Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Aukið aðgengi að Naloxon sem er lífsbjargandi lyf við ofskammti ópíóíða

Aukið aðgengi að Naloxon sem er lífsbjargandi lyf við ofskammti ópíóíða - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Aðgengi að lyfinu Naloxon í nefúðaformi hefur verið aukið og er nú til reiðu í sjúkraflutningbílum og hjá Frú Ragnheiði. Lyfið er notað þegar þörf er á tafarlausri neyðarmeðferð vegna ofneyslu ópíóða sem valdið getur öndunarstoppi og dauða. „Greiðara aðgengi að lyfinu er mikilvægt skaðaminnkandi úrræði fyrir jaðarsettan hóp einstaklinga sem misnota ópíóíða og því hef ég lagt áherslu á þetta verkefni“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Reynsla erlendis hefur sýnt að með greiðu aðgengi að lyfinu megi draga úr dauðsföllum af þessum ástæðum. Stefnt er að því að auka aðgengið enn frekar þannig að starfsfólk apóteka, í fangelsum og e.t.v. víðar geti veitt neyðarmeðferð með lyfinu ef þörf krefur. Notkun lyfsins felur í sér lífsbjargandi fyrstu viðbrögð við ofskömmtun en jafnframt þarf að leita aðstoðar heilbrigðisþjónustu án tafar vegna frekari meðferðar.

Ofnotkun ópíóíða er vaxandi vandamál hér á landi líkt og víða annars staðar. Ópíóíðar eru mjög ávanabindandi og þekkt að einstaklingar þróa hratt með sér fíkn og þörf fyrir sífellt stærri skammta með ört vaxandi hættu á ofneyslu með öndunarstoppi. Þeir sem reykja eða sprauta ópíóíðum í æð eru stærsti áhættuhópurinn. Vísbendingar eru um að lyfjatengd andlát séu algengari hér á landi en á Norðurlöndunum og talið að ört vaxandi notkun ópíóíða eigi þátt í þeirri þróun. Víða erlendis hafa stjórnvöld brugðist við faraldri ópíóða með því að auka aðgengi að umræddu lyfi og er með þessum aðgerðum verið að fylgja því fordæmi. Naloxon er hvorki ávanabindandi né hættulegt og eina ábendingin fyrir notkun þess er tafarlaus neyðarmeðferð við þekktri eða ætlaðri ofskömmtun ópíðóða sem kemur fram sem öndunarbæling og/eða bæling á miðtaugakerfinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum