Hoppa yfir valmynd
11. desember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 72/2012, úrskurður 11. desember 2012

 Mál nr. 71/2012                     Millinafn: Jean

 

Hinn 11. desember  2012  kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 71/2012 en erindið barst nefndinni 22. nóvember.

 

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal millinafn dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið hefð í íslensku máli, auk þess sem nafn skal fullnægja tilteknum öðrum skilyrðum sem þar eru tilgreind. Í 3. mgr. 6. gr. segir að millinafn sem víki frá 2. mgr. sé þó heimilt þegar svo stendur á að „eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.“ Í 4. mgr. kemur svo fram að millinafn skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.

 

Fyrir liggur að nafnið Jean er ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur, og ekki telst hefð fyrir rithættinum, sbr. úrskurði mannanafnanefndar í málum nr. 58/2010 og 38/2012. Á nafnið er því ekki heimilt að fallast sem almennt millinafn, sbr. 1. og 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn. Á hinn bóginn er nafnið borið af nánu ættmenni þess sem á að bera það. Í því ljósi ber að leysa úr því hvort heimilt er að gefa umrætt nafn, í því tilviki sem hér um ræðir, sem sérstakt millinafn á grundvelli 3. mgr. 6. gr., þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. sömu lagagreinar. Það álitaefni sem hér þarf að leysa úr er því hvort ákvæði 3. mgr. 6. gr., sem leyfir svonefnd sérstök millinöfn, leyfir einnig frávik frá því skilyrði að millinafn skuli ritað í samræmi við íslenskar ritreglur, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Tekið skal fram að áhrif þess að millinafn telst sérstakt millinafn eru þau að nafnið fer ekki á skrá yfir leyfð millinöfn, þótt heimilt sé að gefa það í því sérstaka tilviki sem um ræðir innan viðkomandi fjölskyldu.

 

Af orðalagi laga um mannanöfn má draga þá ályktun að slíkt frávik frá ákvæði 4. mgr. 6. gr. um ritreglur sé ekki heimilt. Á hinn bóginn ber einnig að líta til þess að í skýringum við frumvarp það sem varð að lögum um mannanöfn nr. 45/1996 er vísað til þess að tilgangur ákvæðisins um hin sérstöku millinöfn sé ekki síst sá að leyfa nöfn sem tíðkast hafi í tilteknum fjölskyldum, þrátt fyrir almennar takmarkanir á nafnrétti sem lögin kveða á um. Kemur þar fram að slíkt frjálsræði sé æskilegt. Mannanafnanefnd hefur einnig litið til þess að af ákvæði 7. gr. laga um mannanöfn leiðir að ættarnöfn, þrátt fyrir að þau fullnægi ekki íslenskum ritreglum og að ekki sé hefð fyrir þeim, kunna að vera leyfileg sem sérstök millinöfn í ákveðnum tilvikum. Þá liggur í þriðja lagi fyrir að Þjóðskrá hefur í ákveðnum tilvikum, þótt ekki liggi fyrir endanlegar upplýsingar um umfang þeirrar stjórnsýsluframkvæmdar, leyft sérstök millinöfn á grundvelli 3. mgr. 6. gr., þrátt fyrir að þau séu ekki rituð í samræmi við íslenskar ritreglur og jafnvel í þeim tilvikum þegar mannanafnanefnd hefur áður hafnað nafni sem eiginnafni vegna ritháttar.

 

Með hliðsjón af framangreindum atriðum, með hliðsjón af því að almennt ber að líta á rétt til nafns sem hluta af þeim réttindum sem varin eru af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum og í því ljósi að túlka takmarkanir á nafnrétti varfærnislega, og að lokum með vísan til þess að ekki verður séð að það feli í sér röskun á íslensku nafnakerfi og íslensku málkerfi, umfram það sem lög um mannanöfn þegar gera ráð fyrir, þá telur mannanafnanefnd að fallast beri á fyrirliggjandi umsókn og heimila millinafnið Jean á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn nr. 45/1996.

 

Úrskurðarorð:

 

Á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, skal fallist á fyrirliggjandi umsókn um að gefa nafnið Jean sem millinafn á grundvelli sérstakrar undantekningarreglu skv. 3. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum