Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 91/2021

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 91/2021

Miðvikudaginn 19. janúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að meðhöndla lífeyrisgreiðslur kæranda frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfum Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. september 2020, var kæranda tilkynnt um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta áranna 2014 til 2019. Með bréfi, dags. 1. október 2020, óskaði kærandi eftir endurskoðun á mati Tryggingastofnunar á erlendum lífeyrisgreiðslum hennar. Kærandi byggði á því að hún fengi engar lífeyrissjóðsgreiðslur frá Svíþjóð heldur einungis örorkulífeyri frá Försäkringskassan. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. janúar 2021, var kærandi upplýst um að lífeyrisgreiðslur, sem séu grundvallaðar á fyrri atvinnuþátttöku, séu skilgreindar sem lífeyrissjóðsgreiðslur þar sem upphæð þeirra ráðist af hversu há iðgjöld hafi verið greidd og hversu lengi iðgjald hafi verið greitt fyrir viðkomandi. Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá Försäkringskassan séu greiðslur kæranda frá þeim grundvallaðar á fyrri atvinnuþátttöku og séu því skilgreindar sem lífeyrissjóðstekjur. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. febrúar 2021, var kæranda tilkynnt um að samkvæmt upplýsingum frá Försäkringskassan byggðu greiðslur hennar þaðan á atvinnu og því skrái stofnunin þær sem lífeyri.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 9. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. apríl 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 20. maí 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. maí 2021. Efnislegar athugaemdir bárust ekki.

Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 14. október 2021, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari upplýsingum um hvaða greiðslur kæranda frá Svíþjóð skertu lífeyrisgreiðslur hennar frá Tryggingastofnun og eðli þeirra greiðslna. Svar barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 5. nóvember 2021, og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. nóvember 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærandi eigi rétt á sínum lífeyrissjóðsgreiðslum úr lífeyrissjóði í Svíþjóð en hún hafi ekki enn sótt þann rétt. Þessar greiðslur sem Tryggingastofnun líti til séu skilgreindar sem almannatryggingar hjá Skattinum.

Í athugasemdum kæranda frá 20. maí 2021 kemur fram að erfitt sé að skilja rökstuðning í greinargerð Tryggingastofnunar þar sem sænsk orð séu þýdd sem merki allt annað. Í málavaxtalýsingu í greinargerð stofnunarinnar komi skýrt fram geðþóttaákvörðun Tryggingastofnunar. Í bréfi frá 4. febrúar 2021 hafi verið útskýrt fyrir kæranda hvernig Tryggingastofnun flokki erlendar tekjur. Bent hafi verið á að allar lífeyrisgreiðslur sem ákvarðaðar séu út frá fyrri launum eða vegna greiðslna iðgjalda, væru skilgreindar sem lífeyrissjóðsgreiðslur hjá stofnuninni en ekki lífeyrisgreiðslur.

Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar séu lífeyrissjóðstekjur skilgreindar sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Spurt er hvort örorkubætur séu skilgreindar sem lífeyrisgreiðslur. Kærandi geti sýnt fram á að hún hafi ekki sótt rétt í lífeyrissjóð sinn sem hún hafi borgað í þegar hún hafi verið á vinnumarkaðnum fyrir veikindi og þegar hún hafi farið á 75% örorkubætur í Svíþjóð, en þar sé hæsta örorkumat 100% eins og það ætti auðvitað að vera á Íslandi en Tryggingastofnun haldi því fram að 75% sé 100% hér. Þetta sé öðruvísi og miklu réttlátara í Svíþjóð. Það segi sig sjálft að ef kærandi væri 100% öryrki, fengi hún hærri tekjur frá Försäkringskassan sem sé sænska tryggingastofnunin.

Tryggingastofnun skýri örorkulífeyri sem lífeyrissjóðsgreiðslur til þess eins að skerða bætur kæranda. „Sjukgarantipension“ sé ekki lífeyrissjóður, kærandi sé með lífeyrissjóð á Íslandi og fái um 17.000 kr. á mánuði frá B lífeyrissjóði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um ofgreiddar bætur.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár á aldursbilinu 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Kærandi fái blandaðan lífeyri, bæði frá Íslandi og Svíþjóð, og reiknist íslenskur búsetuellilífeyrir 33,9% hér á landi hjá kæranda.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og komi eftirfarandi fram í 7. mgr. lagaákvæðisins:

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“

Í 8. tölul. 1. gr. laga um almannatryggingar séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu segi:

„Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“

Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum. Í 2. gr. reglugerðarinnar segi: „Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: „Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram varðandi ofgreiddar bætur:

„Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar eru til grundvallar bótaútreikningi reynast hærri en tekjuáætlun skv. 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Lífeyrisréttindi séu tekjutengd og séu réttindi síðan ákvörðuð út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skili inn til Tryggingastofnunar og beri þeir sjálfir ábyrgð á að áætlun sé sem næst raunverulegum tekjum þeirra. Lögð sé áhersla á að tekjuáætlanir séu sem nákvæmastar svo að hvorki komi til ofgreiðslu né vangreiðslu við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á hverju almanaksári. Greiðsluþegar geti svo hvenær sem er breytt sínum tekjuáætlunum rafrænt inn á „Mínum síðum” hjá Tryggingastofnun.

Kærandi sem sé með blandaðan lífeyri, bæði frá Svíþjóð og Íslandi, sé ósátt við að Tryggingastofnun flokki greiðslur sem hún fái frá Svíþjóð sem lífeyrisgreiðslur og telji þær eiga að flokkast frekar sem grunnlífeyri eða sem almannatryggingabætur. 

Með bréfum, dags. 19. janúar og 4. febrúar 2021, hafi Tryggingastofnun svarað fyrirspurn kæranda vegna erlendra tekna. 

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 4. febrúar 2021 hafi verið greint frá hvernig stofnunin flokki erlendur tekjur. Bent hafi verið á að allar lífeyrisgreiðslur sem ákvarðaðar væru út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda væru skilgreindar sem lífeyrisgreiðslur. Samkvæmt 10. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar séu lífeyrissjóðstekjur skilgreindar sem greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Einnig hafi verið bent á að lífeyrissjóðirnir sjái um þann hluta lífeyriskerfisins sem snúi að iðgjöldum greiddum í lífeyrissjóð en Tryggingastofnun greiði eingöngu út lífeyri sem sé tilkominn vegna búsetu hér á landi, með öðrum orðum búsetulífeyri. Þessu til skýringar hafi verið bent á að á Norðurlöndunum væru tryggingastofnanir oft að greiða bæði búsetutengdan lífeyri og lífeyri byggðan á fyrri tekjum einstaklinga á meðan Tryggingastofnun hér á landi hafi einungis með búsetutengdan lífeyri að gera. Fyrirkomulagið sé annað hér en á Norðurlöndunum þar sem lífeyrissjóðirnir greiði út lífeyri byggðan á iðgjöldum er tryggi sjóðsfélögum sínum víðtæk réttindi við starfslok, örorku og fráfall.

Lífeyrissjóðir hér á landi lúti sjálfstæðri stjórn hver og einn og séu óháðir ákvörðunum Tryggingastofnunar.

Kærandi fái lífeyrisgreiðslur frá Svíþjóð og þeim sé skipt upp annars vegar í „garantipension“ og hins vegar í „inkomstpension“ eða „tilläggpension“. Garantipension í Svíþjóð sé ákvarðað út frá búsetu í viðkomandi landi en inkomstpension/tilläggpension sé ákvarðað út frá launum eða greiðslu iðgjalda. Greiðslur geti einnig verið afleiðing af frjálsu viðbótarframlagi en sú úttekt hafi ekki áhrif á útreikning lífeyris.

Samkvæmt upplýsingum frá Försäkringskassan byggja greiðslur kæranda á atvinnu og kallast slíkar greiðslur hjá þeim „inkomstelaterad sjukersättning“ og því skrái Tryggingastofnun þetta sem lífeyri við útreikning á greiðslum.

Samkvæmt upplýsingum frá Forsäkringskassan í Svíþjóð sé inkomstelaterad sjukersättning skilgreint á eftirfarandi hátt:

Sjukersättning är en ersättning som du kan få om du är mellan 19 och 64 år och har en sjukdom eller funktionsnedsättning som gör att du aldrig kommer att kunna arbeta, varken nu eller i framtiden.“

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 19. janúar 2021 hafi kæranda einnig verið bent á að greiðslur frá Tryggingastofnun væru byggðar á búsetu einstaklinga, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Einnig að greiðslur frá Tryggingastofnun væru háðar öðrum tekjum lífeyrisþegans. Samkvæmt lögum um almannatryggingar væri meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning bóta, sbr. 2. mgr. 16. gr. fyrrgreindra laga, en í 3. og 4. mgr. væru taldar upp ívilnandi undanþágur frá þeirri meginreglu þar sem tilgreindar væru hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega, þrátt fyrir 2. mgr. laganna. 

Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið 7. gr. laganna. Í 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um tekjur sem hafi ekki áhrif og örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laganna.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skulu tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, hafi öðlast gildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004.

Í a) lið, 5. gr. fyrrnefndar reglugerðar segi: ,,ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“.

Samkvæmt ofangreindu þurfi að greina allar tekjur sem lífeyrisþegi hafi til að hægt sé að ákveða hvaða áhrif þær hafi á greiðslur Tryggingastofnunar. Lífeyrisgreiðslur sem séu grundvallaðar á fyrri atvinnuþátttöku séu skilgreindar sem lífeyrissjóðsgreiðslur þar sem upphæð þeirra ráðist af hversu há iðgjöld hafi verið greidd og hversu lengi iðgjöld hafi verið greidd fyrir viðkomandi. Samkvæmt upplýsingum frá Försäkringskassan séu greiðslur grundvallaðar á fyrri atvinnuþátttöku kæranda og því skilgreindar sem lífeyrissjóðsgreiðslur.

Kærandi hafi einnig kært álagningu skatta vegna tekjuársins 2019 vegna framtals 2020 til að álagning yrði ekki byggð á áætlun heldur á raunverulegum gjaldstofnum, sbr. bréf frá Ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2020. Fallist hafi verið á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda 2020. Í niðurstöðu Ríkisskattstjóra segi að ekki sé um gjaldabreytingar að ræða þar sem tekjuskattstofn við áætlun opinberra gjalda væri hinn sami og tekjuskattstofn á innsendu skattframtali. Úrskurður Ríkisskattstjóra hafi þar af leiðandi ekki áhrif á útreikning Tryggingastofnunar á greiðslum til kæranda.

Á eyðublaði E-001 SE frá Försäkringskassan, sem hafi borist Tryggingastofnun 18. september 2019, komi fram í reit 15 á eyðublaði E-001 SE: „We pay out sickness compensation/sjukersättning. It is income based/based on work.“ Enn fremur komi fram á eyðublaði E-001 SE frá 5 september 2019 að kærandi hafi haft greiðslur frá Försäkringskassan frá janúar 2003. Í lið 11 á eyðublaði E-101 SE komi eftirfarandi fram:

„A har haft hel sjukersättning från Försäkringskassan åtminstone sedan januari 2003. Månandsbelopp för 2019 är garantiersättning 57 SEK samt inkomstrelaterad sjukersättning 9.747 SEK/mån. Under 2017 hade hon inkomstrelateras sjukersättning með 9.391 SEK/mån.“

Eftirfarandi gögn liggi til grundvallar: E-001 SE, útg. 5. september 2019, E-001 SE, útg. 12. september 2019, E-001 SE, útg. 17. júlí 2020, greiðsluáætlun 2020 og 2021, bréf Tryggingastofnunar 19. janúar og 4. febrúar 2021 og skýrsla frá Pensionsmyndigheten.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum komi fram að tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Til skýringar þá sé frítekjumark 100.000 kr. á atvinnutekjur en ekki á lífeyrisgreiðslur. Ekki sé hægt að fallast á að greiðslur þær, sem kærandi fái frá Svíþjóð, séu eingöngu grunnlífeyrir heldur sé hér um að ræða lífeyrisgreiðslur „sjukersättning“ sem sé ein gerð af lífeyrisgreiðslum.

Tekjur sem kærandi fái frá Svíþjóð séu skilgreindar sem lífeyrissjóðstekjur og hafi áhrif á útreikning greiðslna hjá Tryggingastofnun, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi farið yfir útreikning á greiðslum til kæranda og alla tekjuliði sem liggi þar að baki og telji að kærandi hafi fengið réttar greiðslur miðað við þær tekjuforsendur sem Försäkringskassan í Svíþjóð hafi upplýst Tryggingastofnun um. 

Með vísan til ofangreinds telji Tryggingastofnun að greiðslur til kæranda séu rétt reiknaðar út.

Í svari Tryggingastofnunar frá 5. nóvember 2021 segir að til þess að eiga rétt á opinberum lífeyri í Svíþjóð þurfi einstaklingur að vera aðili að sænskum almannatryggingum. Aðild fæst annaðhvort með því að starfa, eiga heimili eða vera skráð/ur í Svíþjóð. Sé einstaklingur hættur að starfa í Svíþjóð, störf hafin í öðru landi eða hann fluttur frá Svíþjóð, haldist áunnin lífeyrisréttindi.

Til glöggvunar þá sé sænska lífeyriskerfið þrískipt, ellilífeyrir (s. allmän pension) frá eftirlaunastofnuninni (Pensionsmyndigheten), vinnumarkaðslífeyrir frá atvinnurekanda og í sumum tilvikum eigin lífeyrissparnaður.

Í Svíþjóð sé ekki greiddur örorkulífeyrir eins og tíðkist á öðrum Norðurlöndum. Þess í stað séu greiddar veikindabætur, „sjukersättning“, sem séu ígildi örorkulífeyrisgreiðslna.  „Sjukersättning“ sé þess vegna það orðahugtak sem notað sé yfir örorkulífeyri í Svíþjóð.

Veikindabætur séu greiðslur til einstaklinga eldri en 19 ára sem muni líklega aldrei geta stundað fulla vinnu vegna veikinda, slyss eða fötlunar.  Á vefsíðu Forssäkringskassan séu eftirfarandi upplýsingar: „ Sjukersättning är en ersättning du kan få om du har fyllt 19 men inte 65 år och troligen aldrig kommer att kunna arbeta heltid på grund av sjukdom, skada eller funktionsnedsättning.“

Til þess að eiga rétt á veikindabótum þurfi viðkomandi að vera almannatryggð/ur í Svíþjóð og hafa verið almannatryggð/ur þegar hann hafi veikst. Ef viðkomandi sé almannatryggð/ur í einu landi séu það reglurnar þar í landi sem skeri úr um hvort viðkomandi einstaklingur eigi rétt á bótum.

Lög og reglur er gildi koma fram í Socialförsäkringsbalken (2010:110):

„Sjukersättning

16 §   Hel sjukersättning kan lämnas tidigast från och med juli det år då den försäkrade fyller 19 år och längst till och med månaden före den månad då han eller hon fyller 65 år.

Tre fjärdedels, halv eller en fjärdedels sjukersättning kan lämnas tidigast från och med den månad då den försäkrade fyller 30 år och längst till och med månaden före den månad då han eller hon fyller 65 år. Lag (2016:1291).

17 §   Försäkringskassan ska senast tre år räknat från ett beslut om sjukersättning göra en uppföljning av den försäkrades arbetsförmåga. Försäkringskassan ska därefter, så länge den försäkrade har rätt till sjukersättning, minst vart tredje år på nytt följa upp den försäkrades arbetsförmåga.

Om den försäkrade har fyllt 60 år, behöver någon uppföljning inte göras. Lag (2016:1291).“

Upphæð veikindabóta ráðist af fyrri tekjum viðkomandi einstaklings. Hafi viðkomandi ekki stundað vinnu eða haft lágar tekjur fái hann lágmarksbætur. Upphæð lágmarksbóta ráðist af aldri og búsetu í Svíþjóð.

Á eyðublaði E-001, sem hafi fylgt með fyrri greinargerð, komi eftirfarandi fram í reit 11: „A har  haft hel sjukersä- attning från Försäkringskassan åtminstone sedan januari X“. Með öðrum orðum hafi kærandi verið með veikindabætur/örorkulífeyri að minnsta kosti frá því í janúar X.

Einnig komi fram á eyðublaði E-001, útgefnu 17. júlí 2020, eftirfarandi upplýsingar um greiðslur til kæranda:

„2014 A had 110. 472 Swedish crowns - income related sickness benefit

2015 Ahad 110. 721 Swedish crowns - income related sickness benefit

2016 A had 111. 429 Swedish crowns - income related sickness benefit

2017 A had 112. 687 Swedish crowns - income related sickness benefit

2018 A had a total sum of 114. 447 Swedish crowns - income related sickness benefit and a total of 336 crowns - guranteed sickness benefit.

2019 A had 116. 963 Swedish crowns - income related sickness benefit and 682 crowns guranteed sicknes benefit.“

Greiðslur til kæranda séu nær eingöngu örorkulífeyrisgreiðslur, að undanskildum mjög lágum fjárhæðum vegna grunnlífeyris árin 2018 og 2019. Tryggingastofnun hafi litið svo á að greiðslur sem kærandi fái séu lífeyristekjur, þ.e. greiðslur sem tilkomnar séu vegna fyrri starfa kæranda á vinnumarkaði. 

Samkvæmt upplýsingum frá Försäkringskassan séu greiðslur kæranda tilkomnar vegna atvinnu og kallast hjá þeim „inkomstelaterad sjukersättning“ og því skrái Tryggingastofnun þetta sem lífeyri.

Kærandi haldi því fram að hagstæðara sé fyrir hana að greiðslur þær sem hún fái verði flokkaðar sem almannatryggingabætur í stað þess að þær séu flokkaðar sem lífeyrissjóðsgreiðslur.

Tryggingastofnun hefur látið gera útreikning miðað við það að greiðslur séu annars vegar flokkaðar sem lífeyrissjóðstekjur og hins vegar sem almannatryggingagreiðslur.

Miðað við þær forsendur komi það mun verr út fyrir kæranda að flokka greiðslur frá Svíþjóð sem greiðslur almannatrygginga en samhliða því færi búsetuhlutfall úr 100% í 76%.

„Tafla yfir tekjur árið 2019  Tafla A

Text Description automatically generated with low confidence

Til skýringar við ofangreinda töflu A, sem miði við greiðslur frá árinu 2019, komi fram að mismunur á því að flokka greiðslur sem kærandi fái frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðsgreiðslur í stað almannatrygginga sé 85.864 kr. á ársgrundvelli sem sé hagstæðara fyrir greiðsluþega. Ef greiðslur kæranda yrðu flokkaðar eingöngu sem almannatryggingabætur yrði búseturéttur kæranda hlutfallsreiknaður í stað þess að vera 100% búsetuhlutfall.

„Tafla yfir tekjur árið 2020  Tafla B

A picture containing text Description automatically generated

Til skýringar við töflu B, sem miði við greiðslur frá árinu 2020, komi fram að mismunur á því að flokka greiðslur sem kærandi fái frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðsgreiðslur í stað almannatrygginga sé 130.024 kr. á ársgrundvelli, sem er hagstæðara fyrir greiðsluþega. Ef greiðslur kæranda yrðu flokkaðar eingöngu sem almannatryggingabætur yrði búseturéttur kæranda hlutfallsreiknaður í stað þess að vera 100% búsetuhlutfall.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að meðhöndla lífeyrisgreiðslur kæranda frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör bóta.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt E-001 (SE) vottorðum, dags. 5. september 2019 og 17. júlí 2020, fékk kærandi „inkomstrelaterad sjukersättning“ greiðslur frá Försäkringskassan í Svíþjóð á árunum 2014 til 2019. Tryggingastofnun meðhöndlaði framangreindar greiðslur sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör bóta vegna framangreindra ára. Kærandi er ósátt við það og telur að greiðslurnar falli undir almannatryggingar.

Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatryggingaog lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Það sama á við um tengdar greiðslur svo sem heimilisuppbót, sem lækkar eftir sömu reglum og tekjutrygging, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Svíþjóð er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Svíþjóð, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna.

Í máli þessu kemur til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „inkomstrelaterad sjukersättning“ greiðslur kæranda frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árunum 2014 til 2019. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „inkomstrelaterad sjukersättning“ greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Um „inkomstrelaterad sjukersättning“ er fjallað í 34. kafla socialförsäkringsbalk (2010:110). Við mat á því hvort „inkomstrelaterad sjukersättning“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæði 4 í kafla 34 ræðst fjárhæð „inkomstrelaterad sjukersättning“ af fyrri tekjum bótaþega. Þá eru greiðslurnar meðal annars fjármagnaðar með iðgjaldagreiðslum, sbr. socialavgiftslag (2000:980). Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af fyrri tekjum greiðsluþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og öðrum tekjum. Þá eru örorkulífeyrisgreiðslur ekki fjármagnaðar með iðgjöldum.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Með hliðsjón af framangreindu eðli greiðslna kæranda frá Svíðþjóð telur úrskurðarnefndin að þær hafi meiri líkindi við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum heldur en örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Við það mat lítur úrskurðarnefndin jafnframt til þess að meginreglan er sú að allar skattskyldar tekjur skerða bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefndin telur því að „inkomstrelaterad sjukersättning“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna og tengdar bætur með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Við framangreinda túlkun lítur úrskurðarnefndin jafnframt til a-liðar 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Þar segir:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“

Þrátt fyrir að bæði „inkomstrelaterad sjukersättning“ og örorkulífeyrisgreiðslur séu örorkubætur eða ígildi örorkubóta telur úrskurðarnefnd þær ekki jafngildar bætur í skilningi framangreinds ákvæðis þar sem greiðslurnar eru ólíkar, eins og áður hefur verið greint frá.

Um sérstaka uppbót til framfærslu er fjallað í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Þá kemur fram að miðað skuli við að tekjur séu undir tiltekinni fjárhæð á mánuði. Í 3. mgr. 9. gr. laganna segir að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð að tekjur kæranda frá Svíþjóð teljast til tekna við mat á því hvort hún eigi rétt á sérstakri uppbót til framfærslu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að tekjur kæranda frá Svíþjóð skuli skerða sérstaka uppbót til framfærslu.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að meðhöndla lífeyrisgreiðslur kæranda frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör bóta staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar um að meðhöndla lífeyrisgreiðslur , A, frá Svíþjóð sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning og uppgjör bóta, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum