Hoppa yfir valmynd
1. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Eindrægni hjá NB8-ráðherrum vegna Úkraínu

Utanríkisráðuneytið hefur verið lýst upp í fánalitum Úkraínu undanfarna daga - mynd

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja lýstu yfir samstöðu og stuðningi við Úkraínu á fundi sínum í dag. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. 

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja komu saman til fjarfundar nú síðdegis þar sem innrás Rússlands í Úkraínu og viðbrögð alþjóðasamfélagsins við henni voru í brennidepli. Lýstu ráðherrar ríkjanna yfir samstöðu og algjörum stuðningi við Úkraínu. Í kjölfar fundarins var gefin út sameiginleg yfirlýsing þar sem innrás Rússlands er harðlega fordæmd og gerð er krafa tafarlaust vopnahlé.

Í yfirlýsingunni er einnig lögð rík áhersla á að árás rússneskra stjórnvalda feli í sér skýrt brot á alþjóðalögum, þar á meðal stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá muni ríkin beita sér fyrir því að þau sem fremji stríðsglæpi verði dregin til ábyrgðar.

„Við erum harmi slegin vegna stöðunnar sem komin er upp í Úkraínu og því djúpstæða óréttlæti sem blasir við úkraínsku þjóðinni. Úkraínskir borgarar sjá nú sig knúna til að berjast fyrir lífi sínu og verja heimili sín og ástvini,“ segir í yfirlýsingunni.

Á fundinum voru ráðherrar NB8-ríkjanna einhuga um mikilvægi þess að bregðast skjótt við með stuðningi í formi mannúðaraðstoðar og hergagna.

„Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að svara ákalli úkraínsku þjóðarinnar um aðstoð og bregðast við því neyðarástandi sem skapast hefur í landinu vegna grimmdarlegra hernaðaraðgerða Rússa,“ segir utanríkisráðherra.

Sameiginleg yfirlýsing NB8-ráðherranna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum