Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2018 Utanríkisráðuneytið

Mannfall kallar á breyttar áherslur

Friðargæsluliðar MONUSCO í Lýðstjórnar lýðveldinu Kongó.  - mynd

Yfirmaður friðargæslu Sameinuðu þjóðanna segir að friðargæsluliðar samtakanna sæti sífellt fleiri árásum og verði að breyta áherslum sínum. Upplýsingaveita Sameinuðu þjóðanna (UNRIC) greinir frá.

Jean-Pierre Lacroix, framkvæmdastjóri friðargæslustarfs Sameinuðu þjóðanna segir að samtökin verði að aðlagast nýjum aðstæðum. „Vígasveitir sem fara um rænandi og ruplandi, drepandi og nauðgandi og hafa engan áhuga á friðsamlegum lausnum, ráðast í sívaxandi mæli á friðargæsluliða,“ sagði Lacroix á blaðamannafundi þar sem kynnt var ný skýrsla um aukið mannfall í friðargæsluliðinu.

Hann hvatti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðildarríki þeirra til að sjá til þess að friðargæslusveitir samtakanna og þar með fólkið sem þær eiga að þjóna, njóti meiri verndar.

Í skýrslunni segir að Sameinuðu þjóðirnar verði að breyta áherslum sínum því fáni samtakanna sé engin trygging gegn árásum. Þar er hvatt til bættrar þjálfunar, tæknivæðingar liðsmanna og aukinna heimilda til að svara þeirri hættu sem stafar af vígahópum.

„Því miður skilja vígasveitir ekkert annað tungumál en valdbeitingu,“ segir í skýrslunni. Þar er því haldið fram að það tryggi betur öryggi jafnt hermanna sem óbreyttra borgara í þjónustu Sameinuðu þjóðanna að beita valdi fremur en að forðast áhættu. 

Frá 1948 hafa meir en 3.500 týnt lífi við störf í þágu friðargæslunnar, þar af 943 í átökum. Frá 2013 hafa árásir aukist til muna og hafa 195 látist af völdum ofbeldisverka sem er mesta mannfalla á nokkru fimm ára tímabili í sögunni.

Af þessum sökum skipaði António Guterres, aðalframkvæmdastjóri, Carlos Alberto dos Santos Cruz fyrrverandi yfirmann friðargæslusveita til að skila skýrslu um málið í nóvember síðastliðnum, með það í huga að leita leiða til að draga úr mannfalli.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum