Hoppa yfir valmynd
26. mars 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntastefna samþykkt á Alþingi

   - myndEggert Jóhannesson / Morgunblaðið
Alþingi samþykkti í vikunni þingsályktun um menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030.

„Stefna þessi er afrakstur yfirgripsmikillar vinnu, samráðs við skólasamfélagið og leiðsagnar sérfræðinga hér heima og erlendis sem staðið hefur yfir frá árinu 2018. Mig langar að þakka þeim mörgu sem lagt hafa sitt af mörkum í þessu mikilvæga verkefni og miðlað af þekkingu sinni og reynslu – nú er stefnan sett og annað spennandi verkefni að hefjast, að koma henni til framkvæmda. Stefnan tekur mið af því hvernig menntun styrkir, verndar og vekur viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga, en á því þurfum við sannarlega að halda nú um stundir. Markmið okkar er og verður að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Stefnunni, sem ætlunin er að innleiða í þremur tímabilum, er skipt upp í fimm meginþætti: jöfn tækifæri fyrir alla, kennsla í fremstu röð, hæfni fyrir framtíðina, vellíðan í öndvegi og gæði í forgrunni. Einkunnarorð nýrrar menntastefnu eru „framúrskarandi menntun alla ævi“ og gildi hennar þrautseigja, hugrekki, þekking, hamingja og sjálfbærni.

Við upphaf hvers innleiðingartímabils verður lögð fram áætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum. Ráðgert er að leggja fyrstu áætlunina fram á næstu mánuðum. Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD) er stjórnvöldum til ráðgjafar við undirbúning innleiðingarinnar og verður fyrirkomulag hennar útfært í nánu samstarfi við samstarfsaðila á öllum skólastigum og aðra hagaðila.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum