Hoppa yfir valmynd
17. október 2008 Innviðaráðuneytið

Aðgerðum hraðað vegna fjárhagsstöðu sveitarfélaga

Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði á fyrsta ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í dag að samgönguráðuneytið væri að undirbúa aðgerðir vegna bágrar fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Verður hraðað greiðslum úr Jöfnunarsjóði og flýtt 250 milljóna króna greiðslu til sveitarfélaga vegna samdráttar í aflamarki.

Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Kristján L Möller flutti ræðu á fyrsta ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitar-félaga sem haldinn var í dag.

Ráðherra samgöngu- og sveitastjórnarmála ræddi efnahagsmál og fjárhagsstöðu sveitarfélaga á ársfundinum en auk ræðu ráðherra flutti Elín Pálsdóttir, forstöðumaður sjóðsins, skýrslu um starfsemi hans og fjárhag á síðasta ári og Sigurður Tómas Björgvinsson kynnti úttekt á átaki um eflingu sveitastjórnarstigsins á árunum 2003 til 2006.

Í ræðu sinni á ársfundinum sagði Kristján L. Möller meðal annars að það myndi taka nokkurn tíma að ná aftur nauðsynlegum stöðugleika í fjármálastarfsemi landsins. Hann sagði mikilvægt að ríki og sveitarfélög stæðu saman um að varðveita grunnþjónustu og velferð borgaranna. Fagnaði hann sérstaklega því frumkvæði sem nokkur sveitarfélög hefðu sýnt með breytingum á áætlunum á þann veg að láta velferðarmál njóta forgangs en fresta frekar verkefnum sem hefðu minni þýðingu á tímum sem þessum.

Ráðherra minnti á nýlega yfirlýsingu samgönguráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um náið samráð og samstöðu og kvaðst hafa fyrir ársfundinn setið upplýsingafund með fulltrúum sambandsins. Hann sagði fjárlagafrumvarp næsta árs í óvissu og þar af leiðandi einnig öll áætlanagerð sveitarfélaga. Hann sagði aðgerðir samgönguráðuneytisins snúast um að sinna reglulegri upplýsingaöflun um stöðu sveitarsjóða og A-hluta stofnana, að flýta eins og unnt væri greiðslu 250 milljóna króna framlags ríkissjóðs til sveitarfélaga vegna samdráttar í aflamarki og að hraðað yrði greiðslum úr Jöfnunarsjóði þannig að greiðslur sem berast ættu sveitarfélögum að réttu lagi uppúr næstu mánaðamótum yrðu inntar af hendi í næstu viku. Sagði hann þá fjárhæð nema alls tæplega tveimur milljörðum króna.

Þá kom fram í ræðu ráðherra að fyrirhugaðar breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sem endurskoðunarnefnd hefði gert tillögur um yrðu látnar bíða í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkti. Hins vegar yrði skipaður starfshópur til að fjalla um svæðisbundna samvinnu sveitarfélaga og starfsemi landshlutasamtakanna en það var meðal tillagna endurskoðunarnefndarinnar. Einnig sagðist hann staðráðinn í að láta hefja vinnu við að endurskoða regluverk Jöfnunarsjóðs.

Undir lok ræðu sinnar sagði ráðherrann að sveitarfélögum yrðu í framtíðinni falin ný verkefni og nýjar skyldur og um leið yrði að huga að stækkun sveitarfélaga með breyttum lágmarksíbúafjölda úr 50 í eitt þúsund.



Frá ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga    
Fyrsti ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í Reykjavík í dag og var vel sóttur.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum