Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 4/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. mars 2012

í máli nr. 4/2012:

Öryggismiðstöð Íslands hf.

gegn

Reykjanesbæ

Með bréfi, dags. 9. mars 2012, kærði Öryggismiðstöð Íslands hf. útboð Reykjanesbæjar „Vöktun viðvörunarkerfa“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að gerð samnings við Securitas hf., kt. 640388-2699, verði stöðvuð þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir í máli þessu skv. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

2. Að kærunefnd ógildi ákvörðun kærða um að samþykkja tilboð Securitas hf., kt. 640388-2699, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007, og að kaupanda verði gert skylt að auglýsa og bjóða út verkið að nýju að viðlögðum dagsektum, sbr. 4. og 5. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

 

3. Að kaupanda verði gert skylt að greiða kæranda þann kostnað sem kærandi hefur þurft að bera vegna kæru þessarar.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á samningsgerð. Með bréfi, dags. 16. mars 2012, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.

 

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Í febrúar 2012 auglýsti kærði útboð „Vöktun viðvörunarkerfa“. Kafli 1.2 í útboðslýsingu nefndist „Opnun tilboða“ og þar sagði:

Tilboð verða opnuð fimmtudaginn 23. febrúar 2012, kl. 10:00 á skrifstofu Rafmiðstöðvarinnar að Framnesvegi 19, Reykjanesbæ að viðstöddum þeim bjóðendum sem mættir verða á þeim tíma“

 

Opnun tilboða var síðar frestað til fimmtudagsins 1. mars 2012, kl. 10:00. Kærandi skilaði tilboði 4 mínútum of seint. Í fundargerð opnunarfundar er m.a. bókuð eftirfarandi athugasemd:

„Securitas áskilur sér rétt til að skoða það nánar að tilboð Öryggismiðstöðvarinnar barst 4 mínútum of seint.“

 

Hinn 6. mars 2012 upplýsti kærði bjóðendur að tilboð Securitas hf. hefði verið valið í hinu kærða útboði.

                       

II.

Kærandi segist hafa skilað inn gildu tilboði á útboðsfundi fyrir opnun tilboða, tilboð hans hafi verið móttekið og opnað á útboðsfundi eins og fundargerð fundarins beri með sér. Tilboðinu hafi ekki verið vísað frá á fundinum heldur opnað með öðrum tilboðum. Kærandi segir að ef kærði hefði talið að tilboð kæranda hefði borist of seint hefði kærða borið, samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga nr. 84/2007, að vísa tilboðinu frá og afhenda kæranda það óopnað. Þar sem kærði móttók tilboðið og opnaði með öðrum tilboðum telur kærandi að tilboðið hafi orðið skuldbindandi fyrir kærða og lögum samkvæmt hafi borið að líta til þess við ákvörðun um gerð samnings. Kærandi segir að einhliða athugasemd Securitas hf. og umsjónarmanns útboðsins á atvikum fundarins geti engu breytt um þá skyldu kaupanda. Kærandi segist hafa átt lægsta tilboð í verkið og kærða hafi því borið að ganga til samninga við hann.

 

III.

Kærði segir að honum hafi verið heimilt að hafna tilboði kæranda þar sem það hafi komið of seint og þar af leiðandi ekki talist gilt tilboð í skilningi 71. gr. laga nr. 84/2007. Kærði segir að sér hafi ekki orðið mistökin ljós fyrr en eftir að ráðgjafi hans, starfsmaður Rafmiðstöðvarinnar, hafði opnað tilboð kæranda. Kærði segir að sér hafi verið rétt að leiðrétta mistökin þar sem ákvörðun hafði ekki verið birt málsaðilum skv. 1. mgr. 23. gr. og 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.

 

IV.

Tilboðum í hinu kærða útboði bar að skila fyrir kl. 10:00 hinn 1. mars 2012. Ljóst virðist að tilboð kæranda barst 4 mínútum of seint. Kærði opnaði tilboð kæranda á opnunarfundi en fimm dögum síðar ákvað kærði að hafna tilboðinu á þeirri forsendu að það hefði komið of seint.

Í samræmi við jafnræðisreglu útboðsréttar hafa allir bjóðendur sama tíma til að skila inn tilboði og tilboð sem berast eftir að fresti lýkur eru ógild. Kaupendum í opinberum innkaupum er óheimilt að taka við tilboðum sem berast of seint og þeir geta ekki vikið frá þeirri reglu. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal tilboð sem berst of seint sent viðkomandi bjóðanda óopnað ásamt skýringu á ástæðum þess að þau eru endursend. Samkvæmt reglu 3. mgr. 69. gr. bar kærða að hafna tilboði kæranda sem barst of seint, strax á opnunarfundi. Jafnvel þótt svo hafi ekki verið gert og tilboð kæranda hafi verið opnað breytir það ekki þeirri staðreynd að tilboðið barst of seint og kærða var þannig óheimilt að taka við því. Kærða var þannig rétt að hafna tilboði kæranda.

Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála ekki verulegar líkur á því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup, með því að hafna tilboði kæranda. Því telur kærunefnd útboðsmála ekki rétt að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Öryggismiðstöðvar Íslands hf., um að stöðvuð verði samningsgerð kærða, Reykjanesbæjar, við Securitas hf. um „Vöktun viðvörunarkerfa“, er hafnað.

 

                                                Reykjavík, 23. mars 2012.

                                                Páll Sigurðsson

                                                Auður Finnbogadóttir

                                                Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                mars 2012.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum