Hoppa yfir valmynd
23. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Aldrei verið jafn mikil þörf á fjölþjóðasamstarfi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á 78. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna - myndUN Photo/Manuel Elías

Mikilvægi þess standa vörð um gildi Sameinuðu þjóðanna, fjölþjóðasamstarf, mannréttindi og frelsi einstaklingsins var leiðarstefið í ræðu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í kvöld. Ástand mannréttinda í Afganistan og Íran, réttindi hinsegin fólks og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu voru á meðal helstu umræðuefna ræðunnar. 

Ráðherravika allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í New York og í ræðum kynna ráðherrar aðildarríkjanna utanríkisstefnu sína og sýn á heimsmálin. Í upphafi ávarps Þórdísar Kolbrúnar fjallaði hún um áskoranirnar sem nú steðja að heimsbyggðinni og virða engin landamæri. 

„Við höfum aldrei í mannkynssögunni verið jafn háð hvort öðru eða þurft að reiða okkur jafn mikið á hvort annað. Vandamál sköpuð af fáum geta haft skelfilegar afleiðingar fyrir aðra. Hatursfull orðræða sem notuð er í pólitískum tilgangi í einu ríki getur borist með ljóshraða yfir landamæri og eitrað þjóðfélagsumræðuna í öðrum ríkjum. En það eru líka aðrir og meira upplífgandi þættir sem fylgja þessum veruleika. Lausnir uppgötvaðar í hvaða fjarlæga svæði heims er hægt að flytja og nýta um heim allan á augabragði. Nýjar hugmyndir í menningu, vísindum og pólitískri hugsun virða heldur engin landamæri,“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni. 

Í framhaldinu benti Þórdís Kolbrún á þá staðreynd að í sífellt tengdari heimi væri fjölþjóðasamstarf hins vegar í alvarlegri tilvistarkreppu. „Ég tel okkur standa á mikilvægum tímamótum. Þegar við lítum til baka á þennan tíma — eftir 30 ár — þá munum við annað hvort líta til baka með sorg og skelfingu yfir stórslysum sem hefði verið hægt að forðast, eða við munum muna stund styrkleikans, þegar alþjóðakerfið sannaði að það gæti staðist sínar erfiðustu prófraunir án þess að bresta,“ sagði hún.

Mannréttindamál voru fyrirferðarmikil í ræðunni og nefndi hún ástand mannréttinda í Afganistan og Íran sem dæmi og alvarlegt bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks víða um heim. „Af öllu því sem fólk velur að hafa áhyggjur af – get ég einfaldlega aldrei skilið hvers vegna fólk ætti ekki að hafa frelsi til að elska og vera elskað eins og það er,“ sagði Þórdís Kolbrún en hún fjallaði einnig um stöðu stjórnarandstæðinga í Belarús sem hafa verið fangelsaðir og sendir í útlegð, á meðan valdhafar styðja við innrásar stríð Rússlands í Úkraínu. 

„Víða um heim er fólki refsað fyrir skoðanir sínar og fyrir að ögra yfirvöldum. Víða er verið að grafa undan borgaralegu samfélagi, fjölmiðlum og tjáningafrelsi, ekki aðeins í einræðisríkjum, heldur um allan heim. Tilfellum þar sem fólk er handtekið af geðþótta af stjórnvöldum fer fjölgandi og er gríðarlegt áhyggjuefni. Við erum að horfa upp á hættulega þróun og hnignun lýðræðislegra gilda og borgaralegra réttinda, oft undir forystu popúlískra stjórnmálamanna sem bjóða upp á einfaldar lausnir við flóknum vandamálum. Þeir dreifa tortryggni, röngum upplýsingum og ýta undir skautun í samfélögum sínum. Þetta gera þeir í krafti sömu mannréttinda og þeir eru að grafa undan.“

Innrás Rússlands í Úkraínu var ráðherra einnig ofarlega í huga. „Þetta brjálæði hefur verið viðvarandi í meira en 18 mánuði og er alfarið á ábyrgð fastafulltrúa öryggisráðsins, sem ætti að starfa eftir gildum Sameinuðu þjóðanna sem verndari alþjóðlegs friðar og öryggis. Þess í stað kýs Rússland að brjóta stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðalög með því að ráðast grimmilega á nágrannaríki sitt,“ sagði utanríkisráðherra og sagði Ísland stolt af því að hafa verið í formennsku þegar Evrópuráðið ákvað í maí síðastliðnum að setja á fót tjónaskrá vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Það hafi verið mikilvægt skref í að leita skaðabóta eftir stríðið og draga gerendur til ábyrgðar.

Ráðherra lauk ávarpi sínu með því að minna á þá staðreynd að mannkynið skapar ekki einungis vandamál, heldur einnig lausnir sem sumar hverjar jaðri við kraftaverk. Sameinuðu þjóðirnar séu ein af þessum manngerðum lausnum við manngerðum vandamálum, en Sameinuðu þjóðirnar verði að vera nútímalegar og breytast í takt við tímann. „Þetta samstarf – kraftaverk mannsandans þegar það var fyrst sett á laggirnar – verður að ávinna sér lögmæti sitt aftur og aftur, þar sem nýjar kynslóðir koma í stað þeirra sem geyma minningar um hvers vegna núverandi heimsskipan, með öllum sínum göllum, er enn algjörlega æðra öllum öðrum valkostum,“ sagði Þórdís Kolbrún að lokum. 

Þess má geta að fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, Jörundur Valtýsson, sat í forsæti allsherjarþingsins þegar ráðherra flutti ræðuna og kynnti hana til leiks.

Ræðu utanríkisráðherra á allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum