Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2009 Innviðaráðuneytið

Starfshópur um heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði fer af stað

Starfshópur sem samgönguráðherra skipaði til að vinna að heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kom saman til fyrsta fundar í dag. Verkefni hópsins er að meta gæði núverandi jöfnunarkerfis og setja fram hugmyndir um mögulega heildarendurskoðun.

Kristján L. Möller samgönguráðherra skipaði starfshópinn í byrjun ársins. Formaður hans er Flosi Eiríksson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, og með honum starfa Björg Ágústsdóttir, fyrrverandi sveitarstjóri Grundarfjarðarbæjar, og Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Með hópnum munu starfa sérfræðingar frá samgönguráðuneytinu, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk óháðs sérfræðings sem starfshópurinn kallar til. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn hafi árið til að skila verkefni sínu.

Verkefni hópsins verður að meta gæði núverandi jöfnunarkerfis og setja fram hugmyndir um mögulega heildarendurskoðun sjóðsins þannig að tryggt verði að hann þjóni sem best markmiðum sínum. Þá mun starfshópurinn þurfa að taka mið af tillögum sem kunna að koma fram á næstu misserum í tengslum við breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, lögum um tekjustofna sveitarfélaga eða öðrum þáttum í starfsemi sveitarfélaga, svo sem sameiningum.


Starfshópur um heildarendurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á fyrsta fundi      
Starfshópurinn á fyrsta fundi. Flosi Eiríksson, formaður hópsins, við borðsendann. Hjá honum eru Guðmundur Bjarnason og Björg Ágústsdóttir.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum