Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2010 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmála- og mannréttindaráðherra mælti fyrir breytingum á útlendingalögum og happdrættislöggjöf

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur mælt fyrir tveimur frumvörpum er snerta breytingar á útlendingalögum og frumvarpi um hert auglýsingabann í happdrættislöggjöfinni.

Breytingar á útlendingalögum

Mansal
Í frumvarpinu er lagt til að tveimur nýjum ákvæðum um dvalarleyfi verði bætt við lög um útlendinga til hagsbóta fyrir fórnarlömb mansals. Annars vegar er um að ræða ákvæði um tímabundið dvalarleyfi í sex mánuði sem Útlendingastofnun skal veita einstaklingi sé fyrir hendi grunur um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Hins vegar er um að ræða ákvæði um að heimilt sé að veita fórnarlambi mansals endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs vegna persónulegra aðstæðna þess og/eða vegna samvinnu við yfirvöld í tengslum við rannsókn eða við meðferð sakamáls.

Ýmis ákvæði
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laga um útlendinga, m.a. að fellt verði úr 11. og 15. gr. laganna að atvinnuleysisbætur sem og greiðslur úr almannatryggingum teljist ekki til tryggrar framfærslu við mat á því hvort skilyrði er fyrir veitingu dvalarleyfis eða búsetuleyfis hér á landi og að ákvörðun um brottvísun EES-borgara sem skráð hefur búsetu sína hér á landi í Þjóðskrá, verði ekki framkvæmanleg fyrr en ákvörðunin er endanleg.

Breyting á happdrættislöggjöf

Samkvæmt lögum um happdrætti nr. 38/2005 er óheimilt að reka hér happdrætti þar sem spilað er um peninga eða peningaígildi nema samkvæmt sérstakri lagaheimild. Í frumvarpinu sem nú er lagt fram er lögð til breyting á orðalagi til að taka af allan vafa um það að refsivert er að auglýsa, kynna eða miðla hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögunum eða uppfyllir ekki skilyrði laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum