Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Reksturinn jákvæður á Akranesi

Samkvæmt hálfs árs uppgjöri Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi (SHA) er niðurstaða rekstrar ársins jákvæður sem nemur um 2,4% af heildartekjum. Þetta kemur fram í frétt frá SHA. Þar kemur einnig fram að sértekjur SHA hækka um 6,6% á milli ára sem stafar fyrst og fremst af aukinni útseldri þjónustu til annarra heilbrigðisstofnana. Launagjöld samkvæmt uppgjörinu hækka um 2,3% á milli tímabila sem er í samræmi við áætlun. Aðrir útgjaldaliðir eru innan þeirra marka sem sett voru við gerð ársáætlunar nema hvað lækninga- og hjúkrunarvörukostnaður hækkar nokkuð umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir. Ástæður má rekja beinlínis til aukinnar starfsemi og fleiri aðgerða, einkum liðskiptaaðgerða en þeim fjölgar um 50% á milli ára þetta tímabil. Skurðaðgerðum fjölgar í heild um ríflega 9% á milli tímabila, hæst er hlutfallið í liðskiptaaðgerðum og kvensjúkdómaaðgerðum. Á flestum öðrum sviðum er ennfremur um aukningu að ræða. Legudögum fjölgar nokkuð á þessu tímabili og skýrist það af eðli þeirra aðgerða sem fengist er við. Þróunin hefur hinsvegar verið sú undanfarin ár að legudögum fækkar á SHA eins og á öðrum sjúkrahúsum og nefna má að frá 1997 hefur legudögum á SHA fækkað um 500 á ári hverju, sjúklingum fjölgar þó umtalsvert.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum