Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 378/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 13. nóvember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 378/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20100014

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU19040115, dags. 18. júlí 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júlí 2019. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 29. júlí 2019. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 22. ágúst 2019. Kærandi óskaði í fyrra sinn eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar þann 19. nóvember 2019. Þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 17. febrúar 2020.

Kærandi lagði öðru sinni fram beiðni um endurupptöku þann 16. október 2020 og barst greinargerð kæranda þann sama dag. Kærunefnd bárust jafnframt upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun þann 20. október 2020 og voru þær áframsendar til kæranda, dags. 21. október 2020. Þá bárust frekari skýringar frá kæranda, dags. 21. og 30. október 2020.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kæranda að óskað sé eftir endurupptöku máls hans á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að meira en 18 mánuðir séu nú liðnir frá því að kærandi fékk niðurstöðu í máli sínu hjá Útlendingastofnun, dags. 11. apríl 2019, og fortakslaus skilyrði 2. tölul. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) séu því uppfyllt og ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafi færst á íslensk stjórnvöld. Málið skuli því endurupptaka á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Þá vísar kærandi til þess að hann telji að endurupptaka hafi átt mál hans þann 19. nóvember 2019 þar sem þá hafi verið liðnir 12 mánuðir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji að samkvæmt úrskurði kærunefndar, dags. 17. febrúar 2020, í máli nr. KNU19110040, vegna fyrri endurupptökubeiðni hans, hafi verklag Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra verið athugunarvert. Kærandi telji það leiða til þess að vafi sé á því hvort hann hafi tafið framkvæmd brottvísunar og að slíkan vafa ætti að túlka honum í hag.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 18. júlí 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í greinargerð kæranda er byggt á ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar um fresti í málinu. Eins og talsmanni kæranda er ljóst er kærandi handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi og því eiga ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar ekki við í máli hans, sbr. 1. gr. reglugerðarinnar. Þegar við komu sína hingað til lands, dags. 13. nóvember 2018, greindi kærandi frá því að hann væri með stöðu flóttamanns í Grikklandi og staðfestu grísk stjórnvöld, dags. 5. apríl 2019, að kærandi hefði hlotið viðbótarvernd þar í landi og væri með gilt dvalarleyfi til 17. júní 2021. Í máli kæranda hefur því legið fyrir í allri málsmeðferðinni, í fyrstu hjá Útlendingastofnun og síðar kærunefnd, að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar, þ. á m. frestir reglugerðarinnar, eiga ekki við um mál kæranda enda er för kæranda til Grikklands ekki bundin samþykki þarlendra stjórnvalda á móttöku hans ólíkt því sem á við um mál sem heyra undir c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og þ.a.l. Dyflinnarreglugerðina. Sú málsástæða kæranda sem tengist frestum Dyflinnarreglugerðarinnar er því tilhæfulaus.

Þá er í greinargerð kæranda byggt á því að endurupptaka hafi átt mál hans þann 19. nóvember 2019 þar sem liðnir hafi verið 12 mánuðir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, en kærandi telji vafa leika á því hvort hann hafi tafið framkvæmd brottvísunar sinnar og að slíkan vafa skuli túlka honum í hag. Kærandi hefur þó ekki lagt fram ný gögn eða nýjar upplýsingar með beiðni sinni um endurupptöku. Kærunefnd tekur fram að í úrskurði kærunefndar nr. KNU19110040, dags. 17. febrúar 2020, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði tafið mál sitt í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur því þegar tekið afstöðu til framangreindrar málsástæðu kæranda.

Að teknu tilliti til gagna málsins og þess að framangreindur frestur Dyflinnarreglugerðarinnar á ekki við um mál kæranda er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik máls kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. KNU19040115, dags. 18. júlí 2019, var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé, að teknu tilliti til gagna málsins, ekki heldur unnt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. KNU19110040, dags. 17. febrúar 2020, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, einnig sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda um endurupptöku er því hafnað.


 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum