Hoppa yfir valmynd
24. september 2003 Dómsmálaráðuneytið

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu Sophia Hansen gegn Tyrklandi

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að tyrkneska ríkið hafi brotið gegn rétti Sophiu Hansen sem verndaður er af Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) með því að tryggja henni ekki umgengnisrétt við dætur sínar í Tyrklandi á árabilinu 1992-1998.

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2003
Sophia Hansen gegn Tyrklandi
(aukaaðild íslenska ríkisins skv. 36. gr. MSE)


Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að tyrkneska ríkið hafi brotið gegn rétti Sophiu Hansen sem verndaður er af Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) með því að tryggja henni ekki umgengnisrétt við dætur sínar í Tyrklandi á árabilinu 1992-1998. Í gær gekk dómur í kærumáli Sophiu gegn Tyrklandi fyrir dómstólnum en kæra hennar barst Mannréttindaefnd Evrópu 14. apríl 1997. Kæruefnið var að tyrkneska ríkið hefði brotið á réttindum hennar samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem verndar rétt manna til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, með því að framfylgja ekki rétti hennar til umgengni við dætur sínar í Tyrklandi eftir að föður þeirra var dæmd forsjá barnanna þar í landi. Höfðu tyrkneskir dómstólar fallist á að hún ætti rétt til umgengni við dætur sínar en þeim var rétti var ekki framfylgt þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hennar þess efnis til tyrkneskra stjórnvalda á árabilinu 1992 –1998 þegar faðirinn kom í veg fyrir að hún gæti notið réttarins.

Það varð samhljóða niðurstaða sjö dómara sem sátu í málinu að tyrkneska ríkið hefði með aðgerðaleysi sínu brotið gegn friðhelgi fjölskyldulífs Sophiu samkvæmt 8. gr. Mannréttindasáttmálans. Jafnframt voru henni dæmdar alls 75 þúsund evrur í skaðabætur, þar af 50 þúsund evrur fyrir fjárhagslegt tjón, 15 þúsund evrur í miskabætur og 10 þúsund evrur vegna lögfræðiskostnaðar.

Ríkisstjórn Íslands nýtti sér rétt sinn til að skila athugasemdum til dómstólsins í málinu til stuðnings kröfum Sophiu. Byggir þessi réttur á 1. mgr. 36. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um aðkomu þriðja aðila (Third party intervention). Samkvæmt þessu ákvæði sáttmálans hefur hvert aðildarríki að honum rétt til þess að bera fram skriflegar athugasemdir og taka þátt í munnlegum málflutningi í tilvikum þar sem ríkisborgari þess hefur kært annað aðildarríki til Mannréttindadómstólsins. Ríkisstjórn Íslands skilaði greinargerð til dómstólsins um málið í janúar 2002 þar sem studdar voru kröfur kæranda um viðurkenningu dómstólsins á því að 8. gr. MSE hafi verið brotin


Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, Sophia Hansen gegn Tyrklandi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira