Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Ný miðstöð Europol til að styrkja viðbrögð við hryðjuverkum

Í dag fór fram í Amsterdam óformlegur fundur dóms- og innanríkisráðherra Schengen-ríkjanna. Fundinn sótti Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri fyrir hönd innanríkisráðherra. Umræðuefni fundarins voru helguð baráttunni gegn hryðjuverkum og málefnum flóttamanna.

Yfirmaður Europol kynnti starfsemi nýrrar miðstöðvar í vörnum gegn hryðjuverkum, Europol‘s Counter Terrorism Centre, sem opnuð var með formlegum hætti í Haag í dag. Miðstöðinni er ætlað að styrkja Evrópu í viðbrögðum við hryðjuverkum. Þá var rætt um nauðsyn aukinna upplýsingaskipta í tengslum við baráttuna við hryðjuverk og aukin gæði þeirra upplýsinga sem miðlað er. Sjá frétt á vef Europol um málið.

Staða mála vegna viðbragða við straumi flóttamanna til Evrópu var rædd og þar kom fram að enn væri svigrúm til úrbóta hvað varðar innleiðingu aðgerða sem samþykktar voru á síðasta ári. Að lokum var rætt um tillögu framkvæmdastjórnar ESB að reglugerð sem kynnt var 15. desember s.l. sem sjá má hér. Reglugerðin fjallar um nýja evrópska landamæra- og strandgæslustofnun, sem tæki við verkefnum Frontex og fengi auknar valdheimildir.

Almennt voru ríkin á því að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að styrka ytri landamæri Schengen-svæðisins. Ekki væri þó unnt að fallast á tillöguna óbreytta, einkum vegna þess að hún færði stofnuninni og framkvæmdastjórninni of mikið vald. Þetta verður nánar rætt á komandi mánuðum á vettvangi Schengen-samstarfsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira