Hoppa yfir valmynd
1. ágúst 2002 Dómsmálaráðuneytið

Stórefld löggæsla um komandi verslunarmannahelgi

Dómsmálaráðherra boðar margvíslegar aðgerðir til þess að auka öryggi þeirra er leggja upp í ferðalag um verslunarmannahelgina, mestu ferðahelgi ársins.

Stórefld löggæsla um komandi verslunarmannahelgi

Fréttatilkynning
Nr. 18/ 2002



Dómsmálaráðherra boðar margvíslegar aðgerðir til þess að auka öryggi þeirra er leggja upp í ferðalag um verslunarmannahelgina, mestu ferðahelgi ársins.

Umferðarlöggæsla
Um verslunarmannahelgina verður stóraukið eftirlit á þjóðvegum landsins og sérstök áhersla lögð á notkun öryggisbelta og að koma í veg fyrir hraðakstur og ölvunarakstur.
Ríkislögreglustjóri verður með mikinn viðbúnað vegna umferðareftirlits á vegum af hálfu umferðardeildar embættisins. Við eftirlitið verða notaðar merktar sem ómerktar lögreglubifreiðar, m.a. útbúnar hraðamyndavélum. Jafnframt verður öndunarsýnabifreið á ferð víða um landið og úr henni stjórnað eftirliti með ölvunarakstri. Frá embætti ríkislögreglustjórans verða sendar lögreglubifreiðar til eftirlits á þjóðvegum landsins, í samráði og samvinnu við lögregluumdæmin. Einnig verða eftirlitsbílar með lögreglumönnum frá Vegagerðinni á ferðinni þessa daga sem og lögreglubifreiðar frá öðrum embættum. Sá mannafli og tækjakostur sem sendur er frá embætti ríkislögreglustjórans er viðbót við þá löggæslu sem var fyrir hjá embættunum. Þar fyrir utan verður aukið verulega eftirlit af hálfu hinna ýmsu lögregluliða, vegna aukins samstarfs þeirra milli umdæma. Hafa lögregluumdæmi mörg hver gert markvissar áætlanir um sameiginlegt umferðareftirlit.
Embætti ríkislögreglustjórans hefur komið upp nákvæmu skipulagi um viðbúnað þar sem búast má við að umferð verði mest. Má reikna með að skipulagið kunni að taka breytingum, sem miðar af því að vera með sem öflugasta löggæslu eftir því hvar umferðarþunginn á vegum verður mestur.
Þá mun lögreglan í Reykjavík einnig efla verulega umferðareftirlit embættisins. Áhersla verður lögð á að tryggja greiða og örugga umferð til og frá umdæminu. Verða bifhjól einkum notuð við eftirlit þetta og sérstakt samstarf haft við lögregluna í Borgarnesi og Selfossi.
Með ofangreindu fyrirkomulagi er stórefld löggæsla á þjóðvegum landsins um komandi verslunarmannahelgi.

Reglulegar upplýsingar
Umferðarráð starfrækir að venju upplýsingamiðstöð umferðamála um verslunarmannahelgina. Hún mun veita á öllum útvarpsstöðvum upplýsingar um umferð, ástand vega og annað sem tilefni er til. Má búast við að útsendingar Umferðarráðs skipti mörgum tugum um helgina. Þá er einnig tekið við ábendingum og upplýsingum frá vegfarendum um það sem betur megi fara í umferðinni.

Fíkniefnalöggæsla
Sérstök áhersla verður einnig lögð á fíkniefnaeftirlit lögreglu á helstu útihátíðum um verslunarmannahelgina. Lögreglan hefur undirbúið stóraukna fíkniefnalöggæslu og hafa lögreglustjórar víða um land gert sérstakar ráðstafanir auk þess sem ríkislögreglustjóri hefur leitarhunda tiltæka til aðstoðar þar sem þörfin verður mest á landinu. Munu sérstök teymi lögreglumann með fíkniefnaleitarhunda fylgjast með fólksstraumnum frá Reykjavík sem ferðast með rútum og flugvélum til áfangastaða þar sem útisamkomur verða. Með sama hætti verður fylgst með ferðum fólks um boð í Herjólf í Þorlákshöfn og frá Bakkaflugvelli til Vestmannaeyja, í samvinnu við og undir stjórn lögreglustjórana á Selfossi og á Hvolsvelli. Farið verður í sérstakar eftirlitsferðir í lögsagnarumdæmin þar sem útihátíðir eru haldnar. Löggæsla eins og lýst er hér að framan, er viðbót við aðra löggæslu og styrkir lögregluliðin á landsbyggðinni og því er um verulega aukið fíkniefnaeftirlit að ræða. Hún hefst í dag 1. ágúst og verður alla helgina undir stjórn og í samvinnu hlutaðeigandi lögreglustjóra.

Aðgerðir varðandi gæslu eigna
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun um verslunarmannahelgina fjölga ómerktum bifreiðum við eftirlit með mannaferðum í íbúðarhverfum og öðrum svæðum í borginni og viðhafa sérstakan viðbúnað til að fyrirbyggja innbrot og skemmdir á eigum íbúa. Lykillinn að velgengni á þessu sviði er að borgarar vinni með lögreglunni og tilkynni henni um grunsamlegar mannaferðir.


Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
1. ágúst 2002.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum