Hoppa yfir valmynd
28. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný heildarlög um Ábyrgðarsjóð launa

Helstu breytingar sem verða við gildistöku laganna eru eftirfarandi:

Ábyrgðasjóður launa tekur framvegis á sig ábyrgð á vangreiddum iðgjöldum sem nema allt að 4% af iðgjaldsstofni á grundvelli samnings um viðbótarlífeyrissparnað og samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Nánari skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á iðgjöldum verða sett í reglugerð. Þar sem þeir aðilar sem bjóða upp á ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar eru misjafnlega í stakk búnir til að uppfylla skilyrði um eftirlit með skilum á iðgjaldagreiðslum og innheimtu vangoldinna iðgjalda er mælt fyrir um það í lögunum að ábyrgð sjóðsins taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2004 og gildir hún um bú vinnuveitenda sem úrskurðuð eru gjaldþrota eftir þann tíma.

Lögin fela í sér nokkra hækkun á hámarksábyrgð sjóðsins vegna krafna launamanna. Samkvæmt eldri lögum er hámarksábyrgð á launakröfum á mánuði 232.347 kr., sem miðast við þrefaldar hámarksatvinnuleysisbætur, en lagt er til að sú fjárhæð verði hækkuð í 250.000 kr. Um er að ræða fasta fjárhæð sem ráðherra mun ákveða í reglugerð fyrir eitt ár í senn að fengnum tillögum stjórnar Ábyrgðasjóðs launa.

Önnur nýmæli eru m.a. að ákvæði orlofslaga um ábyrgð á orlofi vegna greiðsluerfiðleika vinnuveitanda eru nú sérstakur kafli í lögum um Ábyrgðasjóð launa og þær kröfur lúta framvegis í meginatriðum sömu reglum og gilda um ábyrgð á orlofskröfum við gjaldþrot vinnuveitanda. Ábyrgð sjóðsins á þessum kröfum, sem og öðrum orlofslaunakröfum, verður bundin hámarki sem í upphafi verður 400.000 kr. fyrir hvern einstakling.

Einnig fela lögin í sér breytingar á reglum er lúta að undanþágum frá ábyrgð sjóðsins vegna tengsla kröfuhafa við eigendur eða forsvarsmenn hins gjaldþrota vinnuveitanda. Þá eru tekin af tvímæli um að ábyrgð á bótum vegna líkamstjóns sem starfsmenn verða fyrir í vinnu sinni komi einungis til álita í þeim tilvikum þegar tryggingar vinnuveitanda taka ekki til bótakröfu starfsmanns. Lögin gefa kröfuhafa jafnframt meira val en áður um þær aðferðir sem hann notar við atvinnuleit sína og geta aðrar aðferðir við atvinnuleit en regluleg skráning hjá opinberri vinnumiðlun talist fullnægjandi þegar mat er lagt á hvort launamaður uppfylli kröfur um virka atvinnuleit, sem er skilyrði fyrir því að sjóðurinn ábyrgist kröfur um bætur fyrir launamissi í uppsagnarfresti.

Í lögunum er kveðið á um gildissvið laganna í þeim tilvikum þegar vinnuveitandi hefur starfsemi í fleiri en einu ríki en sambærilegt ákvæði er ekki í eldri lögum. Var meðal annars höfð hliðsjón af ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/74/ESB um breytingu á tilskipun nr. 80/987/EBE, að því er varðar ábyrgð á kröfum launamanna þegar vinnuveitandi hefur starfsstöð í fleiri en einu aðildarríkja EES-samningsins. Er meginreglan samkvæmt tilskipuninni sú að ábyrgðasjóður þess ríkis þar sem starfsmenn starfa að jafnaði skuli bera ábyrgðina, óháð því hvar aðalskrifstofa vinnuveitanda er skráð eða gjaldþrotaúrskurður hefur verið kveðinn upp.

Lögin hafa þegar öðlast gildi og hefur heiti sjóðsins verið breytt úr Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota í Ábyrgðasjóður launa og kemur sú breyting jafnframt fram í heiti laganna. Þar sem í mörgum tilvikum er um það að ræða að kröfur á hendur sjóðnum myndast á löngum tíma hafa lögin að geyma ákvæði um skil þeirra við eldri lög. Ber þar fyrst að telja að um kröfur í þrotabú vinnuveitanda sem úrskurðuð voru gjaldþrota fyrir gildistöku laganna fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 53/1993, um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Einnig er kveðið á um það að hækkun hámarksábyrgðar sjóðsins á kröfum um vangoldin laun og bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti miðist við 1. apríl 2003. Loks er kveðið á um það að nýtt ákvæði um hámark ábyrgðar á orlofskröfum skuli ekki leiða til skerðingar á réttindum sem áunnin voru fyrir gildistöku laganna.

Lög um Ábyrgðarsjóð launa

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum