Hoppa yfir valmynd
30. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 47/2003

Þriðjudaginn, 30. mars 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. júní 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 9. júní 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 6. mars 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. 

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Kærandi starfaði sem B hjá D þar til haustið 2001 en hann flutti ásamt unnustu sinni E til F-lands þar sem hún hóf nám í læknisfræði. Kærandi hugðist leita sér vinnu til að byrja með eftir að hann til F-lands kæmi. Hann fékk hinsvegar enga atvinnu en í ársbyrjun 2002 fékk hann atvinnubótavinnu til 15. maí 2002 en þá hóf hann störf hjá D hér á landi aftur og starfaði þar til 12. ágúst 2002 en þá hóf hann störf við G-háskólann í F-landi. Í maí 2002 kom í ljós að kærandi og sambýliskona hans ættu von á barni. Samkvæmt ómskoðun á Íslandi og í F-landi var áætluð fæðing barnsins 28. janúar 2003. Þann 20. desember 2002 veiktist sambýliskona kæranda af þvagfærasýkingu og var lögð inn á sjúkrahús. Barnið fæddist svo þann 22. desember 2002, sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag. Þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um höfnun fæðingarstyrks þar sem „..samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllir þú hvorki skilyrði um 6 mánaða samfellt nám á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns né 6 mánaða samfellt starf fram til þess að nám þitt hófst..“ er hafnað sem rangri forsendu. Kærandi bendir þá staðreynd að hann var við vinnu í F-landi í nokkra mánuði fyrri hluta árs 2002 og var svo við vinnu hjá D í þrjá mánuði sumarið 2002. Þá bendir kærandi ennfremur á að hann hóf fullt nám í G-háskólanum í F-landi í ágústmánuði 2002 eða þegar skólinn hófst það haust. Hann stundaði nám sitt allan þann vetur. Þá er á það að líta að barnið fæddist 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, en eins og áður sagði var áætlað að barnið fæddist í lok janúar 2003. Samkvæmt lögum nr. 95/2000 og ákvæðum reglugerðar nr. 909/2000 er heimilt að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni ef hann hefur verið í samfelldu námi í 6 mánuði fyrir fæðingu barns. Hér skiptir áætlaður fæðingardagur barns máli. Það getur ekki verið í anda laganna og reglugerðarinnar að foreldrar njóti lakari réttar ef barn fæðist fyrir áætlaðan tíma heldur en barnið fæddist á „réttum tíma“ Gerð er krafa um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld niður og ákvarðað verði að kærandi eigi rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður í samræmi við ákvæði laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 909/2000.“

  

Með bréfi, dags. 20. júní 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3.september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr.laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Samkvæmt 19 gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu samfellt nám í a.m.k sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í 13. gr. er Tryggingastofnun ríkisins heimilað, þrátt fyrir skilyrði 12. gr. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan, að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k fimm ár fyrir flutning. Skilyrði fyrir greiðslum er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandinu um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum í því ríki. Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur.

Með umsókn dagsettri 10. janúar 2003 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna barnsfæðingar 22. desember. Með umsókninni fylgdu staðfesting frá sveitarfélaginu H í F-landi dags 08. janúar 2003 um að hann ætti ekki rétt á fæðingarorlofi í F-landi vegna fæðingarinnar, greiðsluseðill vegna atvinnuleysisbóta fyrir maí 2002 frá sveitarfélaginu H í F-landi og staðfesting frá G-háskólanum í F-landi dags. 13. janúar 2003 á skólavist hans þar frá 13. ágúst 2002 (án þess að fram komi hve mikið nám hann stundi).

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags 6. mars 2003 var kæranda synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hann uppfyllti hvorki skilyrði um að hafa verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í námi né að hafa verið í samfelldu starfi fram til þess að námið hófst. 

Kærandi telur sig uppfylla skilyrði um að hafa verið sex mánuði samfellt í starfi áður en nám hófst og hefur hjá úrskurðarnefndinni framvísað greiðsluseðlum frá sveitarfélaginu H í F-landi fyrir janúar – maí 2002 og útprentun á rétti til greiðslna fyrir 1. – 14. júní 2002. Á greiðsluseðlum fyrir janúar – mars kemur fram að um sé að „kontanthjælp“, þ.e.a.s. fjárhagslega aðstoð, en ekki atvinnutengdar bætur (sem hann fær síðan frá aprílmánuði). Verður því ekki fallist á það að hann hafi verið á vinnumarkaði á þeim tíma og hann uppfyllir þar með ekki skilyrði 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar um að hafa verið samfellt í starfi í sex mánuði áður en nám hófst.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 8. september 2003. Með bréfi kæranda dags. 3. febrúar 2004 fylgdi staðfesting um töku prófs í skriflegri stærðfræði í janúar 2003. Kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari upplýsingum, um nám og störf, en frekari gögn bárust ekki.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga rétt til fæðingarstyrks á grundvelli 18. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðum um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. 

Barn kæranda er fætt 22. desember 2002 en þann 13. ágúst 2002 hafði hann hafið nám við G-háskólann í F-landi. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið í samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða sambærilegu námi í öðrum ríkjum í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki á vinnumarkaði mánuðina janúar til mars 2002 eða fékk greiddar atvinnuleysisbætur á þeim tíma. Þar sem ekki var um að ræða samfellt starf í a.m.k. sex mánuði fram til þess að námið hófst 13. ágúst 2002 kemur heimild 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 til undanþágu frá skilyrði um sex mánaða nám eigi til álita í máli þessu. Auk þess skal þess getið að gögn sem borist hafa nægja ekki til staðfestingar á því að hann hafi á haustmisseri 2002 verið í fullu námi við G-háskólann.

Með hliðsjón af framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Hann uppfyllir hins vegar ekki skilyrði þess að eiga rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hann hafði verið skemur en sex mánuði við nám fyrir fæðingu barns. Samkvæmt gögnum málsins uppfyllir kærandi ekki skilyrði til undanþágu samkvæmt 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framangreindu ber að greiða kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 18. gr. ffl., enda uppfylli kærandi skilyrði 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000. 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum