Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 18/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 11. janúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 18/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU17120018

 

Beiðni […] og barna hennar um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 30. mars 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2017, um að synja umsóknum […], fd. […], ríkisborgara Ghana (hér eftir nefnd kærandi), og barna hennar, […], fd. […], […], fd. […]og dreng […], fd. 26. júní 2016, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Þann 8. apríl 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 28. apríl 2017. Þann 22. maí 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda og barna hennar var synjað af kærunefnd þann 8. júní 2017. Þann 3. júlí 2017 barst kærunefnd kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að brottvísa kæranda frá landinu. Úrskurður kærunefndar þar sem sú ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest var birtur kæranda þann 5. september 2017. Þann 14. ágúst 2017 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hennar og barna hennar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 31. ágúst 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar hafnað. Þann 10. október 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hennar og barna hennar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 26. október 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar hafnað. Þann 8. desember 2017 óskaði kærandi að nýju eftir endurupptöku málsins.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hennar og barna hennar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Því sé farið fram á að mál kæranda og barna hennar verði tekið upp að nýju og að þeim verði annað hvort veitt alþjóðleg vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. útlendingalaga.

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og fjölskyldu hennar byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku aðallega á því að hún sé þolandi mansals og að hún hafi verið seld í vændi á Ítalíu. Kærandi geti hvorki snúið aftur til Ghana né Ítalíu þar sem skipuleggjendur mansals kæranda hafi ítök í báðum löndum. Í greinargerð kæranda kemur fram að foreldrar hennar hafi selt hana sem barn til einstaklinga sem hafi lofað að sjá vel um hana og að koma henni í nám. Hafi umræddir einstaklingar flutt kæranda til Ítalíu þar sem henni hafi verið komið í vændi. Hafi hún stundað vændi þar til hún kynntist eiginmanni sínum og hafi þau flúið saman, fyrst innan Ítalíu og síðar til Íslands. Hafi kæranda borist smáskilaboð í farsíma og myndir frá einstaklingum bæði á Ítalíu og í Ghana sem tengist þeim sem hafi hneppt kæranda í mansal. Í smáskilaboðunum sé henni og fjölskyldu hennar hótað lífláti snúi þau aftur til Ítalíu eða heimaríkis. Í skilaboðunum sé óskað eftir því að kærandi greiði skuld sína við hjónin sem hafi hneppt hana í mansal.

Þá kemur jafnframt fram í greinargerð kæranda að líkamleg heilsa eiginmanns hennar sé slæm. En þann 27. nóvember sl. hafi eiginmaður kæranda þurft að leita á bráðamóttökuna eftir blóðug uppköst og kviðverki. Kærandi óttist um líf sitt og fjölskyldu sinnar verði þeim gert að snúa aftur til annaðhvort Ghana eða Ítalíu.

Í ljósi alls framangreinds telji kærandi tilefni til þess að mál hennar og fjölskyldu hennar verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málstvik. Er því farið fram á að mál kæranda og barna hennar verði tekið upp að nýju og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram:

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. á aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hér verður því að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 30. mars 2017 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku einkum á því að hún sé þolandi mansals og að hún hafi verið seld í vændi á Ítalíu. Kærandi heldur því fram að á síðastliðnum tveimur árum hafi henni borist smáskilaboð og myndir í gegnum samskiptaforritið WhatsApp frá einstaklingum bæði í Ghana og á Ítalíu. Kveður kærandi að skilaboð úr tveimur ítölskum númerum séu frá hjónunum sem hafi komið kæranda í mansal. Þá séu skilaboð úr ganversku númeri frá tilteknum vúdú-presti sem þekki umrædd hjón. Með greinargerð kæranda barst nefndinni ódagsett skjáskot af umræddum skilaboðum. Kærunefnd óskaði eftir að fá frumritin af þessum skilaboðum og þann 14. desember 2017 varð kærandi við beiðni kærunefndar. Kærunefnd tók einkum til skoðunar innihald þriggja forrita í farsíma kæranda, þ.e. samskiptaforritið WhatsApp, Google photos og Gallerí. Þegar kærunefndin skoðaði farsíma kæranda kom í ljós að öllum skilaboðum í WhatsApp hafi verið eytt nema þeim sem bárust kæranda nú í desember. Kvaðst kærandi hafa tekið skjáskot af öllum skilaboðum frá umræddum einstaklingum og vistað þau í Google photos. Til þess að sækja upplýsingar um hvenær skjáskotin voru tekin þurfti kærunefnd að fara inn á hverja mynd fyrir sig í Google photos og vista þær í galleríi símans. Þegar skjáskotin voru síðan skoðuð sem myndir í galleríi símans var fyrst hægt að fá upplýsingar um hvenær skjáskotin hafi verið tekin. Ekkert skjáskot var dagsett af sjálfu WhatsApp, en skilaboð á milli einstaklinga í forritinu eru almennt dagsett í upphafi samræðnanna. Þegar allar myndirnar af skjáskotunum eru skoðaðar í galleríi símans og upplýsingar um hverja mynd sóttar þá kemur fram að þær voru dagsettar 31. desember 2015, 3. og 6. mars 2016, 30. nóvember 2017 og 5. desember 2017. Í skilaboðunum er kæranda hótað lífláti snúi hún og fjölskylda hennar aftur til annað hvort Ítalíu eða Ghana. Jafnframt er hún beðin um að greiða skuld sína við hjónin sem hafi hneppt hana í mansal og fjármagnað ferð kæranda frá Ghana til Evrópu. Í skilaboðunum kemur einnig fram að sendandinn þekki bæði til astma veikinda barna kæranda og veikinda eiginmanns kæranda, en hann veikist í lok nóvember 2017.

Kærandi sótti um vernd hér á landi ásamt fjölskyldu sinni þann 5. febrúar 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 25. apríl 2016. Þar tók kærandi fram að hún hafi farið með foreldrum sínum til Ítalíu árið 2004. Í viðtalinu kvaðst kærandi einnig hafa búið með foreldrum sínum á Ítalíu fram til ársins 2011 þar til hún hafi gifst eiginmanni sínum. Í viðtalinu er kærandi spurð hvort það sé einhver önnur ástæða, heldur en bágar efnahagslegar aðstæður hennar og fjölskyldu hennar á Ítalíu, fyrir því að hún vilji ekki fara aftur þangað. Því svarar kærandi að hún hafi áhyggjur af framtíð barna sinna á Ítalíu þar sem rasismi ríki á ítölskum vinnumarkaði. Með ákvörðun, dags. 8. júní 2016, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og ákvað að þau skyldu endursend til Ítalíu á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði kærunefndar, dags. 30. ágúst 2016, var Útlendingastofnun gert að taka mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar. Kærandi mætti aftur í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 9. desember 2016 ásamt talsmanni sínum. Í viðtalinu segir kærandi frá því að hún hafi farið frá Ghana ásamt foreldrum sínum þar sem aðstæður í heimaríki þeirra hafi verið erfiðar. Þá var kærandi spurð út í ástæður þess að hún vilji ekki snúa aftur til heimaríkis. Í endurriti viðtalsins kemur fram að kærandi telji ekkert bíða sín í Ghana nema atvinnuleysi og efnahagslegir erfiðleikar. Með ákvörðun, dags. 10. janúar 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þann 30. mars 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 28. apríl 2017. Þann 22. maí 2017 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð sinn. Kærandi byggði fyrstu beiðni sína um endurupptöku einkum á að langur tími sé liðinn síðan kærandi yfirgaf heimaríki og að hún hafi hvorki fjölskyldutengsl né annað bakland þar. Þá bíði kæranda ekkert í Ghana nema sárafátækt og bág lífskjör sem muni verða til þess að framfærsla barna kæranda verði ekki trygg. Beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kæranda og barna hennar var synjað af kærunefnd þann 8. júní 2017. Þann 14. ágúst 2017 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hennar og barna hennar. Þá beiðni byggði kærandi aðallega á því að við mat á aðstæðum kæranda við ákvörðunartöku í máli hennar hafi ekki verið tekið nægjanlegt tillit til sérstaklega viðkvæmrar stöðu fjölskyldu kæranda, en kærandi og eiginmaður hennar séu með þrjú ung börn á sínu framfæri. Þá hafi þær upplýsingar ekki legið fyrir að tvö af þremur börnum kæranda þjáist af öndunarörðugleikum. Með úrskurði kærunefndar, dags. 31. ágúst 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar hafnað. Þann 10. október 2017 barst kærunefnd þriðja beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hennar og barna hennar. Kærandi byggði þá beiðni sína um endurupptöku m.a. á að meðferð við veikindum barna kæranda hafi hafist hér á landi. Hélt kærandi því fram að börnin muni ekki fá viðeigandi meðferð við sjúkdómi sínum verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá var því jafnframt haldið fram að ákvæði 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga eigi við um yngsta barn kæranda. Með úrskurði kærunefndar, dags. 26. október 2017, var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hennar og barna hennar hafnað.

Af framangreindu telur kærunefnd ljóst að kærandi hafi í allmörg skipti fengið tækifæri til þess að greina frá aðstæðum sínum og ástæðum fyrir flótta frá heimaríki bæði í viðtölum við Útlendingastofnun og í greinargerðum til kærunefndar, en um 22 mánuðir eru liðnir síðan kærandi sótti um vernd hér á landi. Það er mat kærunefndar, með tilliti til fyrri framburðar kæranda, að frásögn hennar um að hún sé að fá hótanir í smáskilaboðum frá hjónum sem hafi hneppt hana í mansal og einstaklingum þeim tengdum, geti ekki talist trúverðug. Þá lítur kærunefndin sérstaklega til þess að kærandi hafi ekki vistað skjáskot af smáskilaboðunum þar sem dagsetningin kemur fram á skjáskotinu sjálfu heldur hafi kærandi einungis getað sýnt nefndinni hvenær skjáskotið sjálft kann að hafa verið tekið. Sú dagsetning hefur hins vegar takmarkaða þýðingu og vægi en auðvelt er að hagræða dagsetningum á myndum sem teknar eru á þann hátt sem kærandi gerði. Verður því frásögn kæranda af því að hún eigi á hættu ofsóknir af hálfu aðila sem hafi selt hana mansali á Ítalíu metin ótrúverðug og ekki lögð til grundvallar.

Kærunefnd tekur fram að þó að almennt séu ekki gerðar ríkar kröfur til framlagningar gagna til stuðnings umsóknum um alþjóðlega vernd telur kærunefnd að með tilliti til staðfastrar fyrri frásagnar kæranda og þess að kærandi hafi ítrekað haft tækifæri til þess að greina frá ástæðum sínum fyrir flótta frá heimaríki sé eðlilegt að gera þær kröfur til hennar að hún leggi fram einhver trúverðug gögn til stuðnings beiðni um endurupptöku svo að unnt sé að komast að þeirri niðurstöðu að fyrri úrskurður hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Heildstætt mat hefur farið fram á þeim viðbótargögnum sem bárust og er það mat kærunefndar að þau gögn sem hafi verið að finna í farsíma kæranda séu ótrúverðug og gefi ekki tilefni til endurupptöku málsins.

Þá hefur kærunefndin farið yfir gögn með nýrri beiðni kæranda og aðrar upplýsingar um aðstæður í Ghana, einkum skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna (United States Department of State, 2017 Trafficking in Persons Report - Ghana (U.S. Department of State, 27. júní 2017) og skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Freedom in the World 2017-Ghana (UNHCR, 2017)). Af gögnum má ráða að þrátt fyrir að Ghana sé upprunaland, viðkomustaður og áfangastaður mansals og nauðungarvinnu þá hafi ganversk stjórnvöld tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og koma í veg fyrir mansal og nauðungarvinnu. Þá hafi verið gerðar ýmsar stefnubreytingar í þessum málum og árið 2005 hafi stjórnvöld komið á sérstakri löggjöf til að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal. Árið 2008 hafi sérstök deild verið skipuð innan lögreglunnar sem sérhæfir sig í málum sem tengjast mansali og nauðungarvinnu (e. The Ghana police service anti-human trafficking unit). Hafi deildin rannsakað um 118 mál árið 2016 sem hafi tengst mansali og/eða nauðungarvinnu.

Þrátt fyrir að þolendur mansals geti átt erfitt uppdráttar við endurkomu til Ghana benda þau gögn sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar ekki til þess að þolendur mansals verði almennt fyrir ofsóknum við heimkomu. Þá séu til staðar innviðir í heimaríki sem sérhæfa sig í þjónustu og aðstoð við þolendur mansals. Kærandi eigi þess því kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Fari kærandi aftur til Ghana verður hún með fjölskyldu sinni og verður ekki byggt á öðru en að hún og börn hennar muni njóta stuðnings eiginmanns hennar við að koma sér fyrir í landinu á ný.

Kærandi kom hingað til lands ásamt manni sínum og tveimur börnum. Kærunefnd áréttar að í fyrri úrskurði í máli eiginkonu kæranda og barna þeirra hafi, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, verið litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda og komist að þeirri niðurstöðu að öryggi þeirra, velferð og félagslegum þroska væri ekki búin hætta fylgi þau foreldrum sínum til heimaríkis. Jafnframt var sérstakt tillit tekið til barna kæranda við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga væru uppfyllt í málinu og í kjölfarið komist að þeirri niðurstöðu að þær aðstæður sem bíði fjölskyldunnar í heimaríki næðu ekki því alvarleikastigi að sýnt hafi verið fram á að börn kæranda hefðu ríka þörf á vernd hér á landi. Í ljósi niðurstöðu trúverðugleikamats telur kærunefnd að nýjar málsástæður kæranda í þessu máli raski ekki þessu mati nefndarinnar.

Eins og að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að í beiðni kæranda um endurupptöku hafi ekki komið fram nýjar upplýsingar eða gögn um aðstæður fjölskyldunnar sem benda til þess að aðstæður séu breyttar frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Þá er það afstaða kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram, hótanir í smáskilaboðum og myndir séu ekki þess eðlis að hægt sé að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 30. mars 2017 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Því sé jafnframt ekki hægt að fallast á endurupptöku málsins á þeim grundvelli.

Að öðru leyti er það mat kærunefndar að ekki sé tilefni til endurupptöku málsins. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar og barna hennar hjá kærunefnd er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda og barna hennar er hafnað.

 

The request of the appellant and her children is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Pétur Dam Leifsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum