Hoppa yfir valmynd
27. október 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 084, 27. október 2000. Fræðimannastyrkir Atlantshafsbandalagsins 2001-2003

FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

________

Nr. 084


Atlantshafsbandalagið mun að venju veita nokkra fræðimannastyrki til rannsókna og eru nú styrkir fyrir tímabilið 2001/2003 lausir til umsóknar. Umsækjendur þurfa að vera frá aðildarríkjum bandalagsins eða samstarfsríkjum þess. Gert er ráð fyrir að umsækjendur hafi lokið háskólanámi frá viðurkenndum háskóla en í undantekningartilvikum er veittur styrkur til þeirra sem ekki hafa lokið háskólagráðu.

Markmið styrkveitinganna er að stuðla að rannsóknum og aukinni þekkingu á málefnum sem snerta Atlantshafsbandalagið og er stefnt að útgáfu á niðurstöðum rannsóknanna. Styrkirnir nema nú u.þ.b. 435.000 ísl. kr. (240.000 belgískum frönkum) fyrir einstaklinga en 450.000 ísl. kr. (250.000 belgískum frönkum) fyrir stofnanir. Ætlast er til þess að unnið verði að rannsóknum frá júní 2001 til 30. júní 2003.

Einnig er veittur sérstakur styrkur, Manfred Wörner styrkurinn, sem stofnað var til í minningu fyrrverandi aðalframkvæmdarstjóra Atlantshafsbandalagsins. Hér er um einn styrk að ræða að upphæð u.þ.b. 1,440.000 ísl. kr. (800.000 belgískir frankar). Styrkur þessi er veittur viðurkenndum fræðimönnum, rannsóknarstofnunum eða fólki með mikla starfsreynslu af fjölmiðlun.

Umsóknir um styrki þessa skulu berast alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins eigi síðar en 20. desember 2000. Ákvörðun um úthlutun styrkjanna mun liggja fyrir í júní árið 2001.

Alþjóðaskrifstofa utanríkisráðuneytisins veitir nánari upplýsingar um styrkina og lætur í té þar til gerð umsóknareyðublöð. Einnig er áhugasömum bent á heimasíðu Atlantshafsbandalagins, www. nato.int, varðandi hagnýtar upplýsingar um Atlantshafsbandalagið, starf þess og sögu.






Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 27. október 2000.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum