Hoppa yfir valmynd
11. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 56/2022

Miðvikudaginn 11. maí 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 14. janúar 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 1. desember 2021 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi við vinnu X. Tilkynning um slys, dags. 14. febrúar 2020, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 1. desember 2021, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 4%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. janúar 2022. Með bréfi, dags. 26. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 23. febrúar 2022, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar samdægurs með bréfi úrskurðarnefndar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga samkvæmt lögum nr. 45/2015 vegna vinnuslyss sem hann hafi orðið fyrir þann X við starfa sinn fyrir C. Slysið hafi orðið með þeim hætti að járnhjól sem verið var að hífa hafi skrikað til og lent á hægri hendi kæranda. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda hafi verið samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 22. desember 2021, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hans vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 4%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða D, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands.

Kærandi telji að afleiðingar slyssins hafi verið of lágt metnar af tryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands og geti því ekki sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Máli sínu til stuðnings leggi hann áherslu á eftirfarandi atriði:

Kærandi vísi til þess að fyrir liggi matsgerð E læknis, dags. 14. desember 2021. Að mati kæranda sé matsgerð E ítarleg, vel rökstudd og faglega unnin. Í kaflanum læknisskoðun segi:

„Skoðun er bundin við hægri hendi. Það er nánast full beygja og rétta, þó væg skerðing upp á að fingur nái í lófa eftirfarandi: þumalfingur 1 cm, vísifingur 0.5 cm, langatöng 2cm, baugfingur 2cm og litli fingur 2cm.“

Í kaflanum forsendur mats segi:

„Við mat á orsakatengslum er lagt til grundvallar að ekki kemur fram að ofanritaður hafi fyrri sögu um áverka eða færniskerðingu í hægri hendi og teljast því öll óþægindi þaðan og færniskerðing vera rakin til afleiðinga slysaatburðar þess sem hér er fjallað um.

Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er lagt til grundvallar umræða um orsakasamhengi hér að ofan og niðurstaða læknisskoðunar.

Til grundvallar eru lagðar miskatöflur Örorkunefndar, liður VII.Ad.4, og telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 10%.“

Í matsgerð sinni kemst E að því að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé 10% þar sem hreyfiskerðing sé 2 cm í löngutöng, baugfingri og litlafingri. Þá meti hann hreyfiskerðingu í vísifingri 0,5 cm og þumalfingri 1 cm og byggi hann mat sitt á miskatöflum örorkunefndar en þar segi um lið VII.A.d.4. að hreyfiskerðing í fingrum verði að meta einstaklingsbundið en töflu sem þar sé að finna megi hafa sem viðmiðun. Í umræddum miskatöflum segi að ef bil frá fingurgómum í lófa (vísifingur, langatöng, baugfingur og litlifingur) sé 2 cm á þremur fingrum skuli meta það 9%, auk þess meti hann hreyfiskerðingu í vísifingri og þumalfingri saman 1%, enda sé matið einstaklingsbundið samkvæmt miskatöflunum og kærandi sé einnig með hreyfiskerðingu í þeim fingrum.

Í matsgerð D, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, segi: „Þegar A hnýtir hnefa vantar 1 cm á að langatöng nái inn í lófa, það vantar 2 cm á að baugfingur gómurinn nái inn í lófa.“ Þá segi einnig: „Skoðun gefur því til kynna einstakling með áverka á sérstaklega löngutöng og baugfingur hægri handar, það er væg hreyfiskerðing á fingrum, eðlilegt skyn á gómum, vantar 1-2 cm á að fingurgómar nái í lófa við lófakreppu.“

Kærandi byggi á því að niðurstaða E endurspegli betur núverandi ástand hans vegna afleiðinga slyssins þar sem D, tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands, hafi ekki tekið tillit til hreyfiskerðingar í þumalfingri, vísifingri og litlafingri, þrátt fyrir að hann nefni í matsgerð sinni að 1-2 cm vanti á að fingurgómar nái í lófa við lófakreppu líkt og E geri í sinni matsgerð.

Kærandi vilji benda á eftirfarandi færslur úr meðfylgjandi læknagögnum máli sínu til stuðnings:

Í bráðamóttökuskrá Landspítalans í Fossvogi, dags. X, segi: „Klemmuáverki var distalt yfir fingur 2-5 á hægri hendi. Það eru eymsli yfir mið phalangs á fingrum 2-5.“

Í læknisvottorði F læknis, dags. 18. ágúst 2021, segi um komu hans þann X: „Segir frá slysi sem um ræðir. Sagðist hafa haft stöðuga verki í fingrum alla tíð síðan. Hann væri rétthentur og ynni mikið með höndunum. Afköst hafi minnkað og eftir erfiðan vinnudag væri hann mjög slæmur af verkjum á kvöldin. Upplifði dofa yfir örunum.“

Þá hafi kærandi einnig leitað til G handaskurðlæknis. Í vottorði hans, dags. 18. nóvember 2020, segi: „Nokkuð rauðleit, ógreinileg ör voru aftanvert yfir miðkjúkum hægri löngutangar og baugfingur og á lófahlið miðhjúku löngutangar. Nánast full beygja og rétta var um alla liði fingra án skekkju. Skyn var skert umhverfis ör en eðlilegt í gómum fingra. Gripstyrkur hægri megin mældist helmingur á við vinstra megin (22 kg og 50 kg).“

Þá vilji kærandi ítreka að hann sé rétthentur og þurfi að nota hægri hendi talsvert við störf sín, sbr. læknisvottorð F, dags. 18. ágúst 2021. Umræddir áverkar hafi því meiri áhrif á hann en ella.

Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að hann glími við væga hreyfiskerðingu frá fingrum 2 til 5, þar með talið vísifingri og þumalfingri, og taka hafi þurft tillit til þess við matið líkt og E læknis hafi gert í sínu mati. Þá vilji kærandi ítreka að D tryggingalæknir hafi sjálfur kveðið á um í matsgerð sinni að það hafi vantað 1 til 2 cm á að fingurgómar hafi náð í lófa við lófakreppu en þrátt fyrir það hafi hann metið hann með 4 stiga miska. Það liggi ljóst fyrir að ef um sé að ræða hreyfiskerðingu í þremur fingrum samkvæmt VII.A.d. kafla í miskatöflum örorkunefndar eigi að meta það 9% og þar sem hann hafi einnig verið með væga hreyfiskerðingu, 1 cm og 0,5 cm, í vísifingri og þumalfingri hafi hann verið metinn með 10 stiga miska, enda segi í umræddum miskatöflum að mat á hreyfiskerðingu í fingrum sé einstaklingsbundið.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að taka skuli mið af matsgerð E læknis við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, þ.e. 10%, en matsgerðin sé afar ítarleg og vel rökstudd.

Kærandi kæri því ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands á varanlegri læknisfræðilegri örorku hans samkvæmt lögum nr. 45/2015 og krefjist þess að matsgerð E læknis um 10 stiga miska verði lögð til grundvallar í málinu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 8. júní 2020, hafi Sjúkratryggingar Íslands samþykkt umsókn kæranda. Með ákvörðun 1. desember 2021 hafi kærandi verið metinn til 4% læknisfræðilegrar örorku vegna þess slyss sem hann hafi orðið fyrir þann X og sótt hafi verið um slysabætur vegna.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 4%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu D læknis, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015. Örorkumatstillaga D hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 4%.

Að öllu virtu beri því að staðfesta afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 4% varanlega læknisfræðilega örorku.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 1. desember 2021, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 4%.

Í bráðamóttökuskrá H sérfræðilæknis, dags. X, segir svo um skoðun kæranda:

„sk: Það eru eymsli yfir mið phalangs á fingrum 2-5. Fín háræðafylling í öllum fingrum. Full extension og flexion hreifigeta í öllum fingrum. Lítil-þver skurðsár á fingrum 2-5 sem eru á milli pip og dip liðar dorsalt. Allir grunnir en skurður volart á 3. Fingri aðeins glenntur og saumaður með 1 spori ethilon. Skurður volart á 3. Fingri milli mcp og pip. Saumaður í staðdeyfingu með 3 sport af ethilon 5,0“

Um rannsóknir segir:

„rtg: reynist vera með hárfínar brotalínur í miðkjúku löngutangar.“

Um álit og áætlun segir:

 

„Búið um sár, buddy tape v brots í 2 vikur. Keflex profylax í nokkra daga, þar sem sár yfir broti. Saumtaka eftir 8-10 daga.“

Í læknisvottorði F, dags. 18. ágúst 2021, segir meðal annars svo:

„Kemur og hittir hjúkrunarfræðing X og kemur þá til að fá umbúðarskipti. Umbúðir voru fjarlægðar og þar var ekki merki um sýkingu í fingrum skv. nótu hjúkrunarfræðings. Sár og sárabarmar þ.s. hafði verið saumað voru soðnir og sár var þvegið með mildu sápuvatni og þerrað. Sett var steristrip yfir sauma, adzink í kringum sár á baugfingri. Þá var settur einhver mepilex svamur hólkur yfir og fingur strappaðir saman. Ráðlagt að koma aftur í endurkomu nokkrum dögum síðar í saumatöku og umbúðskipti.

Kemur svo aftur X í fyrrnefnd umbúðaskipti og saumatöku. Hafði þá verið búinn að skipta sjálfur um umbúðir einu sinni. Húð var áfram soðin, hvít, dauð og laus frá. Saumar voru fjarlægðir og dauð hvít húð klippt í burtu. Adzink sett á sárabarma og mepilex sem og hólkur með umbúðum á löngutöng. Fingur voru strappaðir saman og ráðgert var að hann myndi skipta sjálfur um umbúðir einhverjum dögum síðar og myndi meta sjálfur hvort hann þyrftir að koma aftur.

Leitar næst til læknis X og segir frá því slysi sem um ræðir. Sagðist hafa haft stöðuga verki í fingrum alla tíð síðan. Hann væri rétthentur og ynni mikið með höndunum. Afköst hafi minnkað og eftir erfiðan vinnudag væri hann mjög slæmur af verkjum á kvöldin. Upplifði dofa yfir örunum. Við skoðun læknis var ekki að sjá roða eða bólgu en hann var með 1,5 cm ör dorsalt og ventralt á IP fingurs 3 og 4 hægri handar. Það voru ekki eymsli við þreifingu liðar. Fingur 3 og 4 voru markvert kraftminni við beygju, bæði um dip og pip liði. Gat ekki beygt að fullu um dip á fingri 3 en það hafði gróið yfir liðinn. Eðlileg abduction og extension þumla. Skyn var skert yfir örum á fingri 3 og 4. Skyn gróft metið eðlilegt á fingurgómum. Þessi læknir sendi síðan tilvísun á handaskurðlækni til frekari mats.“

Í læknisvottorði G, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og handarskurðlækningum, dags. 18. nóvember 2020, segir meðal annars svo um skoðun kæranda:

„Nokkuð rauðleit, ógreinileg ör voru aftanvert yfir miðkjúkum hægri löngutangar og baugfingur og á lófahlið miðkjúku löngutangar. Nánast full beygja og rétta var um alla liði fingra án skekkju. Skyn var skert umhverfis ör en eðlilegt á gómum fingra. Gripstyrkur hægra megin mældist helmingur á við vinstra megin (22 kg og 50 kg). Sami kraftur mældist við að klípa báðum megin. Ekki þótti tilefni til nýrrar myndatöku.

Langt og ítarlegt samtal varð. Undirritaður taldi ekkert tilefni til nokkurrar skurðaðgerðar. Mögulegt þótti að verkir gætu bráð frekar af honum með tímanum með minnkandi bólgu. Ekki þótti þörf á eftirliti.“

Í örorkumatsgerð D læknis, dags. 23. nóvember 2021, segir svo um skoðun kæranda þann 18. nóvember 2021:

„A kveðst vera X cm á hæð, X kg og rétthentur. Skoðun snýst nú um hendur. Það eru engar aflaganir að sjá aðrar en fjærkjúkuliður litla fingurs hægri handar hangir aðeins eða nær ekki fullri réttu og kveður A þetta vera gamalt. Hendur eru siggrónar. Allir fingur á sínum stað og lófabunguvöðvar eru ekki rýrnaðir eru eins og hægri og vinstri. Nærkjúkuliðir allra fingra hreyfast eðlilega og eru bólgulausir. Það er að sjá ör sem eru vel gróin yfir miðkjúkum bæði löngutangar og baugfingurs bæði lófamegin og handabaksmegin. Fingurgómar allir eðlilegir. Skyn allra fingurgóma eðlilegt. Þegar A hnýtir hnefa vantar 1 cm á að langatöng nái inn í lófa, það vantar 2 cm á að baugfingur gómurinn nái inn í lófa. Styrkur í lófagripi er góður.

Mældir eru hreyfiferlar:

Grunnliðir allir eðlilegir.

Á vísifingri hreyfast allir liðir eðlilega og eins á hægri og vinstri.

Á löngutöng, hér er eðlilegur hreyfiferill í nærkjúkulið og eins á hægri og vinstri. Það er hreyfiskerðing í fjærkjúkuliðnum þar sem beygja er á hægri 20° og á vinstri 40°, rétta er eðlileg. Á baugfingri er sama ástand og löngutöng, þ.e. nærkjúkuliður hreyfist eðlilega, fjærkjúkuliður skertur þannig að í baugfingri hægri handar er beygja 30°, en vinstri handar 40°.

Skoðun gefur því til kynna einstakling með áverka á sérstaklega löngutöng og baugfingur hægri handar, það er væg hreyfiskerðing á fingrum, eðlilegt skyn á gömum, vantar 1-2 cm á að fingurgómar nái í lófa við lófakreppu.

Sjúkdómsgreining (ICD10): S62,6

Niðurstaða: 4%“

Í útskýringu segir svo:

„Hér er lagt til grundvallar áverki á löngutöng og baugfingur hægri handar á rétthentum einstaklingi. Það er væg hreyfiskerðing, það vantar 1 cm á að langatöng nái í lófa. Það vantar 2 cm á að baugfingur nái í lófa. Miðað við þetta ætti miskatala að vera samkvæmt töflum Örorkunefndar kafli VII Ad, 2-3% Þá er um að ræða dofa á svæði lófamegin á miðkjúkum beggja fingra, þ.e. löngutangar og baugfingurs og hæfilegt að meta til 1-2%% þannig að heildarmiski á fingur er 4% alls.“

Í álitsgerð E læknis um varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 14. desember 2021, segir svo um skoðun á kæranda 27. október 2021:

„Um er að ræða hraustlega vaxinn karlmann. Situr kyrr í viðtali. Gefur góða sögu. Geðslag telst eðlilegt. Hann hreyfir sig lipurlega. Skoðun er bundin við hægri hendi. Það eru nokkur rauðleit, ógreinileg ör yfir miðkjúkum hægri löngutangar og baugfingurs dorsalt og volart á miðkjúku löngutangar. Það er nánast full beygja og rétta, þó væg skerðing upp á að fingur nái í lófa eftirfarandi: þumalfingur 1cm, vísifingur 0.5 cm, langatöng 2 cm, baugfingur 2 cm og litlifingur 2cm.

Virkar hreyfingar í gráðum:

 

Fingur 1

Fingur 2

Fingur 3

Fingur 4

Fingur 5

MCP

-10-70°

-10-70°

-20-80°

-20-80°

-20-70°

PIP

0-10-70° (IP)

0-80°

0-80°

0-80°

0-80°

DIP

0-30°

0-30°

0-30°

0-30°

0-10-50°

Á litlafingri er til staðar gamall mallet áverki. Gripkraftur er veiklaður í hægri hendi, mælist 22kp en 50kp vinstri. Eðlilegur kraftur við pinch-grip beggja vegna. Taugaskoðun telst eðlileg.“

Um forsendur mats segir:

„Að mati undirritaðs má vera ljóst að A hefur við slysið þann X hlotið áverka sem enn í dag valda honum óþægindum og líkamlegri færniskerðingu. Þar sem læknismeðferð og endurhæfingartilraunum telst lokið telst tímabært að leggja mat á varanlegt heilsutjón hans.

Við mat á orsakatengslum er lagt til grundvallar að ekki kemur fram að ofanritaður hafi fyrri sögu um áverka eða færniskerðingu í hægri hendi og teljast því öll óþægindi þaðan og færniskerðing vera rakin til afleiðinga slysaatburðar þess sem hér er fjallað um.

Við mat á tímabundnum þáttum er lagt til grundvallar að fram kemur að hann missti 5 daga úr vinnu.

Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er lagt til grundvallar umræða um orsakasamhengi hér að ofan og niðurstaða læknisskoðunar. Til grundvallar eru lagðar miskatöflur Örorkunefndar, liður VII.A.d.4, og telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 10%“

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur fullnægjandi. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að verið var að lyfta stóru járnhjóli með tveimur hífistroffum af búkkum til þess að færa það. Kærandi var við vinnu á […]lyftara og áður en hann lyfti stykkinu fór hann út úr lyftaranum til þess að kanna jafnvægi á stykkinu. […] Þegar kærandi lagði hendi á stykkið skrikaði það til […] og efri brún hjólsins klemmdi hendina á hinum slasaða milli hjóls og búkka. Samkvæmt örorkumatsgerð D læknis, dags. 23. nóvember 2021, eru afleiðingar slyssins taldar vera kulsækni í löngutöng og baugfingri hægri handar. Þykkildi séu yfir miðkjúku löngutangar, bæði handarbaks- og lófamegin, dofi á svæði lófamegin á miðkjúkunni og skert hreyfing á löngutöng. Þá er þykkildi yfir miðkjúku baugfingurs, dofi yfir miðkjúku lófamegin, fingurgómur í lagi en væg hreyfiskerðing á baugfingri. Kærandi þreytist eftir vinnudaginn þegar hann er búinn að halda á sleggju lengi og geti þá ekki haldið á henni þar sem honum finnist lófagripið ekki vera fullt. Í álitsgerð E læknis, dags. 14. desember 2021, um læknisfræðilega örorku eru afleiðingar slyssins taldar vera óþægindi í hægri hendi, aðallega í löngutöng og baugfingri, sem leiði stundum upp í lófa, sérstaklega þegar líði á vinnudaginn. Þá sé gripið ekki eins gott, hann hafi misst hluti úr hægri hendi og eigi til dæmis erfiðara með að halda á hamri en áður. Enn fremur finnist kæranda hann alltaf vera kaldari á löngutöng og baugfingri.

Því er lýst í bráðamóttökuskrá H, dags. X, að kærandi hafi haft eymsli yfir mið phalangs á fingrum tvö til fimm. Fín háræðafylling og full extension og flexion hreyfigeta hafi verið í öllum fingrum. Lítil, þverlæg skurðsár hafi verið á fingrum tvö til fimm sem hafi verið á milli pip og dip liða dorsalt. Öll skurðsárin hafi verið grunn en það á þriðja fingri hafi verið aðeins glennt og saumað saman með einu spori. Skurður volart á þriðja fingri milli mcp og pip hafi verið saumaður í staðdeyfingu með þremur sporum. Röntgenrannsókn hafi sýnt hárfínar brotalínur á miðkjúku löngutangar. Því er lýst í læknisvottorði G, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum og handarskurðlækningum, dags. 18. nóvember 2020, að ekki hafi verið talið tilefni til skurðaðgerðar og að mögulegt þætti að verkir myndu minnka með tímanum með minnkandi bólgu. Þá kemur fram að verkir frá miðkjúku löngutangar hái honum í starfi en verkir í baugfingri hamli honum í minna mæli. Kærandi sé dofinn í kringum örin á þeim fingrum. Við skoðun kæranda var nánast full beygja og rétta um alla liði fingra, án skekkju og var gripstyrkur 22 kg hægra megin en 50 kg vinstra megin. Varðandi skoðun á hægri hendi kæranda þá liggja enn fremur fyrir skoðanir tveggja matsmanna. Í örorkumatsgerð D læknis, dags. 23. nóvember 2021, er læknisfræðileg örorka metin 4% en í álitsgerð E læknis, dags. 14. desember 2021, er læknisfræðileg örorka metin 10%.

Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála eðlilegt að meta áverka kæranda með vísun í lið VII.A.d. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt honum leiðir væg hreyfiskerðing í löngutöng (vantar 1 cm á að langatöng nái í lófa) og baugfingri (vantar 2 cm á að baugfingur nái í lófa), auk almenns mats vegna dofa við miðkjúku, til 4% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.

Að framangreindu virtu telst varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vera 4%, sbr. lið VII.A.d. í miskatöflum örorkunefndar. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 4% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 4% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum