Hoppa yfir valmynd
20. október 2017 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

X. Umhverfisþing hafið

Umhverfis- og auðlindaráðherra hóf Umhverfisþing með vísun í sjónvarpsþættina Game of Thrones. - mynd

X. Umhverfisþing hófst í Silfurbergi, Hörpu kl. 9 í morgun.  Að þessu sinni eru loftslagsmál í brennidepli þingsins.

Þingið hófst með ávarpi Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem ræddi mikilvægi þess að vera samstíga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ráðherra kom víða við í ávarpi sínu, ræddi núverandi stöðu Íslands og framtíðarsýn sína í loftslagsmálum og kom ævintýraheimur Game of Thrones þáttanna m.a. við sögu.  Nálgast má ræðu ráðherra á vef Stjórnarráðsins.

Heiðursgestur þingsins er Mónica Araya sem er virt sem fræðimaður og baráttukona í umhverfismálum í sínu heimalandi, Kosta Ríka í Mið-Ameríku. Þar hafa stjórnvöld lengi haft þá sýn að gera umhverfisvernd hátt undir höfði – vernda regnskóga og aðrar náttúruperlur, sýna gætni í nýtingu auðlinda og metnað í umhverfismálum í alþjóðlegri umræðu.

 

Umhverfisþing er þétt setið

 

Á þinginu í dag verða. m.a. viðruð sjónarmið framhaldsskólanema um framtíðina og loftslagsmál, fjallað verður um áhrif loftslagsbreytinga á Ísland og hafið í kring, sagt verður frá stöðu Íslands gagnvart Kýótó-bókuninni, möguleikum til að draga úr losun og framtíðarsýn lýst. Þá verður rætt um orkuskipti, loftgæði og lýðheilsu, bindingu kolefnis og ábata fyrirtækja af umhverfisstarfi. Að lokum verður pallborð þar sem ýmsir aðilar ræða loftslagsmálin út frá ólíkum sjónarhornum.

Beina útsendingu frá þinginu má nálgast hér.

Dagskrá þingsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum