Hoppa yfir valmynd
24. september 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 18. - 24. september

LSH: Skurðaðgerðum fjölgar og biðlistar hafa styst verulega

Skurðaðgerðum á Landspítala – háskólasjúkrahúsi fjölgar enn og nemur aukningin 2,6% fyrstu átta mánuði ársins. Þetta kemur fram í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga með nýjustu stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins. Gerð er grein fyrir fjölgun aðgerða á einstökum sviðum. Fram kemur að fjölgun aðgerða hafi orðið möguleg eftir að sameiningu sérgreina á sjúkrahúsinu lauk og segir jafnframt að kostnaður hafi ekki aukist í hlutfalli við fjölgun aðgerða. Framleiðni hafi því aukist. Fjölgun skurðaðgerða skilar sér beint í fækkun á biðlistum. Í september í fyrra biðu 3.686 einstaklingar eftir skurðaðgerð á spítalanum en nú bíða 2.637 sem er fækkun um 28,5%. Sá tími sem sjúklingar þurfa að bíða eftir aðgerðum hefur einnig styst verulega. Í september í fyrra gátu sjúklingar t.d. vænst þess að bíða í um 20 mánuði eftir aðgerð vegna vélindabakflæðis og þindarslits. Í dag er bið eftir þessari aðgerð komin niður í um sex mánuði.
Nánar...

Ályktun frá ráðstefnunni LOFT 2004

Um 100 manns, heilbrigðisstarfsfólk og annað áhugafólk um tóbaksvarnir sótti ráðstefnuna LOFT 2004 sem haldin var í Hveragerði 16. – 17. september. Á ráðstefnunni var samþykkt eftirfarandi ályktun: ,,1. Ráðstefnan lýsir yfir eindregnum stuðningi við heilbrigðisráðherra í að breyta tóbaksvarnarlögum til samræmis við anda vinnuverndarlaga og með lögum verði lagt bann við reykingum í öllum fyrirtækjum, stofnunum og á opinberum stöðum, þ.m.t hótelum, veitingahúsum, börum og öðrum skemmtistöðum til þess að tryggja öllum vinnandi mönnum reyklaust vinnurými – alltaf alls staðar. Skorað er á alþingismenn að setja lög í þessum anda hið fyrsta! 2. Ráðstefnan hvetur stjórnvöld til að eyrnamerkja mun meira fé til tóbaksvarna og tóbaksmeðferðar.

Morgunverðarfundur TR um lífeyrismál og stöðu lífeyrisþega framtíðarinnar

Aldraðir – yfirstétt framtíðarinnar er yfirskrift morgunverðarfundar sem Tryggingastofnun ríkisins stendur fyrir og haldinn verður á Grand Hótel í Reykjavík, þriðjudaginn 28. september. Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari flytur erindi samnefnt yfirskrift fundarins um stöðu íslenskra lífeyrisþega í framtíðinni. Ásmundur mun fjalla um tekjur ellilífeyrisþega í framtíðinni, þjóðhagsleg áhrif af uppbyggingu lífeyrissjóða og uppsöfnun séreignarsparnaði. Nánar er sagt frá fundinum á heimasíðu TR og þar er unnt að skrá þátttöku á fundinum.
Nánar...

 

Skynsamlegt að nota handfrjálsan búnað með farsímum

Norræn geislavarnayfirvöld mæla með því að fólk noti handfrjálsan búnað með farsímum þar sem með því móti má draga úr rafsegulsviði nálægt höfði. Er þessum upplýsingum beint bæði til fullorðinna og barna. Í sameiginlegri yfirlýsingu frá geislavörnum allra norðurlandaþjóðanna kemur fram að ekki hafi tekist að sýna fram á heilsutjón vegna farsímanotkunar en möguleg áhrif á heilsuna hafi heldur ekki verið afsönnuð. Sumar rannsóknir hafa bent til einhverra líffræðilegra áhrifa þótt þau séu ekki endilega skaðleg. Nánar er sagt frá þessu á heimasíðu Geislavarna ríkisins.
Nánar...

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum