Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 150/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 150/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030005

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. mars 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2020, um að synja henni um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að hún fái útgefið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 27. ágúst 2019. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2020, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 25. febrúar sl. og þann 5. mars sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdu greinargerð og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2020, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hennar því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð fjallar kærandi um starfið hjá því fyrirtæki sem dvalar- og atvinnuleyfisumsókn hennar byggir á, en sambýlismaður hennar hafi starfað hjá umræddu fyrirtæki í eitt og hálft ár. Byggir kærandi á því að þar sem hún hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar sé rétt að endurskoða ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar. Óski kærandi eftir því að úrlausn málsins verði frestað þangað til félagsmálaráðuneytið hafi úrskurðað í kærumáli hennar á ákvörðun Vinnumálastofnunar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Samkvæmt 1. mgr. 62. gr. eru skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis skv. ákvæðinu m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga um atvinnuréttindi útlendinga, þ.m.t. ákvarðanatöku um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi. Athugasemdir kæranda varðandi mat Vinnumálastofnunar á umsókn hennar um atvinnuleyfi koma því ekki til skoðunar hjá kærunefnd útlendingamála.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði því að kæranda yrði veitt atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki með ákvörðun, dags. 6. febrúar 2020. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að kærunefnd bíði með að taka afstöðu til kæru hennar þangað til félagsmálaráðuneytið væri búið að úrskurða í máli hennar, vegna kæru á ákvörðun Vinnumálastofnunar. Líkt og fyrr greinir tekur Vinnumálastofnun ákvarðanir um hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi. Samkvæmt 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er atvinnurekanda og útlendingi heimilt að kæra ákvarðanir Vinnumálastofnunar, sem teknar eru á grundvelli laganna, til félagsmálaráðuneytisins. Í 3. mgr. 34. gr. sömu laga segir m.a. að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Vinnumálastofnunar og skal útlendingur dveljast erlendis meðan á afgreiðslu kæru stendur enda hafi honum ekki verið veitt leyfi Útlendingastofnunar til að dveljast hér á landi. Í ljósi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2020, í máli kæranda hefur öðlast réttaráhrif sem og þeirri meginreglu 9. gr. stjórnsýslulaga, að stjórnvöld skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er, er það mat kærunefndar að ekki sé forsvaranlegt að nefndin bíði með afgreiðslu kærumáls hennar á meðan annað stjórnvald hefur stjórnsýslukæru til meðferðar. Kærunefnd áréttar að kærandi getur eftir að kærumál hennar hefur verið leitt til lykta hjá félagsmálaráðuneytinu, óskað eftir endurupptöku máls hjá kærunefnd skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 305/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júní 2020. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

F.h. kærunefndar útlendingamála,

Áslaug Magnúsdóttir, settur varaformaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum