Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2017 Utanríkisráðuneytið

Þýskaland eitt helsta samstarfsríki Íslendinga

Guðlaugur Þór nælir HeForShe merki í Sigmar Gabriel. - myndAuswaertiges Amt/Photothek

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fundaði í dag með Sigmar Gabriel utanríkisráðherra Þýskalands í Berlín, þar sem þeir ræddu tvíhliðamál og þau málefni sem hæst ber á alþjóðavettvangi. Í gærkvöldi var Guðlaugur Þór svo viðstaddur kynningu í sendiráðsbústað Íslands í Berlín á “Out of Controll” verkefni myndlistarmannsins Egils Sæbjörnssonar sem verður, ásamt tveimur tröllum, fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum nú í sumar. 

Á fundi ráðherranna í morgun var rætt um góð samskipti ríkjanna á sviði viðskipta-, ferða-, og menningarmála. Einnig var rætt um alþjóða- og öryggismál sem hæst bera, svo og svæðisbundna samvinnu innan Eystrasaltsráðsins og á Norðurslóðum, en Þjóðverjar eru áheyrnarfulltrúar að Norðurskautsráðinu. Utanríkisráðherrarnir ræddu gott samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum innan EES og það flókna ferli sem framundan er vegna Brexit, bæði fyrir aðildarríki Evrópusambandsins og EES-ríkin, m.a. áhersluna á að tryggja sem best rétt þegna ríkjanna í Bretlandi eftir útgöngu. Málefni tengd útgöngunni voru einnig rædd á fundi Guðlaugs Þórs með aðalsamningamanni Þjóðverja vegna Brexit, Peter Ptassek. 

Á blaðamannafundi eftir fund utanríkisráðherranna lagði Guðlaugur Þór áherslu á góða vináttu landanna. Hann nefndi að Ísland styddi Þýskaland til tímabundinnar setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2019 - 2020, og fagnaði því að ein megináhersla þýska framboðsins yrði að efla jafnrétti á alþjóðavettvangi. Máli sínu til stuðnings gaf Guðlaugur Þór þýska ráðherranum “HeForShe” barmmerkið sitt að gjöf og óskaði honum góðs gengis í jafnréttismálunum. 

„Þetta var góður fundur. Þýskaland er leiðandi ríki í heiminum í dag, og eitt helsta samstarfsríki okkar Íslendinga. Samskipti Íslands og Þýskalands eru náin og ræddum við viðskipti, fjárfestingar, menningu, svo og öryggis- og varnarmál í Evrópu og loftslagsmál með áherslu á Norðurslóðir,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Þjóðverjar eru einkar velviljaðir Íslendingum, og þriðji fjölmennasti hópur ferðamanna til Íslands. Notaði Guðlaugur Þór tækifærið til að leggja til nánara samráð stjórnmálamanna og háttsettra embættismanna en hingað til. Gabriel þáði boð Guðlaugs Þórs um að sækja fund utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna í Reykjavík í júní nk. Þá sagði Guðlaugur það ósk Íslendinga að Goethe stofnunin tæki upp starfsemi á Íslandi á nýjan leik, hugsanlega í tengslum við stofnun Vigdísar Finnbogadóttur. 

Samskipti Íslands og Þýskalands ná langt aftur en helsti útflutningur er ál og sjávarafurðir og mikil tækifæri eru á auknum viðskiptum á sviði hátækni, nýsköpunar, menningar og skapandi greina. Þá eru Þjóðverjar áhugasamir um fjárfestingar á Íslandi og nú þegar er Bremenport, að fjárfesta í uppbyggingu stórskiptahafnar í Finnafirði sem unnið er að sveitarfélögum á svæðinu og íslenska ríkinu. Annað fjárfestingaverkefni alþjóðlegu samsteypunnar PCC SE í Þýskalandi er kísilver á Bakka við Húsavík.

17797894_10155168567392766_435876975_oÁ annað hundrað gesta sóttu myndlistarviðburð sem sendiráðið efndi til í samstarfi við Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar í gærkvöldi undir yfirskriftinni ,,Out of Controll in Venice". Í ávarpi sínu sagði ráðherra íslenska menningu og sköpunarkraft vera grunn að sterku orðspori Íslands um allan heim. Menningarsamstarf landanna væri náið og tækifæri mikil fyrir íslenskt listafólk í Þýskalandi, en af um 600 Íslendingum sem búsettir eru í Berlín eru margir listamenn og listnemar, auk þess sem veitingastaðir og fyrirtæki í skapandi greinum hafa kosið að starfa í Berlín.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum