Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2025 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 10/2025. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 27. maí 2025
í máli nr. 10/2025:
Félag atvinnurekenda
gegn
Fjársýslu ríkisins og
Hornafirði

Lykilorð
Kröfu um stöðvun innkaupaferlis hafnað.

Útdráttur
Kærunefnd útboðsmála hafnaði stöðvunarkröfu kæranda þar sem skilyrði 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup voru ekki talin uppfyllt.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 23. apríl 2025 kærði Félag atvinnurekenda (hér eftir „kærandi“) útboð Fjársýslu ríkisins f.h. sveitarfélagsins Hornafjarðar (hér eftir sameiginlega vísað til sem „varnaraðila“) nr. 23159/2 auðkennt „Lunch meals for primary schools at Hornafjarðar / 2“.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli varnaraðila um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru með vísan til 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þess er einnig krafist að útboðið verði fellt úr gildi og kærunefnd útboðsmála leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið á nýjan leik með vísan til 1. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Í öllum tilvikum er jafnframt gerð krafa um að kærunefnd útboðsmála veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og að varnaraðilar greiði kæranda málskostnað við að hafa kæruna uppi með vísan til 2. og 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016.

Í greinargerð varnaraðila Fjársýslu ríkisins 2. maí 2025 er þess krafist fyrir hönd beggja varnaraðila að kærunefnd útboðsmála hafni öllum kröfum kæranda með endanlegum úrskurði.

Varnaraðili Fjársýsla ríkisins birti auglýsingu fyrir hönd varnaraðila sveitarfélagsins Hornafjarðar innanlands og á útboðsvef Evrópusambandsins 4. apríl 2025. Samkvæmt auglýsingunni var um að ræða útboð á skólamáltíðum fyrir Grunnskóla Hornafjarðar til þriggja ára með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn, sbr. grein 1.1 í útboðsgögnum. Þá var tekið fram í grein 1.2.1 í útboðsgögnum að þjónustan félli undir hina svokölluðu „léttu leið“ í samræmi við VIII. kafla laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Að auki voru gerðar tilteknar kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda í grein 1.3.8. Skyldu bjóðendur m.a. búa yfir framleiðslueldhúsi þar sem hægt væri að framleiða mat fyrir að lágmarki 250 manns, að bjóðendur hefðu a.m.k. tveggja ára reynslu af sambærilegum verkefnum. Enn fremur var gert að skilyrði í grein 1.1.3.1 að maturinn skyldi eldaður á Höfn eða í 15 km radíus frá Höfn, en viðmið þetta væri sett fyrst og fremst til þess að tryggja afhendingu á mat í skólann, t.d. vegna veðurs, og að gæði matarins og ferskleiki væri sem bestur. Tilboðsfrestur var til 20. maí 2025.

Kærandi telur að auglýsing hins kærða útboðs sé haldin annmörkum, þar sem því sé haldið fram að um sé að ræða innkaup varnaraðila Fjársýslu ríkisins en ekki varnaraðila Hornafjarðar, auk þess sem engar hæfiskröfur hafi komið fram í auglýsingunni. Að auki telur kærandi að ranglega sé tilgreint að hin kærðu innkaup falli undir „léttu leiðina“ samkvæmt VIII. kafla laga nr. 120/2016. Enn fremur gerir kærandi athugasemdir við kröfur í grein 1.3.8 í útboðsgögnum, sem hann telji í andstöðu við 15. gr. laga nr. 120/2016 um jafnræði og gegnsæi. Varnaraðilar telja ekki tilefni til þess að stöðva innkaupaferlið enda sé skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 ekki fullnægt. Benda varnaraðilar m.a. á að eðli innkaupanna sé þjónusta sem falli undir tiltekinn CPV kóða sem leiði til þess að innkaupin séu réttilega felld undir „léttu leiðina“, sbr. reglugerð nr. 1000/2016 um innkaup sem falla undir félagsþjónustu og aðra sértæka þjónustu samkvæmt lögum um opinber innkaup. Þá séu málefnalegar ástæður að baki skilyrðinu um að maturinn sé eldaður á Höfn eða í 15 km radíus frá Höfn. Enn fremur hafi kærandi ekki sýnt fram á að þær kröfur sem gerðar séu til bjóðenda brjóti gegn meginreglum 15. gr. laga nr. 120/2016.

Hinn 20. maí 2025 sendi varnaraðili Fjársýsla ríkisins tölvupóst til kærunefndar útboðsmála og upplýsti að tilboð hefðu verið opnuð þann sama dag og engin tilboð hefðu borist í hinu kærða útboði. Yrði því enginn samningur gerður á grundvelli útboðsins.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem getur leitt til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Fyrir liggur staðfesting frá varnaraðila Fjársýslu ríkisins að engin tilboð hafi borist í hinu kærða útboði og enginn samningur verði því gerður á grundvelli útboðsins. Af því leiðir að hvorki er til staðar innkaupaferli né er fyrirhuguð samningsgerð sem geta verið andlag kröfu um stöðvun. Kröfu kæranda þess efnis er því hafnað.

Úr öðrum kröfum verður leyst með úrskurði þegar aðilar hafa skilað endanlegum sjónarmiðum sínum í málinu og lagt fram þau gögn sem þeir telja máli skipta.

Ákvörðunarorð

Hafnað er kröfu kæranda, Félags atvinnurekenda, um að innkaupaferli varnaraðila, Fjársýslu ríkisins og Hornafjarðar, nr. 23159/2 auðkennt „Lunch meals for primary schools at Hornafjarðar / 2“, verði stöðvað um stundarsakir.


Reykjavík, 27. maí 2025


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta