Hoppa yfir valmynd
25. september 2018

Íslenska fyrirtækið CRI hlýtur verðlaun fyrir nýsköpun í þágu loftlagsverndar

F.v. Cosima Steiner viðskiptafulltrúi Austurríkis, Stefanía Kristín, og sendiherra Austurríkis Maria Rotheiser-Scotti. - mynd

Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur hlotið National Energy Globe Iceland umhverfisverðlaunin fyrir Emissions-to-Liquids (ETL) tæknilausn sína. Verðlaunin eru veitt fyrirtækjum og einstaklingum sem skarað hafa fram úr í umhverfismálum.

Stefanía Kristín Bjarnadóttir, viðskipta-og menningarfulltrúi sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn veitti verðlaununum mótttöku fyrir hönd CRI við formlega athöfn sem fram fór í Kaupmannahöfn í gær, 23. ágúst.

CRI hlýtur verðlaunin fyrir ETL tæknilausn sína sem talin er gagnast til að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum, minnka losun koltvísýrings frá margskonar iðnaði og stuðla að orkuskiptum í samgöngum. Dómnefnd sem skipuð var sérfræðingum á sviði umhverfisverndar og nýsköpunar, taldi metanól verksmiðju CRI í Svartsengi sýna fram á að endurnýta megi koltvísýring frá iðnaði á hagkvæman hátt og taldi tæknina samræmast markmiðum verðlaunanna. Verksmiðja CRI er sú eina sinnar tegundar á heimsvísu, en árleg framleiðslugeta hennar er 4.000 tonn af endurnýjanlegu metanóli sem framleitt er úr koltvísýringi sem losnar frá jarðvarmavirkjun HS Orku og vetni sem framleitt er með rafgreiningu í verksmiðjunni sjálfri.

Energy Globe Awards eru meðal virtustu umhverfisverðlauna heims en í ár komu yfir 2000 einstaka verkefni frá 182 löndum til álita. Handhafar verðlaunanna hljóta alþjóðlega viðurkennda vottun um sjálfbærni og framlag í þágu loftslagsverndar. Verðlaunin eru bæði veitt í flokkum á heims- og landsvísu og er þeim ætlað að styðja við þróun lausna sem m.a. auka aðgengi að endurnýjanlegri orku og nýta auðlindir með sjálfbærum hætti.

“Þessi verðlaun eru mikilvæg viðurkenning fyrir CRI og vinnu okkar við þróun tækni til hagnýtingar koltvísýrings og aðgerða í þágu loftslagsverndar", sagði Sindri Sindrason, forstjóri CRI.

Um CRI

Íslenska hátæknifyrirtækið CRI hefur verið brautryðjandi á heimsvísu á sviði hagnýtingar koltvísýrings frá árinu 2006, en árið 2012 tók verksmiðja fyrirtækisins til starfa í Svartsengi. Þar er koltvísýringur sem losnar frá jarðvarmavirkjun HS orku nýttur til framleiðslu á metanóli. CRI hefur hafið markaðsvæðingu tækni sinnar og hefur nýlega stofnað dótturfyrirtæki í Kína þar sem ætlunin er að reisa verksmiðjur á komandi árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum