Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 140/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 26. nóvember 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 140/2015

í stjórnsýslumáli nr. KNU15030014

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 19. mars 2015 barst kærunefnd útlendingamála kæra [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi) á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. mars 2015, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi og endursenda hann til Ítalíu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um hæli til efnislegrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um hæli á Íslandi þann 9. september 2014. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum á Ítalíu og í Sviss. Þann 9. september 2014 var beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda á Ítalíu, sbr. 1. mgr. 18. gr. reglugerðar evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 26. september s.á. barst svar frá ítölskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 2. mars 2015 að taka ekki umsókn kæranda um hæli hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Ítalíu. Kærandi kærði ákvörðunina þann 19. mars 2015 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 7. maí 2015. Greinargerð kæranda, ásamt fylgiskjölum, barst kærunefndinni 4. maí sl. Þann 9. september sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar, dags. 2. mars 2015, var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Ítalíu.

Útlendingastofnun mat það svo að skoða þyrfti sérstaklega hvort senda eigi einstaklinga sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu til Ítalíu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að ekkert sé því til fyrirstöðu að umsækjandi verði sendur aftur til Ítalíu. Hann væri tæplega 25 ára karlmaður sem samkvæmt skýrslu sálfræðings og upplýsingum frá lækni [...]. Í 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sé tekið fram að aðildarríki skuli skiptast á heilbrigðisupplýsingum um aðila svo það ríki sem beri ábyrgð geti tryggt að öllum sérþörfum sé mætt á viðeigandi hátt. Þetta sé áréttað í samþykki ítalskra stjórnvalda um endurviðtöku kæranda, þar sem þess sé krafist að ítölsk stjórnvöld séu upplýst með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara um líkamlegt og andlegt heilsufar kæranda auk annarra þeirra upplýsinga sem gætu haft áhrif á móttöku hans hjá ítölskum stjórnvöldum. Því liggi fyrir að ítölsk stjórnvöld hafi ábyrgst að taka á móti sjúkum einstaklingum með viðeigandi hætti. Auk þess er vísað í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Tharakhel gegn Sviss, nr. 29217/12, frá 4. nóvember 2014 og A.M.E. gegn Hollandi nr. 51428/10 frá 13. janúar 2015, til stuðnings þess mats.

Lagt var til grundvallar að Ítalía virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins sem hafi bent til þess að kærandi myndi standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á Ítalíu vegna aðbúnaðar eða meðferðar hælisleitenda þar í landi. Þá kemur fram að með því að samþykkja að taka aftur við umsækjanda hafi ítölsk stjórnvöld skuldbundið sig til að fjalla um mál hans og veita honum húsnæði og aðra þjónustu sem honum ber, þurfi hann á henni að halda. Kærandi var ekki talinn hafa slík sérstök tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveður þann tíma sem hann dvaldi á Ítalíu hafa verið honum erfiður, hann hafi dvalið í flóttamannabúðum í sex mánuði og fengið vasapening, en eftir það verið húsnæðislaus, búið á götunni, verið atvinnulaus og ekki haft aðgang að menntun. Kærandi kveðst ekki vilja fara aftur til Ítalíu því þar bíði hans einungis eymd og óvissa. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi haft sagt að hælisumsókn hans hér á landi væri hans síðasti möguleiki á betra lífi og yrði niðurstaðan sú að senda hann til Ítalíu sæi hann engan annan kost en að binda enda á líf sitt. Í kjölfarið hafi kærandi farið í sálfræðimat, sbr. meðfylgjandi skýrslu [...] sálfræðings, dags. 17. nóvember 2014. Þar kemur fram að kærandi [...]. Hann eigi [...]. Fyrir kæranda var lagður DASS spurningalisti og sýndu niðurstöður hans [...]

Læknisvottorð um andlegt ástand kæranda, útgefið af [...] lækni á Heilsugæslunni Hlíðum, var unnið var að beiðni Útlendingastofnunar. Þar kemur meðal annars fram að [...].

Í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála þann 9. september 2015 kvaðst kærandi ekki ganga lengur til sálfræðings en hann finni þó enn fyrir [...]. Þá kom fram að kærandi væri [...] og væri í meðferð við sjúkdómi sínum hér á landi.

Í greinargerð kæranda er fjallað um stöðu hælismála og aðbúnað hælisleitenda á Ítalíu. Hæliskerfið hafi verið gagnrýnt og sætt athugasemdum frá stofnunum, svo sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, og í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu svo sem í dómi Tharakhel gegn Sviss nr. 29217/12 frá 4. nóvember 2014. Þá er vísað til skýrslna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, norsku flóttamannamannasamtakanna NOAS og skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins. Í greinargerð kæranda kemur fram að það sé mat talsmanns að kerfisbundinn galli sé á aðbúnaði og málsmeðferð hælisleitanda á Ítalíu. Slíkur kerfisbundni galli leiði til þess að kærandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði hann endursendur til Ítalíu. Að mati talsmanns kæranda leiki vafi á því hvort íslensk stjórnvöld séu meðvituð um galla á hæliskerfinu á Ítalíu. Þá er því haldið fram að vafasamt sé að unnt sé að draga þá ályktun af dómi Tharakhel gegn Sviss að sýna þurfi fram á kerfisbundinn galla. Þar að auki sé ekki óvarlegt að halda því fram að ítölsk stjórnvöld hafi brotið gegn tilskipun Evrópusambandsins nr. 2003/9/EB um móttöku hælisleitenda í máli kæranda, og þá sérstaklega 13. gr. hennar.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi nr. 30696/09, frá 21. janúar 2011, er rakinn í greinargerð kæranda, og því haldið fram að líkindi séu með aðstæðum hælisleitandans í þeim dómi og aðstæðum kæranda á Ítalíu í máli þessu. Kærandi hafi lifað á götunni eftir sex mánaða dvöl í móttökumiðstöð á vegum ítalska ríkisins, yfirvöld hafi ekki séð honum fyrir mat eða aðstöðu til að þvo sér auk þess sem hann hafi ekki fengið fjárhagsaðstoð eða fatnað. Kærandi þjáist [...] og það setji hann í stöðu sérstaklega viðkvæms hælisleitanda.

Talsmaður kæranda kveður kæranda vera sérstaklega viðkvæman einstakling og telur að gögn málsins beri það með sér að hann sé ekki í andlegu ástandi til þess að þola flutning til Ítalíu og fylgja hælisumsókn sinni eftir þar í landi, með tilheyrandi óvissu um húsnæði, atvinnu, menntun og geðheilbrigðismál. Í greinargerð kæranda kemur fram að telja verði það opinbera og yfirlýsta afstöðu íslenskra stjórnvalda að einstaklingar sem geta talist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu skuli ekki endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar í ljósi ástands hælismála þar. Varðandi þessa afstöðu er vísað til yfirlýsingar innanríkisráðuneytisins frá maí 2014 og dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tharakhel gegn Sviss. Í greinargerð kæranda kemur fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar virðist ekki hafa verið tekin afstaða til þess hvort kærandi sé sérstaklega viðkvæmur einstaklingur. Hvort sem kærandi sé viðkvæmur eða ekki virðist Útlendingastofnun telja það nóg til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum og alþjóðasamningum að stofnunin muni gera ítölskum stjórnvöldum viðvart um heilsufar kæranda. Þessu mótmælir talsmaður kæranda og telur slíka nálgun ekki eiga stoð í lögum, þjóðréttarsamningum eða dómafordæmum alþjóðadómstóla, þar með talið niðurstöðu í máli Tharakhel gegn Sviss.

Þá sé það talið að endursending kæranda til Ítalíu muni brjóta gegn meginreglu þjóðaréttar um „non-refoulement“. Að auki myndi endursending brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að ítölsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort Útlendingastofnun hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að taka ekki umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar og vísa honum til Ítalíu. Úrlausnarefni málsins er afmarkað við það hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd.

Í máli þessu gilda aðallega ákvæði laga um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, ákvæði reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Auk þess ber að taka mið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um hæli sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla hennar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Jafnframt ber að líta til annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Í d-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga kemur fram að stjórnvöld geti, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað að taka til efnismeðferðar hælisumsókn ef krefja megi annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda (Dyflinnarmál). Þó kemur fram í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis hafi hann slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða sérstakar ástæður mæli annars með því. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má einnig ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Við mat á því hvort beita skuli þessum ákvæðum í Dyflinnarmálum þarf einkum að kanna hvort aðstæður hælisleitenda í því ríki, sem endursenda á hælisleitanda til samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, kunni að brjóta gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sé svo er óheimilt að senda hælisleitandann þangað og skal þá taka hælisumsókn viðkomandi til efnismeðferðar hér, sbr. einnig undanþágureglu 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Eftir atvikum þarf enn fremur að skoða hvort slíkur ágalli sé á málsmeðferð þess ríkis, sem endursenda á til, að það brjóti í bága við 13. gr. mannréttindasáttmálans.

Þann 4. nóvember 2014 var kveðinn upp dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss nr. 29217/2012. Þar reyndi á hvort heimilt væri að senda afganska fjölskyldu til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða dómsins var sú að ýmis vandamál hafi risið í tengslum við aðstæður flóttamanna á Ítalíu. Þótt þau væru ekki kerfislæg með þeim hætti að þau kæmu almennt séð í veg fyrir endursendingu flóttamanna þangað væri ástæða til alvarlegra efasemda um getu hæliskerfisins á Ítalíu til þess að tryggja viðunandi móttökuskilyrði hælisleitenda. Taldi dómstóllinn að ekki væri hægt að útiloka að töluverður fjöldi flóttamanna gæti átt á hættu að vera annað hvort án húsnæðis eða hýstir í óviðunandi aðstæðum. Í málinu var um að ræða fjölskyldu með börn og taldi dómurinn að vegna viðkvæmrar stöðu þeirra hefði svissneskum yfirvöldum borið að kanna, áður en hún yrði send til Ítalíu, hvort þeim yrði tryggðar viðunandi aðstæður og að fjölskyldunni yrði haldið saman. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011 kemur einnig fram að þótt engin börn fylgi hælisleitanda telji dómstóllinn það geti verið brot á 3. gr. sáttmálans ef hælisleitendur fá enga húsnæðisaðstoð og hafa enga möguleika á að tryggja grunnþarfir sínar.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu í málum er varða Grikkland og Ítalíu getur sú staða komið upp að óheimilt sé að endursenda hælisleitendur til einstakra ríkja vegna ástands í viðkomandi móttökuríki. Aðildarríki mannréttindasáttmálans verða að vera meðvituð um alvarlega galla við meðferð hælisumsókna eða í móttöku hælisleitenda í því aðildarríki sem endursenda skal til á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Verður því að skoða aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð á Ítalíu.

Almenn móttökuskilyrði á Ítalíu

Í greinargerð kæranda er því haldið fram að aðstæður kæranda á Ítalíu séu sambærilegar þeim aðstæðum sem reyndi á í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi frá 21. janúar 2011. Í dóminum voru bæði ríkin talin hafa gerst brotleg við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Grikkland var talið hafa gerst brotlegt m.a. vegna aðstæðna sem hælisleitandanum voru búnar vegna stórfelldra og kerfisbundinna brotalama á grísku hæliskerfi. Var það jafnframt niðurstaða dómsins að Belgía hafi gert hælisleitandanum að sæta ómannlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans með því að hafa flutt hann, á grundvelli eldri Dyflinnarreglugerðar, til Grikklands. Mannréttindadómstóllinn tók m.a. mið af því að fyrir hafi legið skýrslur frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um aðbúnað og meðferð hælisleitenda í Grikklandi. Jafnframt leit dómstóllinn m.a. til þess að í apríl 2009 hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ritað belgískum stjórnvöldum og farið þess á leit að flutningar hælisleitenda til Grikklands yrðu stöðvaðir. Dómstóllinn tók fram að belgískum stjórnvöldum hefði borið að kannað aðstæður í Grikklandi en það hefði ekki verið gert og að gallar á grískri stjórnsýslu hlytu að hafa verið belgískum stjórnvöldum ljósir.

Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir skýrslur um aðstæður og málsmeðferð á Ítalíu, sbr. Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, janúar 2015); Asylum Information Database. National Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2014); UNHCR Reccommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013); UNHCR Reccommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2012); Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014); Country Factsheet Italy (European Union Agency for Fundamental Rights, 1. september 2010); Reception conditions in Italy. Report on the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, október 2013); UNHCR proposals to address current and future arrivals of asylum-seekers and migrants by sea to Europe (UNHCR, mars 2015); [...]

Af framangreindum gögnum má sjá að ítölsk yfirvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar hælisleitenda þar í landi. Samkvæmt ofangreindum skýrslum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur stofnunin meðal annars gagnrýnt skipulag og bolmagn ítalsks hæliskerfis til að taka við skyndilegu og verulegu flæði flóttamanna til landsins. Þá hefur stofnunin einnig gert athugasemdir við brotakennd móttökuskilyrði hælisleitenda og aðbúnað. Jafnframt hefur Flóttamannastofnun gagnrýnt að aðstoð við sérstaklega viðkvæma hælisleitendur sé oft ófullnægjandi vegna skorts á samhæfingu þjónustuaðila og eftirfylgni. Verður af framangreindu ráðið að ítölsk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja. Hinsvegar hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi hælisleitenda til Ítalíu. Hælisleitendum er tryggður aðgangur að hæliskerfinu í ítölskum lögum, sem felst meðal annars í aðgangi að gistingu og annarri þjónustu. Bið getur þó verið eftir gistirými í móttökumiðstöðvum, sem getur leitt til þess að einstaklingar þurfi að leita annarra úrræða. Af nýlegri skýrslu Asylum Information Database, Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, janúar 2015) má ráða að ítölsk stjórnvöld hafa ráðist í aðgerðir varðandi skipulagningu hæliskerfisins þar í landi og til þess að fjölga gistirýmum fyrir hælisleitendur meðal annars í samvinnu við sveitarfélög landsins. Þá hefur fleiri bráðabirgðaúrræðum verið komið á fót.

Fjölskipaðar svæðisnefndir fjalla um og taka ákvarðanir um hælisumsóknir og eru meðal annars skipaðar fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Við úrlausn hælisbeiðna byggja svæðisnefndir á afstöðu og leiðbeiningum Flóttamannastofununar. Hælisleitandi á þess kost að bera synjun svæðisnefndanna undir dómstól og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls.

Að mati kærunefndar útlendingamála gefa skýrslur og gögn um aðstæður hælisleitenda og málsmeðferð á Ítalíu, sem kærunefndin hefur kynnt sér, ekki tilefni til að líta svo á að þær aðstæður og málsmeðferð sem hælisleitendur búa við á Ítalíu séu sambærilegar þeim sem hælisleitandinn í ofangreindum dómi Mannréttindadómstólsins bjó við. Í því efni hefur kærunefndin einnig tekið mið af dómi hæstaréttar frá 1 október 2015 í máli nr. 114/2015 þar sem fjallað var um málsmeðferð og skilyrði til móttöku hælisleitanda á Ítalíu og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri fyrir hendi kerfislægur galli sem leiddi til þess að hælisleitandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta þar ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 45. gr. útlendingalaga.

Að virtum gögnum málsins er það því mat kærunefndar að ágallar á aðbúnaði og móttökuskilyrðum hælisleitenda og þeirra sem hafa þegar hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu verði ekki taldir svo alvarlegir að þeir gefi ástæðu til að ætla að kærandi muni standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð á Ítalíu verði hann sendur þangað. Þá benda gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns á Ítalíu, bæði fyrir landsrétti og Mannréttindadómstól Evrópu. Endursending kæranda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar felur því ekki í sér brot á 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 13. gr. hans. Kærunefndin hefur einnig til hliðsjónar við mat sitt að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu hælisleitenda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Hælisleitendur í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu telur kærunefndin að skoða þurfi sjálfstætt hverju sinni hvort kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Kærandi er 25 ára gamall karlmaður. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. september 2014, kvaðst kærandi að mestu vera við góða heilsu. Þá kvað kærandi heilsufar sitt gott í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 22. september 2014, en hafi þó fundið fyrir [...]. Í gögnum máls liggja fyrir skýrslur læknis og sálfræðings og gögn um [...], sbr. það sem áður var rakið í málsástæðum kæranda. Þá kom fram í viðtali kæranda hjá kærunefnd útlendingamála að hann gengi ekki lengur til sálfræðings en hann kveðst enn finna fyrir [...] þó honum [...]. Þar að auki kom fram í viðtali hjá kærunefnd að kærandi væri [...] og væri í meðferð við [...] hér á landi. Kærunefnd hafa ekki borist frekari gögn um [...] kæranda.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru afar rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu veitta af endursendingarríki. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

Í nýlegum dómi Mannréttindadómstólsins í máli A.S. gegn Sviss nr. 39350/13 frá 30. júní 2015, var það ekki talið brjóta gegn 3. gr. sáttmálans að flytja sýrlenskan hælisleitanda til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að hann væri haldinn alvarlegri áfallastreituröskun. Dómurinn leit til þess að hælisleitandinn var ekki lífshættulega veikur og á þeim tíma sem dómur var kveðinn upp hefði ekkert gefið til kynna að hann myndi ekki fá viðeigandi sálfræðimeðferð yrði hann sendur til Ítalíu. Þótt dómstóllinn hafi áður haft alvarlegar efasemdir um getu hæliskerfisins á Ítalíu til þess að tryggja viðunandi móttökuskilyrði hælisleitenda, sbr. áðurnefndan dóm í máli Tarakhel gegn Sviss, þá gætu móttökuskilyrði þar ein og sér ekki réttlætt útilokun á endursendingu allra hælisleitenda til Ítalíu.

Af þeim skýrslum og gögnum sem kærunefndin hefur skoðað um aðstæður á Ítalíu er ljóst að kærandi getur leitað sér aðstoðar vegna heilsufarsvandamála sinna þar í landi, bæði vegna [...] sbr. meðal annars skýrslur [...].

Í ljósi alls ofangreinds og sérstaklega mats Mannréttindadómstóls Evrópu í máli A.S. gegn Sviss á stöðu hælisleitanda með alvarlega áfallastreituröskun, er það mat kærunefndar að gögn málsins gefi ekki ástæðu til að líta svo á að kærandi sé í svo sérstaklega viðkvæmri stöðu að ekki sé unnt að fallast á endursendingu hans til Ítalíu. Hins vegar, í ljósi veikinda kæranda, beinir kærunefndin því til Útlendingastofnunar að tryggja að fyrir endursendingu kæranda verði ítölsk stjórnvöld upplýst um heilsufar kæranda í samræmi við 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, eins og beðið er um í samþykki ítalskra stjórnvalda á endurviðtöku kæranda. Ennfremur beinir kærunefndin til Útlendingastofnunar að áður en til flutnings kemur verði aflað staðfestingar frá ítölskum stjórnvöldum um að kærandi fái viðeigandi meðferð við sjúkdómi sínum.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 22. september 2014 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

Í máli þessu hafa ítölsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um hæli á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er fallist á að Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja um efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli hér á landi og ákveða að senda kæranda til Ítalíu með vísan til d-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum