Hoppa yfir valmynd
10. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 524/2019

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 524/2019

Miðvikudaginn 10. júní 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. desember 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. september 2019 um að synja umsókn kæranda um 50-60% styrk til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 3. ágúst 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. september 2019, var umsókn kæranda synjað, meðal annars á þeim forsendum að hann uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um að kærandi eða annar heimilismaður hefði sjálfur ökuréttindi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. desember 2019. Með bréfi, dags. 13. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. janúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir að kærandi legði fram gögn frá hjúkrunarheimilinu C þar sem fram kæmi hversu oft kærandi hefði dvalið á skráðu lögheimili sínu á árinu 2019, meðal annars hversu oft hann hafi sofið þar yfir nótt. Þá var óskað eftir nánari upplýsingum frá kæranda um í hvaða tilgangi hann noti bifreiðina. Umbeðin gögn bárust með bréfi, dags. 4. maí 2020, og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 13. maí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála hnekki ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa og að lagt verði fyrir stofnunina að afgreiða umbeðinn styrk til kæranda

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. september 2019, hafi umsókn kæranda um styrk til bifreiðakaupa verið hafnað. Hafi það verið í annað sinn sem umsókn kæranda hafi verið hafnað en stofnunin hafði áður hafnað erindi hans með bréfi 21. september 2018. Höfnun Tryggingastofnunar sé meðal annars byggð á því að kærandi sé inniliggjandi á stofnun og því ekki búsettur að X. Þá aki hann ekki sjálfur en skráður ökumaður sé búsettur að X.

Málavextir séu þeir að kærandi sé haldinn X og hafi barist við hann í um X ár. Hann sé bundinn hjólastól og þurfi nú orðið mikla aðstoð við daglegt líf. Húsinu að X, sem sé lögheimili hans, hafi fyrir X árum verið breytt með þarfir hans í huga varðandi hjólastólaaðgengi og fleira. Kærandi hafi fengið styrk frá Tryggingastofnun til bílakaupa í X, en þá hafi hann enn búið að X, en nú þurfi að endurnýja bílinn. Maki kæranda sé búsett í X, og hafi verið skráður ökumaður bifreiðar samkvæmt umsókn sem hafi verið hafnað 9. september 2019. Vegna þróunar sjúkdómsins hafi kærandi neyðst til þess á árinu X að leggjast inn til dvalar á hjúkrunarheimilið C.

Kærandi og eiginkona hans hafi verið í hjónabandi í X ár. Flutningur hans á hjúkrunarheimili stafi af því að vegna X hafi líkami hans lamast að miklu leyti en hann sé andlega hress. Kærandi haldi lögheimili sínu […] og vilji eðlilega, eins og eiginkona hans og fjölskylda, að hann eigi þess kost að komast á heimili sitt eða til barna sinna sem þar búi, sem og annað til þess að geta tekið þátt í fjölskyldu- og félagslífi eftir því sem aðstæður bjóði og á þeim tíma sem honum henti. Til þess þurfi hann einungis sérútbúinn lítinn bíl sem geti tekið hjólastól og þá geti kærandi ferðast út fyrir hjúkrunarheimilið samkvæmt eigin þörfum með aðstoð fjölskyldumeðlima. Sértæk úrræði ríkis eða sveitarfélags séu ekki fyrir hendi á X þar sem vistfólk á hjúkrunarheimilinu C njóti ekki flutningsþjónustu fyrir fatlað fólk af hálfu sveitarfélagsins.

Þann 1. október 2018 hafi tekið gildi lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi telji að Tryggingastofnun brjóti ákvæði þeirra laga með því að hafna umsókn hans. Í 1. gr. laganna segi svo:

Markmið laga þessara er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.

Kærandi telji að forsendur Tryggingastofnunar fyrir synjun umsóknar hans séu ekki lengur fyrir hendi vegna þeirra viðhorfs- og lagabreytinga sem hafi orðið við gildistöku laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Vísað sé til skýringa á markmiðum laganna í 1. gr. og réttar fatlaðs fólks til þjónustu samkvæmt 3. gr. laganna. Kærandi vísi sérstaklega til 2. mgr. 9. gr. laganna þar sem segi:

„Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.“

Kærandi búi á hjúkrunarheimilinu C vegna sjúkdóms síns af nauðsyn, en ekki af því að hann kjósi það af fúsum og frjálsum vilja. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 sé heimilt að skrá lögheimili á „búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk ...... þótt húsnæðið sé ekki skráð sem íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá.“ Kærandi hafi ekki kosið að gera svo og hafi ekki breytt skráningu lögheimilis síns að X. Ástæður þess séu þær að þar sé raunverulegt heimili hans sem hann eigi […] ásamt eiginkonu sinni sem sé þar búsett. Hann eigi þar heimilismuni sína og vilji dvelja þar þegar hann sé ekki fjarverandi vegna veikinda svo að vísað sé til ákvæðis 2. mgr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. 

Kærandi telji að afstaða Tryggingastofnunar brjóti gegn réttindum fatlaðs fólks, eins og þau séu skilgreind í 1. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Kærandi telji að Tryggingastofnun tálmi því að hann fá notið fullra mannréttinda eða möguleika á því að skapa sér skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum með því að synja honum um styrk til sérhæfðra bílakaupa samkvæmt reglugerð nr. 170/2009. Sá skilningur Tryggingastofnunar að eiginkona kæranda teljist ekki „heimilismaður hans“ samræmist ekki ákvæðum 2. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2018. Hjúkrunarheimilið C reki ekki neina ferðaþjónustu fyrir vistfólk sitt og sveitarfélagið eða ríkið þjónusti ekki hjúkrunarheimilið í þessu tilliti. Sérhæfðir leigubílar til flutnings á hjólastólum séu ekki á X og því geti kærandi ekki nýtt sér þjónustu almennra leigubíla sem starfræktir séu á X. 

Á hjúkrunarheimilinu C séu samkvæmt eðli málsins engir „heimilismenn“ sem gætu annast um akstur bifreiðar fyrir kæranda. Þeir sem þar dveljist séu ekki heimilismenn samkvæmt almennri skilgreiningu, heldur vistmenn. Þeir reki ekki sameiginlegt heimili og séu algerlega óháðir hver öðrum. Að X hafi kærandi rekið sameiginlegt heimili með eiginkonu sinni […] og geri enn. Hún yrði ökumaður og vörslumaður þeirrar bifreiðar sem styrkur yrði veittur til að kaupa á sama hátt og gert hafi verið þegar honum hafi verið veittur styrkur frá Tryggingastofnun árið X. Með bílakaupunum verði kæranda tryggð þau almennu mannréttindi sem honum beri í formi ferðafrelsis sem byggi á forsendum hans sjálfs og fjölskyldu hans þar sem hvorki ríki né sveitarfélag veiti hjúkrunarheimilinu C neina ferðaþjónustu.

Vegna þess langa tíma sem það hafi tekið að reyna að fá Tryggingastofnun til þess að aðlaga sig að ákvæðum nýrra laga nr. 32/2018, hafi kærandi nú þegar keypt og flutt inn til landsins lítinn sérútbúinn bíl með því markmiði að hann fái notið lífsgæða í átt við lífsgæði ófatlaðs fólks, eins og það markmið sé skilgreint í 1. gr. laganna. Ríkisskattstjóri hafi fallist á að endurgreiða vörugjald af hinni sérútbúnu bifreið við innflutning hennar og sérútbúnaður hennar hafi verið samþykktur af Sjúkratryggingum Íslands og Samgöngustofu.

Í ákvörðun frá 9. september 2019 hafi Tryggingastofnun enga afstöðu tekið til tilvísana og röksemda kæranda til ákvæða laga nr. 32/2018 og hafi í engu svarað röksemdafærslu um breytt lagaumhverfi. Niðurstaðan hafi í fyrsta lagi byggst á því að stofnunin hafi ekki talið ástæðu til þess að endurskoða fyrri ákvörðun, þrátt fyrir breytt lagaumhverfi. Í öðru lagi hafi stofnunin byggt á því að ekki lægi fyrir mat á þörf kæranda fyrir bifreið, þrátt fyrir það að stofnunin hafi í fórum sínum ítarlegar upplýsingar um heilsufar kæranda áratugi aftur í tímann. Í þriðja lagi sé á því byggt að ekki hafi verið sótt um umrædd hjálpartæki og ekki hafi verið lagt mat á þörf kæranda fyrir sérútbúna og dýra bifreið. Enginn geti efast um að kærandi þurfi sérútbúna bifreið, en hvergi verði séð í lögum eða starfsreglum Tryggingastofnunar að kæranda sé skylt að kaupa „dýra bifreið“. Hann hafi þvert á móti þegar keypt ódýra bifreið og flutt hana inn sjálfur og óski eftir styrk frá Tryggingastofnun vegna þess. Í fjórða lagi klykki Tryggingastofnun út með þeirri niðurstöðu að eiginkona kæranda, sem sé með sameiginlegt lögheimili með kæranda, sé ekki „heimilismaður hans.“ Vísað sé til lokamálsliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018 þar sem segi: „Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði.“

Í ákvörðun Tryggingastofnunar komi fram að kærandi uppfylli ekki ákvæði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, þ.e. að ökumaður sé „heimilismaður“ hins fatlaða einstaklings. Í 1. mgr. 2. gr. nýrra lögheimilislaga nr. 80/2018, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2019, sé lögheimili skilgreint sem sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu. Í 2. mgr. segi svo:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Kærandi sé skráður til lögheimilis að X, sem sé eign hans og eiginkonu hans sem þar búi, og þar sé haldið sameiginlegt heimili þeirra með öllum þeirra heimilismunum frá X sambúð. Þau séu með sameiginlegt fjárfélag og séu samsköttuð sem hjón og í öllu tilliti njóti þau réttarstöðu hjóna. Kærandi hafi „bækistöð“ sína að X. Þar dveljist hann þegar veikindi hans leyfi, þar séu flestallir heimilismunir hans, utan þess litla sem hann hafi haft með sér á hjúkrunarheimilið C. Að X sé svefnstaður hans þegar kringumstæður leyfi vegna veikinda hans. Hvað fjarvera „um stundarsakir“ samkvæmt 2. mgr. 1. gr. þýði í raun sé hvergi nákvæmlega skilgreint og nefna megi að fjarvera vegna náms geti staðið árum saman á sama hátt og veikindi, en námsmaður teljist samt heimilismaður á lögheimili sínu. Á meðan kærandi hafi heimili sitt að X og þar sé lögheimili hans skráð, verði að líta til þess, með hliðsjón af tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem og til anda þeirra laga sem ætlað sé að reyna að jafna stöðu fatlaðs og ófatlaðs fólks, þá gangi ákvæði settra laga framar tilvitnuðum ákvæðum reglugerðar nr. 170/2009 sem hljóti að víkja fyrir síðar settum lögum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Málsatvik séu þau að kærandi hafi sótt um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið. Umsókninni hafi verið synjað þar sem ökumaður hafi ekki verið heimilismaður kæranda og Sjúkratryggingar Íslands höfðu ekki samþykkt að veita kæranda hjálpartæki í samræmi við kröfur 5. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. gr. 10. gr. sé Tryggingastofnun heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Sett hafi verið reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þar sem 10. gr. laganna sé útfærð nánar. Í 1. mgr. 1. gr. komi fram að markmið reglugerðarinnar sé að auðvelda bótaþegum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur ef sýnt þyki að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 1. mgr. komi jafnframt fram að það sé markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar komi fram að með bifreið sé átt við fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð sé til daglegra nota.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að styrkur vegna kaupa á bifreið megi einungis veita ef hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans hafi ökuréttindi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar gildi skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar einnig um styrki sem veittir eru samkvæmt 5. gr.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé veitt heimild til Tryggingastofnunar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 3. gr. og styrk samkvæmt 4. gr. og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 3. gr. eða styrk samkvæmt 4. gr.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins. Ekki sé deilt um að kærandi sé hreyfihamlaður.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða styrki og uppbætur samkvæmt reglugerðinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það sé ljóst að kærandi uppfylli ekki ákveðin skilyrði reglugerðarinnar.

Hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans þurfi að hafa ökuskírteini til þess að hægt sé að greiða styrk vegna bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar.

Í umsókninni komi fram að kærandi keyri ekki sjálfur. Skráður ökumaður sé maki kæranda, en hún sé skráð til heimilis að X. Kærandi dvelji núna til langtíma á stofnun og teljist því ekki lengur heimilismaður ökumanns samkvæmt reglugerð nr. 170/2009. 

Núgildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi tekið við af eldri reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða nr. 752/2002 með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið það skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefði ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum þurfti umsækjandi sjálfur að hafa ökuréttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar. Réttur einstaklinga sem, eins og kærandi, sæki um styrk samkvæmt 5. gr. reglugerðar til bifreiðakaupa hafi því verið rýmkaður verulega frá fyrra ástandi.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða, sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Rétt sé að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar, meðal annars í málum nr. 246 og 247 frá árinu 2009 og einnig úrskurði í málum nr. 53/2010, 310/2013, 93/2014, 66/2015, 262/2015 og 10/2016 en þau mál hafi öll varðað uppbót/styrk vegna bifreiða. Sérstaklega sé vakin athygli á úrskurði nefndarinnar í máli nr. 66/2015.

Einnig sé Tryggingastofnun heimilt að óska eftir áliti Sjúkratrygginga Íslands á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. breytingarreglugerð nr. 997/2015. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar hafi kærandi aldrei sótt um slík hjálpartæki til Sjúkratrygginga Íslands sem miðað sé við til þess að hægt sé að líta á bifreið sem sérútbúna í skilningi 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Á þessum forsendum hafi kæranda verið synjað um styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Rétt sé að taka fram að markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða sé að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Kærandi dveljist nú á stofnun. Sé gert ráð fyrir að vistin verði til lengri tíma, óski Tryggingastofnun venjulega eftir upplýsingum um það til hvers notkun bifreiðarinnar sé áætluð svo að hægt sé að meta hvort hún uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í tilfelli kæranda sé ljóst að hann uppfylli ekki önnur skilyrði reglugerðarinnar og sé því ekki talin ástæða til þess að óska eftir frekari upplýsingum frá honum þar að lútandi.

Rétt sé að svara nokkrum þeim atriðum sem fram komi í kæru er varði afgreiðslu Tryggingastofnunar og ekki hafi nú þegar verið tekið á í greinargerð stofnunarinnar.

Í kæru sé fullyrt að hvergi í lögum eða starfsreglum Tryggingastofnunar komi fram krafa um að bifreið sé sérútbúin og dýr. Eins og áður hafi komið fram í greinargerðinni segi orðrétt í 5. gr. reglugerðarinnar að heimilt sé að veita styrk samkvæmt ákvæðinu ef „um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.“ Tryggingastofnun hafi ekki frekari upplýsingar um þá bifreið, sem kærandi virðist hafa keypt, aðrar en þær sem fram komi í kæru, en miðað við þær lýsingar virðist þær ekki uppfylla þau skilyrði sem gerð séu fyrir styrk samkvæmt 5. gr. Miðað við lýsingar í kæru gæti bifreiðin hins vegar fallið undir styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar. Ekki hafi verið sótt um þann styrk til Tryggingastofnunar og gilda um þann styrk sömu kröfur, þ.e. að ökumaður sé heimilismaður.

Í kæru sé einnig fullyrt að sveitarfélagið þjónusti ekki hjúkrunarheimilið sem kærandi dvelji á að þessu leyti. Tryggingastofnun hafi augljóslega ekki ákvörðunarvald þegar komi að þjónustu þess sveitarfélags sem kærandi sé búsettur í en vilji þó vekja athygli úrskurðarnefndar og kæranda á mögulegum rétti hans samkvæmt 29. gr. laga nr. 40/1991, sbr. breytingar sem urðu með lögum nr. 37/2018. Einnig skuli sérstaklega bent á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9160/2016.

Tryggingastofnun vilji að lokum hafna því að afgreiðsla stofnunarinnar sé ekki í samræmi við nýlegar lagabreytingar. Í því sambandi megi meðal annars taka fram að uppbót/styrkir til kaupa á bifreið samkvæmt 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé fjárhagsleg aðstoð, peningagreiðsla, úr ríkissjóði, sem ætlað sé að mæta sérstökum kostnaði sem hinn hreyfihamlaði hafi vegna kaupa á bifreið sem talin sé honum nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð og ef sýnt þyki að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar, sjá skilyrði í 10. gr. laganna og reglugerð nr. 170/2009. Sé því ekki um að ræða þjónustu eins og þá sem kveðið sé á um í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið.

Lagaheimild fyrir veitingu styrkja til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo í 3. mgr.:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Þá segir að heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar. Skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:

„1. Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. […].“

Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort kærandi uppfylli fyrrgreint skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að ökumaður kæranda sé heimilismaður hans. Í umsókn kæranda er greint frá því að maki kæranda sé ökumaður hans. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins dvelur kærandi á hjúkrunarheimilinu C þó svo að kærandi sé með skráð lögheimili að X.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. segir svo:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Af upplýsingum frá hjúkrunarheimilinu C má ráða að kærandi fari á skráð lögheimili X til X sinnum í X en hann gisti aldrei þar vegna veikinda sinna. Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé hægt að leggja annað til grundvallar en að kærandi hafi í reynd fasta búsetu á hjúkrunarheimilinu C. Maki kæranda býr aftur á móti að X. Ljóst er að kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um að ökumaður kæranda sé heimilismaður hans. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur skilyrðið um að ökumaður sé heimilismaður bótaþega málefnalegt og miði að því að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans.

Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009  kemur fram að markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða sé að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði telur úrskurðarnefnd velferðarmála að almennt sé ekki heimilt að veita styrk til bifreiðakaupa nema þörf sé á bifreið vegna skólagöngu, atvinnu, reglulegrar endurhæfingar eða læknismeðferðar. Að mati úrskurðarnefndar er ekki heimilt að veita styrk til bifreiðakaupa ef tilgangurinn með bifreiðaeign er einungis að sinna félagslegum þáttum. Úrskurðarnefndin óskaði eftir nánari upplýsingum frá kæranda um í hvaða tilgangi hann noti bifreiðina. Í bréfi, dags. 4. maí 2020, segir eftirfarandi um það:

„Með því að hafa eigin bifreið getur [kærandi] komst út af Hjúkrunarheimilinu þegar honum hentar og farið til síns heima, hitt fjölskyldu sína, nýtt sér félagsþjónustu X og hitt annað fólk og ekið um og skoðað sína heimasveit sér til dægrastyttingar og yndisauka.“

Úrskurðarnefndin telur að ráðið verði af framangreindu að tilgangurinn með bifreiðareign kæranda sé einungis að sinna félagslegum þáttum. Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir veitingu 50-60% styrks til bifreiðakaupa.

Kærandi telur að niðurstaða Tryggingastofnunar brjóti gegn réttindum fatlaðs fólks, eins og þau séu skilgreind í 1. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þá er byggt á því að kærandi fái enga akstursþjónustu. Úrskurðarnefndin bendir á að um styrki til bifreiðakaupa er fjallað í 10. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 170/2009. Lög nr. 38/2018 fjalla ekki um slíkt og því er ekki er heimilt að mati úrskurðarnefndar að víkja frá þeim skilyrðum sem koma fram í lögum um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 170/2009 með vísan til laga nr. 38/2018. Þá bendir úrskurðarnefndin á að fjallað er um akstursþjónustu fatlaðs fólks í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ef sveitarfélagið synjar um akstursþjónustu er hægt að kæra þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Aftur á móti er engin heimild til þess að samþykkja styrk til bifreiðakaupa samkvæmt lögum um félagslega aðstoð á þeim grundvelli að sveitarfélag sinni ekki akstursþjónustu.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 50-60% styrk til kaupa á bifreið staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um 50-60% styrk til kaupa á bifreið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum