn synjaði einhljóða bótakröfu kæranda á þeirri forsendu að þar sem efnisniðurstaða málsins hafi verið tæknilegs eðlis, og að þeirra mati hafi ekki á neinn hátt dregið í efa nauðsyn frelsissviptinganna, þá skuli sú niðurstaða ein og sér fela í sér fullnægjandi bætur. Íslenska ríkinu var dæmt að greiða málskostnað kæranda sem dómstóllinn mat hæfilegar 6500 evrur.

Sératkvæði eins dómara taldi einungis þá handtöku sem átti sér stað fyrir útgáfu lögreglusamþykktar hafa gengið gegn mannréttindasáttmálanum. Tveir dómarar töldu í sératkvæði að ekki hafi verið um að ræða brot á mannréttindasáttmála Evrópu í málinu.

Mannréttindasáttmála Evrópu var undirritaður af Íslands hálfu 4. nóvember 1950 og fullgiltur 29. júní 1953. Árið 1994 öðlaðist samningurinn gildi laga á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum