Hoppa yfir valmynd
2. september 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 331/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 331/2022

Föstudaginn 2. september 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 21. júní 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2022, um foreldragreiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 4. apríl 2022, sótti kærandi um foreldragreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrir tímabilið 1. apríl 2022 til 30. september 2022 vegna sonar síns sem fæddist árið X. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2022, með vísan til 19. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 21. júní 2022. Með bréfi, dags. 28. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 13. júlí 2022, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júlí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðað verði um foreldragreiðslur til handa kæranda.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi ekki metið aðstæður heildstætt áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Í frumvarpi breytingarlaga nr. 158/2007, þar sem réttur til foreldragreiðslna kom fyrst inn í lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna nr. 22/2006 segir að meta verði aðstæður umsækjanda heildstætt áður en umsókn er synjað á þeim grundvelli að barn njóti vistunar hjá opinberum aðilum. Þannig geti komið til skoðunar hvort skilyrði séu uppfyllt, þrátt fyrir að barnið sé skráð í vistun, ef barn getur ekki nýtt hana sem skyldi og foreldrar geti af þeim sökum ekki verið á vinnumarkaði. Þannig hafi kærða borið að kanna aðstæður og nýtingu vistunar barnsins.

Barn kæranda hefur sætt krabbameinsmeðferðum síðastliðin tvö ár, eða frá því að hann var um tveggja og hálfs árs, vegna alvarlegs sjálfsofnæmissjúkdóms. Líkamleg heilsa hans hefur verið verulega slæm eftir að meðferð hófst, enda gefur augaleið að meðferðin sé erfið og sér í lagi þegar jafn ungur og viðkvæmur einstaklingur á í hlut. Hann hefur verið mikið veikur og þar sem hann er í sérstaklega viðkvæmri stöðu hefur hann þurft á innlögnum á sjúkrahús að halda við minnstu veikindi. Kærandi og maki hans hafa til skiptist þurft að vera utan vinnumarkaðar þar sem nauðsynlegt er að þau geti brugðist við ef veikindi koma upp. Vegna þessa og hve tíð veikindi hafa verið hefur kæranda ekki gefist kostur á að vera í vinnu. Þá hefur kærandi þurft að sækja alla læknisþjónustu til Reykjavíkur þar sem viðeigandi heilbrigðisþjónusta er ekki til staðar á C, en kærandi býr þar. Slíkar ferðir taka heilan dag og þarf kærandi að sækja þá þjónustu a.m.k. vikulega. Að lokum þarfnast barnið daglegrar lyfjagjafar, en lyfin eru gefin um hádegi. Kærandi sér sjálfur um lyfjagjöfina eftir að hafa sótt barnið í vistun, enda hvorutveggja óréttmætt og óviðunnandi að setja starfsmenn vistunaraðila í slíka ábyrgðarstöðu.

Kærandi byggir þannig jafnframt á að Tryggingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Synjunin byggði á þeirri staðreynd að barnið væri skráð í vistun hjá opinberum aðila. Ekkert mat fór fram á aðstæðum kæranda og ekki kannað hvort og þá hvernig vistunarpláss nýttist. Vilji löggjafans er skýr hvað þetta varðar, með vísan í frumvarp með breytingarlögum nr. 158/2007.

Ljóst sé að barnið geti ekki nýtt vistun sem skyldi þar sem fjarvera þess sé töluverð vegna veikinda. Kærandi hefur þó haldið vistunarplássinu svo barnið hafi tækifæri til að efla félagstengsl, þroskast félagslega og stundað skóla að því marki sem barnið getur mætt í vistun. Geta kæranda til að vera á vinnumarkaði sé engin vegna veikinda barnsins, enda ómögulegt að sjá fyrir hvernig heilsa barnsins þróast. Þá þarfnast barnið sérstakrar umönnunar kæranda, s.s. ef veikindi koma upp og við lyfjagjöf. Séu aðstæður kæranda metnar heildstætt verður að telja að kærandi uppfyllir skilyrði 19. gr. laga nr. 22/2006.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kveðið sé á um heimild til almennrar fjárhagsaðstoðar til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna í 19. gr. laga nr. 22/2006. Þar komi fram í 2. mgr. að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt 1. mgr. hafi barn þess greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem falli undir 1. eða 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. eða 27. gr. samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veiti barninu þjónustu, barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi, sbr. 25. gr. laganna.

Yfirfarin  hafi verið  þau  gögn  sem  lágu  til  grundvallar  mati. Í  vottorði  D læknis, dags. 4. apríl 2022, komi fram sjúkdómsgreiningarnar Multifocal and mulitisystemic (Letters-Siwe disease) C96.0 og Diabetes insipidus E23.2. Fram kemur að barnið hafi greinst með LCH í byrjun júní 2020, um sé að ræða bólgusjúkdóm sem geti verið misalvarlegur og lagst á ýmis líffæri. Barnið hafi þurft meðferð með Minirin og meðferð skv. alþjóðlegu meðferðarskema, LCH-IV, með vinblastin, sterum og síðan 6-MP sem hafi virkað vel. Fram kemur að þótt LCH sé ekki illkynja sjúkdómur skv. skilgreiningu þurfi oft meðferð með krabbameinslyfjum til að sjúkdómseinkenni gangi til baka. Í vottorði kemur fram að áætlað sé að meðferð ljúki í lok júní 2022.

Í umsókn foreldra, dags. 4. apríl 2022, komi fram að barnið hafi þurft á innlögnum að halda í byrjun en þeim hafi fækkað með tímanum. Barnið þurfi á innlögn að halda við rannsóknir. Enn fremur segir að barnið dvelji í um það bil fjóra tíma á dag í leikskólanum þá daga sem það mæti.

Í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 6. apríl 2022 komi fram að eftir að barnið hafi veikst hafi móðir reynt að mæta til vinnu einn dag í viku en það hafi ekki gengið upp vegna mikillar umönnunar barnsins. Móðir hafi því lagt niður störf og nýtt sér rétt sinn úr sjúkrasjóði stéttarfélags og fengið foreldragreiðslur í sex mánuði. Faðir hafi síðan ákveðið að vera frá vinnu og sinna umönnun barnsins á meðan móðirin sneri aftur til vinnu og vann í sex mánuði.

Í kæru sé því haldið fram að ekki hafi verið kannað hvernig vistunarpláss barnsins nýttist. Foreldrum hafi verið sent bréf dags. 16. maí 2022 þar sem óskað var eftir upplýsingum um vistunartíma og yfirliti yfir mætingar í leikskóla. Samkvæmt staðfestingu frá leikskólanum E á C dags. 6. apríl 2022 þá hafi barnið verið með vistun alla virka daga frá kl. 9:00 – 13:00 frá 1. mars 2019. Í yfirliti yfir mætingar í leikskóla komi fram að barnið hafi verið í fjarveru vegna veikinda í fimm daga í nóvember 2021, fjóra daga í desember 2021, þrjá daga í janúar 2022, tvo daga í febrúar 2022, fjóra daga í mars 2022 og tvo daga í apríl 2022.

Þá segir í kæru að barnið hafi verið mikið veikt og þar sem það hafi verið í sérstaklega viðkvæmri stöðu hafi það þurft á innlögnum á sjúkrahús að halda við minnstu veikindi. Meðfylgjandi er yfirlit yfir skráningu á innlögnum barnsins á Landspítalanum og sést að á árinu 2021 var um tvær innlagnir að ræða og engar á þessu ári.

Í 19. gr. laganna komi fram að eitt af skilyrðum fyrir greiðslum sé að vistun á vegum opinberra aðila verði ekki við komið. Í samræmi við áðurnefnd lög og lagagrein og með vísan til þeirra upplýsinga sem Tryggingastofnun bárust hafi verið álitið að barnið væri í vistun á vegum opinberra aðila og í ljósi þessa hafi umsókn synjað þar sem skilyrði fyrir greiðslum voru ekki uppfyllt.

 


 

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um foreldragreiðslur á grundvelli laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Í umsókn kæranda kemur fram að óskað hafi verið eftir grunngreiðslum vegna tímabilsins 1. apríl 2022 til 30. september 2022.

Með lögum nr. 22/2006 er kveðið á um réttindi foreldra til fjárhagsaðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sérstakrar umönnunar barna sinna sem greinst hafa með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun, sbr. 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 19. gr. laganna kemur fram að foreldri, sem geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna þess að barn þess þarfnist verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða fötlunar, geti átt sameiginlegan rétt á grunngreiðslum samkvæmt 20. gr. með hinu foreldri barnsins samkvæmt mati framkvæmdaraðila. Í 2. mgr. 19. gr. laganna er nánar kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að foreldri geti átt rétt á grunngreiðslum samkvæmt ákvæðinu. Skilyrði greiðslnanna er að barn hafi greinst með mjög alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða mjög alvarlega fötlun sem fellur undir 1. og 2. sjúkdóms- eða fötlunarstig samkvæmt 26. og 27. gr. laganna samkvæmt vottorði sérfræðings þeirrar sérhæfðu greiningar- og meðferðarstofnunar sem veitir barninu þjónustu. Þá eru önnur skilyrði ákvæðisins þau að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris, svo sem vegna innlagnar á sjúkrahús og/eða meðferðar í heimahúsi, enda verði ekki annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila við komið, foreldri geti hvorki sinnt störfum utan heimilis né námi vegna verulegrar umönnunar barnsins og foreldri og barn eigi lögheimili hér á landi þann tíma sem greiðslur séu inntar af hendi.

Í athugasemdum við a-lið 17. gr. frumvarps til laga nr. 158/2007 um breytingu á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, nr. 22/2006, sem færði 19. gr. í lög nr. 22/2006, segir meðal annars:

Enn fremur er það skilyrði að barn þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris þannig að foreldrið eigi þess ekki kost að starfa utan heimilisins […] Framkvæmdaraðila ber að meta aðstæður fjölskyldna heildstætt, meðal annars með hliðsjón af þeirri vistunarþjónustu sem í boði er á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu og skammtímavistun fyrir fatlaða. Er við það miðað að standi barni til boða vistunarþjónusta á vegum opinberra aðila komi foreldrar ekki til með að eiga rétt á þessum greiðslum. Þó er gert ráð fyrir að framkvæmdaraðili meti aðstæður ávallt heildstætt en sem dæmi geta komið upp þær aðstæður að barn geti ekki nýtt vistunarþjónustu sem skyldi, til dæmis vegna ónæmisbælingar sökum illkynja sjúkdóma eða annarra alvarlegra veikinda og foreldrar geti því ekki verið virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Við mat á því hvort foreldrar kunni að eiga rétt á greiðslum samkvæmt ákvæði þessu skal framkvæmdaraðili jafnframt taka mið af lengd vistunar á sjúkrahúsi eða hjúkrunar í heimahúsi sem og yfirsetu foreldris vegna alvarlegs og langvinns sjúkdóms eða mjög alvarlegrar fötlunar. Einnig ber að líta til þess hvort um sé að ræða tíðar sjúkrahúsinnlagnir enda þótt hver þeirra standi yfir í skamman tíma. Gert er ráð fyrir að samhliða tíðum sjúkrahúsinnlögnum þarfnist barn meðferðar í heimahúsi vegna alvarlegs og langvarandi sjúkdóms.

[…]

Markmið þessa kerfis er að veita foreldrum fjárhagslegan stuðning þann tíma sem þeir geta ekki verið virkir á vinnumarkaði þar sem börn þeirra þarfnast verulegrar umönnunar vegna mjög alvarlega og langvinnra sjúkdóma eða mjög alvarlegrar fötlunar.

Í 25. gr. laga nr. 22/2006, sbr. 18. gr. laga nr. 158/2007, er það skilyrði fyrir greiðslum til foreldris skv. III. og IV. kafla að langveikt eða alvarlega fatlað barn þess þarfnist sérstakrar umönnunar foreldris vegna sjúkdóms eða fötlunar sem fellur undir sjúkdómsstig skv. 26. gr. eða fötlunarstig skv. 27. gr. Miða skuli við að foreldri geti ekki verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði vegna umönnunarinnar meðan greiðslur standa yfir enda verði annarri vistunarþjónustu á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu eða skammtímavistun fyrir fatlaða, ekki við komið.

Í athugasemdum við ákvæði 18. gr. í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 158/2007, um breytingu á lögum nr. 22/2006, segir meðal annars:

Í tilvikum þegar foreldrar eiga kost á vistunarþjónustu fyrir börn sín á vegum opinberra aðila, svo sem hjá leikskólum, dagvistunarþjónustu eða skammtímavistun fyrir fatlaða, er ekki gert ráð fyrir að þeir eigi rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpi þessu. Þó er alltaf gert ráð fyrir mati framkvæmdaraðila á heildaraðstæðum foreldra, sbr. einnig athugasemdir við 17. gr. a frumvarpsins.

Með hliðsjón af framangreindum lögskýringargögnum er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. og 25. gr. laga nr. 22/2006 að fara verði fram heildstætt mat á aðstæðum fjölskyldna, meðal annars með hliðsjón af þeirri vistunarþjónustu sem í boði er á vegum opinberra aðila og hvort hún nýtist sem fullnægjandi úrræði þannig að foreldri geti raun verið virkur á vinnumarkaði. Ljóst er samkvæmt gögnum málsins að slíkt mat hefur ekki farið fram af hálfu Tryggingarstofnunar.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Tryggingastofnunar.

 

 

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júní 2022, um að synja umsókn A , um foreldragreiðslur, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum