Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 157/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Hinn 7. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 157/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030052

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

 

  1. Málsatvik

    Hinn 8. júlí 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 25. mars 2021 um að synja umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 12. júlí 2021.

    Hinn 10. janúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um að nefndin myndi endurupptaka úrskurð sinn í máli kæranda. Með beiðninni fylgdi gagn sem kærunefnd sendi í áreiðanleikakönnun hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var það niðurstaða rannsóknar að umrætt gagn væri að öllum líkindum falsað. Með úrskurði kærunefndar nr. 99/2022, dags. 24. febrúar 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað.

    Kærandi lagði í annað sinn fram beiðni um endurupptöku hinn 29. mars 2022 sem sætir úrlausn. Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram heilsufarsgagn dags. 18. mars 2022. 

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er krafan einnig reist á ólögfestri meginreglu stjórnsýsluréttarins um endurupptöku.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni um endurupptöku á máli hennar hjá kærunefnd á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en hún telur að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og að aðstæður hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Þá sé ákvörðun í máli kæranda haldin verulegum annmarka.

    Með endurupptökubeiðni lagði kærandi fram ný heilsufarsgögn sem hún telur að innihaldi upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir á fyrri stigum en kærandi hafi nú undirgengist frekara mat á heilsufarsvandamálum sínum. Í þeim komi fram að kærandi þurfi að vera í eftirliti og hún sé á lífsnauðsynlegum lyfjum við háþrýstingi og hjartabilun. Þá sé ljóst að brottvísun kæranda muni að öllum líkindum kosta hana lífið. Rof á meðferð sé því ekki einungis til þess fallið að valda henni tjóni heldur bendi læknisvottorðið eindregið til að slíkt rof væri líklegt til að kosta kæranda lífið og valda börnum hennar óbærilegum, óafsakanlegum og óafturkræfum skaða. Þá sé ljóst af heimildum um heimaríki kæranda að henni sé ómögulegt að fá fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í Nígeríu, enda hafi komið fram í úrskurði kærunefndar frá 17. desember 2020 að ekki verði ráðið annað en að framboð á lyfjum í Nígeríu sé ótryggt og gæði ófullnægjandi. Um sé að ræða ómöguleika, þar sem heilbrigðiskerfið sé illa skipulagt, aðgengi að lyfjum almennt slæmt og lyfjaverð hátt.

    Í ljósi alls framangreinds telur kærandi tilefni til þess að mál hennar verði tekið upp að nýju og að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga svo og ólögfestrar meginreglu stjórnsýsluréttarins um endurupptöku stjórnsýslumáls.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurði sinn, nr. 315/2021, í máli kæranda hinn 8. júlí 2021 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda hinn 12. júlí 2021. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram læknabréf, dags. 18. mars 2022. Í læknabréfinu kemur fram að kærandi glími við alvarlega sjúkdóma og hún þurfi að vera í eftirliti vegna hans hjá heilbrigðisstofnunum. Þá sé hún á nauðsynlegum lyfjum við háþrýstingi og hjartabilun.

Við meðferð máls kæranda hjá stjórnvöldum hefur frá upphafi legið fyrir að kærandi hafi leitað til sérfræðinga og hafi tekið lyf að staðaldri vegna hjartavandamála sinna bæði hér á landi og á Ítalíu. Í úrskurði kærunefndar, dags 8. júlí 2021, kom fram að ekkert hefði komið fram í heilsufarsgögnum að sú meðferð sem kærandi hafi fengið hér á landi vegna heilsufarskvilla væri talin svo sérhæfð að hún gæti einungis hlotið hana hérlendis eða að rof á henni yrði til tjóns fyrir kæranda yrði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Þær upplýsingar sem koma fram í framlögðu læknabréfi staðfesta ofangreindar upplýsingar en breyta engu um fyrra mat kærunefndar. Þá kemur fram í úrskurðinum að öllum ríkisborgurum Nígeríu sé tryggður aðgangur að heilbrigðisþjónustu og lyfjum sem þeim eru nauðsynleg. Í beiðni sinni um endurupptöku hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á annað og þá benda gögn um heimaríki kæranda ekki til þess að aðstæður hafi breyst hvað þetta varðar. Verður því ekki fallist á að úrskurður kærunefndar frá 8. júlí 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá benda gögn málsins ennfremur ekki til þess að aðstæður kæranda hafi breyst verulega í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eða að úrskurður kærunefndar hafi verið haldinn verulegum annmarka svo rétt sé að endurupptaka hann.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku máls hennar hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð:

 

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine her case is denied.

 

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður

 

 

Sindri M. Stephensen                                                  Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum