Hoppa yfir valmynd
1. júní 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland fyrsta ríkið sem gerir heildarsamning um hugbúnað við Microsoft: 200 milljóna árlegur sparnaður

Bjarni Benediktsson og Heimir Fannar Gunlaugsson undirrituðu samninginn.  Mynd/Hörður Sveinsson - mynd

Íslenskunni verður gert hátt undir höfði í kjölfar samnings sem undirritaður var í dag milli ríkisins og Microsoft. Hægt verður að þýða íslenskan texta yfir á sextíu önnur tungumál og Microsoft mun forgangsraða íslenskri talvél framar. Stefnt er á að láta hugbúnaðinn skilja íslenska tungu.

Bjarni Benediktsson og Heimir Fannar Gunnlaugsson, undirrituðu samninginn fyrir hönd ríkisins og Microsoft. Með samningnum sparast 200 m.kr. árlega en hann felur í sér aðgengi ríkisstofnana að nýjustu útgáfu Office 365 hugbúnaðarpakkans, sem inniheldur meðal annars Word, Excel, hópvinnukerfi og póstkerfi.

Þetta er í fyrsta sinn sem ríkið gerir heildstæðan samning við Microsoft, en áður hafa stofnanir og ráðuneyti gert sjálfstæða samninga.

„Við teljum að við höfum náð verulega hagstæðum samningum við Microsoft, en þeir tryggja okkur meiri afslátt en bjóðast í mörgum nágrannaríkjum okkar. Samningurinn er liður í stærra átaki ríkisins sem felst í að auka og bæta opinbera þjónustu. Árlega sparast um 200 m.kr. í krafti samningsins, sem til framtíðar þýðir hagræðingu sem nemur milljörðum króna. Það fjármagn verður hægt að nýta til uppbyggingar stafrænnar þjónustu og með því eykst skilvirkni í starfsemi stofnana ríkisins, “ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Þetta er mikilvægur samningur fyrir Microsoft sem markar viss tímamót þar sem þetta er fyrsti samningurinn af þessu tagi sem Microsoft gerir við heilt ríki. Markmið okkar er ávallt að tryggja aukið hagræði og öryggi með lausnum Microsoft og þessi samningur uppfyllir þau markmið. Þá skiptir okkur einnig miklu máli að geta boðið upp á Windows 10 stýrikerfið og allan lykilhugbúnað okkar á íslensku sem er mikilvægt framlag til þess að styrkja sess íslenskunnar í hinum stafræna heimi. Ég er sannfærður um að samningurinn mun einfalda samskipti og samvinnu milli stofnana ríkisins, sem muni skila sér í betri þjónustu.“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.

Veruleg hagræðing

 Samningurinn er í tveimur hlutum, annars vegar fyrir almennar stofnanir og hins vegar fyrir menntastofnanir og fækkar slíkum samningum því við þetta úr rúmlega hundrað í tvo. Með þessu næst fram veruleg hagræðing í krafti fleiri notenda á bak við samninginn og tryggir hann litlum og meðalstórum stofnunum sama verð og þeim stærri. Með miðlægri umsjón fæst bætt yfirsýn yfir leyfamál ríkisins þar sem hægt verður að flytja leyfi milli stofnana og auka nýtingu þeirra.

Með samningnum verður tækniumhverfi ríkisins samþætt enn frekar. Starfsmenn ríkisins geta átt samskipti milliliðalaust og með öruggari hætti en áður, til dæmis með spjallforritum eða myndfundarkerfum, sem leiðir til aukinnar skilvirkni í úrvinnslu mála.

Samningurinn er boðinn út í örútboði í gegnum rammasamning og er það gert í tvennu lagi, annars vegar fyrir almennar stofnanir og hins vegar menntastofnanir. Hagstæðasta tilboðið í þann hluta sem snýr að almennum stofnunum barst frá Advania og fer félagið með framkvæmd samningsins fyrir hönd Microsoft gagnvart ríkinu. Sá hluti sem snýr að framkvæmd samningsins gagnvart menntastofnunum verður boðinn út í júní. Til ráðgjafar ríkinu í samningsferlinu var svissneska fyrirtækið SoftwareOne, sem sérhæfir sig í samningagerð sem þessari.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum