Hoppa yfir valmynd
3. september 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 28. ágúst ? 3. september

Umtalsverð verðlækkun lyfja

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, kynnti blaðamönnum á fundi í morgun samkomulag sem heilbrigðismálaráðuneytið hefur gert við Félags íslenskra stórkaupmanna og Actavis um lækkun lyfjaverðs. Kjarni samkomulagsins er að lyfjaverð í heildsölu á Íslandi verður sambærilegt við því meðalverði sem hverju sinni er í gildi annars staðar á Norðurlöndum innan tveggja ára. Fyrsta lækkun samkvæmt samkomulagi við FÍS, sem samsvarar 200 m.kr. lækkun á ársgrundvelli, kom til framkvæmda þann 1. september s.l. Fyrsta lækkun samkvæmt samkomulagi við Actavis, sem samsvarar 80 m.kr. lækkun á ársgrundvelli, kemur til framkvæmda þann 1. október n.k. Fyrr á árinu lækkuðu lyf frumlyfjaframleiðenda á heildsöluverði á ársgrundvelli um 300 m.kr. (1. júní) og frá Actavis um 60 m.kr. (1. maí). Samtals mun því lyfjaverðslækkun á þessu ári nema um 763 m.kr. í heildsölu sem svarar um 1.136 m.kr. í smásölu. Þegar samkomulagið um lægra lyfjaverð var í höfn var horfið frá áformum um upptöku viðmiðunarverðs lyfja með sambærileg meðferðaráhrif, en það átti samkvæmt reglugerð að taka gildi hinn 1. ágúst 2004 sl. Þá hefur ráðherra fallist á að skipa sérstakar samráðsnefndir með aðilum samkomulagsins sem verður ráðherra og lyfjagreiðslunefnd til ráðgjafar um lyfjaverð og nánari útfærslu og framkvæmd. Á blaðamannafundinum lagði heilbrigðismálaráðherra ríka áherslu á að hann fagnaði samkomulaginu og samstarfinu sem tekist hefði með ráðuneytinu, fulltrúum FÍS og Actavis. Hann undirstrikaði jafnframt að í samkomulaginu fælust viðbrögð þessara þriggja aðila við skýrslu Ríkisendurskoðunar um notkun verð og verðmyndun lyfja á Íslandi sem út hefði komið í mars sl. Í ávarpi sínu á blaðamannafundinum sagði ráðherra meðal annars: "Niðurstaða Ríkisendurskoðunar sem segir að lyfjareikningur landsmanna sé of hár miðað við það sem gerist og gengur annar staðar á Norðurlöndum er mjög alvarleg og útilokað fyrir yfirvöld heilbrigðis- og fjármála að sitja hjá, án þess að grípa til aðgerða. Óverjandi er að greiða sjálfvirkt niður lyf sem keypt eru við svo háu verði – það er óafsakanlegt í ljósi aðhaldsaðgerða, sem beitt er annars staðar í heilbrigðisþjónustunni og gagnvart skattgreiðendum sem standa undir niðurgreiðslum lyfja Tryggingastofnunar ríkisins. Samkomulagið sem gert hefur verið við þá sem koma að þessum málum og sem við kynnum hér í dag sýnir að aðilar samkomulagsins hafa tekið gagnrýnina til sín og brugðist við með því að finna sameiginlega niðurstöðu og því ber að fagna." Á blaðamannafundinum kynnti ráðherra einnig nýskipaða lyfjagreiðslunefnd sem skipað var í á dögunum, en í henni sameinast tvær aðrar nefndir sem fjalla um verðmyndun lyfja, þ.e. lyfjaverðsnefnd og greiðsluþátttökunefnd sem eru lagðar niður.


Lyfjastofnun varar við fölsuðum Cialis töflum
Breska lyfjastofnunin hefur sent frá sér aðvörun um að í Bretlandi séu í umferð falsanir á rislyfinu Cialis (Tadalafil) 20 mg töflum. Í kjölfar þess sér Lyfjastofnun ástæðu til að vara við notkun þessara fölsuðu taflna. Stofnunin varar fólk við hættunni sem getur fylgt því að kaupa lyf á netinu og ráðleggur fólki á að vera á varðbergi. Fölsuðu lotur lyfsins er ekki að finna í almennri dreifingu hér á landi segir á heimasíðu Lyfjastofnunar, en ekki sé hægt að útiloka að einstaklingar hafi keypt lyfið á annan hátt, t.d. í gegnum Netið.
Nánar...

Greiðsluþátttaka í bólgueyðandi verkjalyfjum skilyrt með nýrri reglugerð
Þann 1. september tók gildi ný reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisinn nr. 712/2004 um greiðsluþátttöku almannatrygginga. Með gildistöku reglugerðarinnar breytist greiðsluþátttakan í tveimur lyfjaflokkum. Cox-II lyf sem er nýlegur og dýr flokkur bólgueyðandi verkjalyfja verða aðeins niðurgreidd hafi læknir staðfest með upphafsstöfum sínum ákveðna ábendingu í samræmi við leiðbeinandi vinnureglur sem samdar voru af landlæknisembættinu í samráði við sérfræðing í gigtarlækningum og með hliðsjón af þekktum erlendum leiðbeiningum. Frá þessu er greint á heimasíðu landlæknisembættisins og þar eru vinnureglurnar birtar.
Nánar...

Niðurgreiðslur örvandi lyfja háðar framvísun lyfjaskírteinis
Með gildistöku reglugerðar nr. 712/2004 um greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði verða örvandi lyf einungis niðurgreidd gegn framvísun lyfjaskírteinis.
Tryggingastofnun hefur gefið út vinnureglur um fyrirkomulag vegna þessa í samráði við landlæknisembættið og
viðkomandi sérfræðinga og eru þær birtar á heimasíðu Tryggingastofnunar.
Nánar...

 

Nýgengi örorku vegna geðraskana hefur rúmlega tvöfaldast á sjö árum
Nýgengi 75% örorku vegna geðraskana hefur rúmlega tvöfaldast á sjö árum að teknu tilliti til fjölgunar þjóðarinnar á sama tímabili. Þetta kemur fram í grein eftir Sigurð Thorlacius tryggingayfirlækni og Sigurjón B. Stefánsson sérfræðing í geðlækningum um algengi örorku vegna geðraskana á Íslandi 1. desember 2002. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins (9. tbl. 90. árg. 2004) og er fjallað um efni hennar á heimasíðu Tryggingastofnunar.
Nánar
...

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið 3. ágúst 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum