Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 530/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 530/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19100048

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 466/2019, dags. 3. október 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 14. október 2019. Þann 21. október 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Tekin verður afstaða til þeirrar beiðni í sérstökum úrskurði. Þann 28. október 2019 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. Þá er beiðni kæranda um endurupptöku byggð á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvarðana um að synja kæranda um efnislega meðferð á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga nr. 80/2016 né ákvæðum stjórnsýslulaga, einkum rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. síðarnefndra laga.

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji sig vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og því skuli taka mál hans til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna þess að hann glími við alvarleg andleg veikindi, tilheyri þjóðflokki hasara sem hafi mátt sæta ofsóknum í heimaríki kæranda auk þess sem hann búi yfir trúnaðarupplýsingum sem ríkisstjórnin þar í landi vilji koma í veg fyrir að verði gerðar opinberar. Þá telji kærandi honum ekki vera óhætt í Þýskalandi vegna stjórnmálasambands sem sé á milli þess og heimaríkis kæranda. Muni það gera það að verkum að kærandi verði fluttur frá Þýskalandi til heimaríkis. Byggir kærandi á því að hvorki Þýskaland né heimaríki hans teljist sem örugg ríki í merkingu 68. gr. stjórnarskrárinnar, 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. alþjóðasamnings um stjórnmálaleg og borgaraleg réttindi. Kærandi telur að hann eigi raunverulega á hættu að verða fyrir ofsóknum og ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð, bæði í Þýskalandi og heimaríki.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 3. október 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi annars vegar fram gagn, sem hann kveður vera skýrslu um að yfirvöld í heimaríki hafi hafnað því að veita allri fjölskyldu hans vernd vegna skorts á fjármagni, sem var ekki meðal gagna máls við málsmeðferð hans hjá kærunefnd. Við meðferð máls hjá kærunefnd hafði kærandi í greinargerð sinni til kærunefndar útlendingamála og í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá aðstæðum sínum í heimaríki og ástæðum flótta. Hann hafði greint frá því að fjölskylda hans væri ekki örugg í heimaríki og hann hefði miklar áhyggjur af stöðu þeirra, auk þess sem hann óttaðist um öryggi sitt í Þýskalandi. Það er mat kærunefndar að hið nýja gagn sem kærandi hefur lagt fram með endurupptökubeiðni sinni styðji við fyrri frásögn kæranda, sem lá þegar fyrir við meðferð máls hans hjá kærunefnd.

Hins vegar lagði kærandi fram komunótur frá Göngudeild sóttvarna dagsettar 22. janúar til 9. júlí 2019. Þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp lágu umræddar komunótur frá Göngudeild sóttvarna fyrir og voru upplýsingar um heilsufar kæranda sem þar er að finna, m.a. um andlega vanlíðan hans, lagðar til grundvallar niðurstöðu kærunefndar, sbr. úrskurður nefndarinnar nr. 466/2019. Því er ljóst að kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra gagna.

Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að fyrrgreind gögn um heilsufar kæranda og aðstæður í heimaríki hans séu hvorki þess eðlis að úrskurður kærunefndar nr. 466/2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, né að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að umræddur úrskurður var birtur, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Að öðru leyti byggir kærandi í greinargerð með beiðni um endurupptöku á máli sínu á sömu málsatvikum og málsástæðum sem hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 3. október 2019, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

 

Árni Helgason                                                                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir

                                                                                             

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum