Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2004 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 16/2003

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 16/2003

 

A

gegn

Fræðslumiðstöð Reykjavíkur

 

-----------------------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 29. apríl 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

  

I

Inngangur

Með kæru, dags. 16. desember 2003, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu skólastjóra „ráðgjafarskóla Reykjavíkur“ (nú Brúarskóli) í lok júnímánaðar 2003, brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Kæran var kynnt Fræðslumiðstöð Reykjavíkur með bréfi, dags. 8. janúar 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað eftir afriti af auglýsingu um starfið, upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, upplýsingum um hvaða kröfur voru gerðar til umsækjenda varðandi menntun, starfsreynslu og sérstaka hæfileika, afriti af umsóknargögnum þess sem skipaður var í stöðuna, upplýsingum um það á hvaða þætti lögð hafi verið áhersla við hæfnismat umsækjenda og hvað hafi ráðið vali þess sem ráðinn var í starfið, hæfnisröð umsækjenda hafi þeim verið raðað og fjölda og kyn skólastjóra hjá Reykjavíkurborg. Þá var óskað eftir afstöðu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur til erindis kæranda og upplýsingum um hvað annað sem Fræðslumiðstöðin vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið.

Svar barst með bréfi B, forstöðumanns fjármálasviðs Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og staðgengils fræðslustjóra, dags. 18. febrúar 2004. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2004, var kæranda kynnt umsögn Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og honum gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Kærunefnd jafnréttismála barst bréf kæranda, dags. 9. mars 2004, með frekari athugasemdum. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur var með bréfi, dags. 1. mars 2004, gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri og bárust þær með bréfi, dags. 25. mars 2004. Kæranda var sent afrit bréfsins með bréfi kærunefndarinnar, dags. 16. apríl 2004.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála og var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  

II

Málavextir

Staða skólastjóra sérskóla fyrir nemendur í geðrænum og félagslegum vanda, sem nú nefnist Brúarskóli, var auglýst laus til umsóknar í Morgunblaðinu með umsóknarfresti til 22. júní 2003. Fram kom í auglýsingunni að skólinn tæki við hlutverki Einholtsskóla og Hlíðarhúsaskóla 1. ágúst 2003 og sinni að hluta til þjónustu við nemendur af öllu landinu. Hlutverk skólans verði að mæta þörfum nemenda með geðrænan og félagslegan vanda sem geta ekki nýtt sér skólavist í almennum skólum. Skólinn muni rækja hlutverk sitt bæði með námstilboðum fyrir nemendur og ráðgjöf til kennara og annars starfsfólks annarra skóla. Skólinn muni skiptast í fjórar deildir: a) deild fyrir nemendur með félagslegan og hegðunarlegan vanda, b) deild fyrir nemendur með geðraskanir, c) deild fyrir nemendur í fíknivanda sem bíða meðferðar og/eða vistunar og d) ráðgjafardeild þar sem starfa sérfræðingar sem veita ráðgjöf og þjónustu á þessum sviðum bæði innan skólans og til annarra grunnskóla. Í auglýsingunni kom einnig fram að meginhlutverk skólastjóra sé að stýra og bera ábyrgð á daglegri starfsemi og rekstri skólans og að veita honum faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi. Varðandi menntunar- og hæfniskröfur umsækjenda kom fram að gerð væri krafa um stjórnunarhæfileika og reynslu af stjórnun, kennaramenntun og sérfræðiþekkingu á sviðum skólans og reynslu af kennslu og vinnu með börnum og unglingum og að viðkomandi væri lipur í mannlegum samskiptum.

Umsækjendur um stöðuna voru fjórir, þrír karlar og ein kona. Fræðsluráð Reykjavíkur ræður skólastjóra grunnskóla að fenginni umsögn fræðslustjóra. D fræðslustjóri ræddi við alla fjóra umsækjendur og í umsögn hennar, dags. 27. júní 2003, var lagt til að konan í hópnum yrði ráðin skólastjóri. Tillagan var samþykkt á fundi fræðsluráðs 30. júní 2003 og var kæranda kynnt sú ákvörðun með bréfi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, dagsettu sama dag. Kærandi óskaði eftir skriflegum rökstuðningi fræðslustjóra fyrir ráðningu í skólastjórastöðuna með bréfi, dags. 7. ágúst 2003. Honum var svarað með bréfi fræðslustjóra, dags. 12. ágúst 2003, en því bréfi fylgdi fyrrgreint bréf fræðslustjóra til fræðsluráðs.

Í kjölfar þessa leitaði kærandi til jafnréttisráðgjafa Reykjavíkur með bréfi, dags. 18. ágúst 2003, og fór þess á leit að hann kannaði hvort fræðslustjóri og fræðsluráð Reykjavíkur hefðu brotið jafnréttislög og/eða stjórnsýslulög við ráðningu í umrædda stöðu skólastjóra. Svar jafnréttisráðgjafa Reykjavíkur til kæranda er dagsett 28. nóvember 2003 og þar kemur fram það álit jafnréttisráðgjafans að ráðningin hafi verið í samræmi við jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar.

Kærandi undi ekki þessari niðurstöðu og kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála.

 

III

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu í starf skólastjóra Brúarskóla. Kærandi hafi lagt fram allnákvæma umsókn og ferilskrá vegna umsóknar sinnar um starfið en ljóst sé að fræðslustjóri, í umsögn hans um umsækjendur sem lögð var fyrir fræðsluráð, hafi látið hjá líða að gera fræðsluráði ítarlega grein fyrir menntun kæranda og starfsreynslu, og ekki getið, eða aðeins að litlu, atriða sem kærandi telji að verulegu máli skipti við mat á hæfni umsækjenda. Telur kærandi sig hafa meiri menntun en sú sem ráðin var og hafi auk þess mun víðtækari starfsreynslu og lengri reynslu af störfum með þeim sérþarfahópi sem skólinn eigi að sinna.

Í ferilskrá kæranda kemur meðal annars fram að hann lauk almennu kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1969, BA-prófi í norsku frá Háskóla Íslands árið 1992 með leiklistarfræði sem aukagrein, cand. philol.-prófi í leiklistarfræðum frá háskólanum í Ósló árið 1995 og doktorsprófi í leiklistarfræðum frá University of East Anglia árið 2003. Það sama ár lauk hann námi til diplomu í psychodrama frá The Northern School of Psychodrama. Í ferilskránni kemur einnig fram að kærandi hefur sótt mörg námskeið á árunum 1969 til 2003 sem einkum varða leiklist, tungumálanám og vinnu með fötluðum börnum.

Starfsreynsla kæranda er sem hér segir:

1970–72 Grunnskólar Reykjavíkur, Breiðholtsskóli Almenn kennsla
1976–78  Dagvist barna, Reykjavík  
  Skóladagheimilið Auðarstræti 3  Forstöðumaður 
1978–79  Grunnskólinn Bíldudal Skólastjóri 
1979–84  Þjálfunarskóli ríkisins, Kópavogi  Sérkennsla
1985–89  Hvammshlíðarskóli, Akureyri  Skólastjóri
1989–93  Grunnskólar Reykjavíkur, Bústaðaskóli  Sérkennsla
2002–03  Grunnskólar Reykjavíkur, Hlíðarhúsaskóli Sérkennsla

 

Í ferilskrá kæranda er ítarlega rakið að hann hefur einnig stundað ýmis önnur störf tengd kennslu og uppeldi, svo sem kennslu á námskeiðum, stundakennslu og flutt fyrirlestra. Þá hefur kærandi einnig starfað við leiklist og aðrar sviðslistir, hann hefur starfað við fjölmiðla og lagt stund á þýðingar og einnig stundað ritstörf, bæði á fræðilegum grunni og annars konar.

Kærandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við ráðningu í starfið bæði þegar litið sé til starfsreynslu og menntunar. Telur hann að í umsögn sinni um mat á hæfi umsækjenda hafi fræðslustjóri látið hjá líða að geta um og taka afstöðu til mikilvægra atriða varðandi þessi atriði. Þessi háttsemi hafi síðan leitt til þess að ráðinn hafi verið einstaklingur sem sé síður hæfur til að gegna starfinu. Raunar telur kærandi enn annan umsækjanda hafa meiri menntun en þann sem ráðinn var. Er á því byggt af hálfu kæranda að hann telji að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, eigi að taka jafnt til karla og kvenna og eigi að vega þyngra en jafnréttisstefna Reykjavíkurborgar í þessu máli.

 

IV

Sjónarmið Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur

Fram kemur af hálfu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur að fræðsluráð ráði skólastjóra að fenginni umsögn fræðslustjóra. Fræðslustjóri hafi farið yfir umsóknir og átt viðtöl við umsækjendur ásamt E, starfsmannastjóra á Fræðslumiðstöð, og F, fyrrverandi skólastjóra í Reykjavík. Fræðslustjóri hafi í kjölfarið veitt umsögn sína varðandi ráðningu í starfið þann 27. júní 2003. Af hálfu Fræðslumiðstöðvarinnar er á því byggt að kvörtun kæranda lúti í meginatriðum að athugasemdum við álit fræðslustjóra á hæfni umsækjenda en ekki að beinni eða óbeinni mismunun umsækjanda á grundvelli kynferðis. Því verði ekki séð að erindi kæranda falli undir lögbundið hlutverk kærunefndar jafnréttismála skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000 og eigi því af þeim sökum að vísa máli þessu frá kærunefndinni.

Efnislega er á því byggt af hálfu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur að við mat á umsóknum og niðurstöðum viðtala hafi verið stuðst við viðmið sem beita eigi við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður sem unnið hafi verið af valnefnd á vegum fræðsluráðs Reykjavíkur sumarið 1996. Við þá vinnu hafi verið tekið tillit til 2. mgr. 7. gr. laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998. Í viðmiðunum kemur fram að umsækjendur um skólastjórastöður skuli uppfylla eftirtalin skilyrði:

„a) Menntun: kennaramenntun og viðbótarmenntun æskileg.

b) Símenntun: stutt námskeið og/eða nám meðfram starfi.

c) Kennslureynsla úr grunnskóla í a.m.k. 5–7 ár.

d) Stjórnunarreynsla m.a. af skólastjórn, aðstoðarskólastjórn, árgangs- og/eða fagstjórn, umsjón með sérkennslu eða umsjón með félagslífi.

e) Faglegt frumkvæði m.a. í námsefnisgerð og þróunar- og nýbreytnistarfi (m.a. með styrk úr þróunarsjóðum), af þátttöku í skólanámsskrárgerð eða við ritstörf á sviði skólamála.

f) Hæfni í mannlegum samskiptum; lipurð, samstarfshæfni, úrræðasemi við lausn ágreinings og úthald undir álagi.“

 

Staðan hafi verið auglýst laus til umsóknar með umsóknarfresti til 22. júní 2003, en skólinn sé sérskóli fyrir nemendur í geðrænum og félagslegum vanda. Hlutverki skólans hafi verið lýst nánar í auglýsingunni. Við mat á umsækjendum um skólastjórastöðuna hafi verið stuðst við auglýsinguna, sem og fyrrgreind viðmið fræðsluráðs Reykjavíkur frá 1996. Viðmiðin endurspeglist raunar í starfsauglýsingunni en fræðslustjóri hafi stuðst við hvoru tveggja við gerð umsagnar sinnar til fræðsluráðs Reykjavíkur, dags. 27. júní 2003.

Í auglýsingu um starfið hafi verið greint frá því að leitað væri eftir umsækjanda með stjórnunarhæfileika og reynslu af stjórnun. Álit fræðslustjóra hafi tekið mið af þessu, sbr. d-lið viðmiða um stjórnunarreynslu og e-lið um faglegt frumkvæði. Þar sé meðal annars átt við stjórnunarreynslu af skólastjórn, aðstoðarskólastjórn, árganga og/eða fagstjórn, umsjón með sérkennslu eða umsjón með félagslífi. Jafnframt hafi verið leitað eftir umsækjanda með kennaramenntun og sérfræðiþekkingu á sviðum skólans og hafi álit fræðslustjóra tekið mið af þessum viðmiðum, sbr. a- og b-lið viðmiða um menntun og símenntun. Kennaramenntun hafi verið skilyrði og viðbótarmenntun hafi verið æskileg. Einnig hafi verið fjallað um símenntun og þar átt við stutt námskeið og/eða nám með starfi. Leitað hafi verið eftir umsækjanda sem hefði reynslu af kennslu og vinnu með börnum og unglingum og hafi álit fræðslustjóra tekið mið af þessu viðmiði, sbr. c-lið viðmiða um kennslureynslu úr grunnskóla í að minnsta kosti fimm til sjö ár. Í auglýsingunni hafi loks verið leitað eftir umsækjanda sem væri lipur í mannlegum samskiptum og hafi álit fræðslustjóra einnig tekið mið af þessu, sbr. f-lið viðmiða um hæfni í mannlegum samskiptum, það er lipurð, samstarfshæfni, úrræðasemi við lausn ágreinings og úthald undir álagi.

Í niðurstöðu álits fræðslustjóra til fræðsluráðs Reykjavíkur, dags. 27. júní 2003, kemur fram að sú kona sem lagt var til að yrði ráðin uppfyllti allar kröfur sem gerðar væru í auglýsingu og viðmiðum um menntun og reynslu. Hún hafi lokið framhaldsmenntun á sviði sérkennslu og hafi reynslu af skólastjórnun í tveimur sérskólum. Hún hafi kennslureynslu úr sérskólum og hafi auk þess unnið í félagsstarfi með unglingum í félagslegum og geðrænum vanda og að fullorðinsfræðslu fatlaðra. Hún hafi því unnið með þeim þremur nemendahópum sem skólinn muni sinna. Hún hafi sýnt margvíslegt faglegt frumkvæði á ferli sínum, til dæmis hvað varði ráðgjöf frá sérskóla til almennra skóla, foreldrastarf og námskrárgerð. Hún hafi verið farsæl í starfi sínu sem skólastjóri Einholtsskóla veturinn 2002–2003.

Af hálfu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur er því haldið fram að fræðslustjóri byggi niðurstöðu sína á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum sem komi fram í starfsauglýsingunni. Allir umsækjendur hafi sætt jafnræði við málsmeðferðina. Þriggja manna nefnd hafi tekið viðtöl við alla umsækjendur og gert skriflega samantekt á grundvelli umsókna og viðtala og verið á einu máli um niðurstöðuna. Lögð er áhersla á það af hálfu Fræðslumiðstöðvarinnar að hlutfall karla og kvenna í skólastjórastöðum og jafnréttisstefna Reykjavíkurborgar hafi ekki verið lögð til grundvallar niðurstöðunni. Sá umsækjandi sem ráðinn var til starfans hafi verið talinn hæfastur að áliti fræðslustjóra óháð kynferði umsækjenda og það hafi ráðið úrslitum við afgreiðslu fræðsluráðs. 

   

V

Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna og eru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða við framangreindar aðstæður hefur verið litið til þeirra kosta sem umsækjendur hafa og er þá einkum litið til menntunar umsækjenda og starfsreynslu, svo og annarra sérstakra kosta eftir því sem við á í hverju tilviki. Líta verður svo á að við mat á hæfni umsækjenda til þess að hljóta ráðningu í starf hjá opinberum aðila skuli sá sem stöðuna veitir leggja til grundvallar lögbundin starfsgengisskilyrði, sé þeim til að dreifa. Við það mat ber að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða meðal annars í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

Af hálfu kæranda er þess farið á leit að kærunefnd jafnréttismála kanni og taki afstöðu til þess hvort Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafi brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með ráðningu skólastjóra við sérskóla í Reykjavík fyrir nemendur í geðrænum og félagslegum vanda. Þar sem ósk kæranda fellur beinlínis að lögbundu hlutverki kærunefndar jafnréttismála, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2000, eru engin efni til að fallast á kröfu Fræðslumiðstöðvarinnar um að vísa máli þessu frá nefndinni.

 

Við ráðningu skólastjóra grunnskóla fer samkvæmt lögum um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, nr. 86/1998, grunnskólalögum, nr. 66/1995, og lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 86/1998 og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 66/1995 ræður sveitarstjórn og skipar kennara, aðstoðarskólastjóra og skólastjóra grunnskóla. Í viðauka 1.2 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 638/2001, er fræðsluráði Reykjavíkur falið að ráða skólastjóra grunnskóla. Samkvæmt 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 66/1995, skal við mat á umsækjendum um stöðu skólastjóra taka mið af menntun þeirra og starfsreynslu og skv. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 86/1998 skal taka tillit til menntunar, kennsluferils, stjórnunarreynslu og umsagna um starfshæfni umsækjenda.

Í máli þessu er, að beiðni kæranda, til athugunar hvort fræðsluráð Reykjavíkur hafi með því að ganga fram hjá umsókn hans um stöðu skólastjóra við sérskóla í Reykjavík fyrir nemendur í geðrænum og félagslegum vanda brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Umsækjendur um stöðuna voru fjórir, ein kona og þrír karlar. Við atkvæðagreiðslu í fræðsluráði Reykjavíkur fékk konan öll greidd atkvæði og var ráðin í starfið. Upplýst er í málinu að af 38 fastráðnum skólastjórum í skólum Reykjavíkurborgar eru 16 konur en 22 karlar.

Í auglýsingu um starfið kemur fram að skólinn taki við hlutverki Einholtsskóla og Hlíðarhúsaskóla og verði að hluta til með þjónustu við nemendur af öllu landinu. Hlutverk skólans er að mæta þörfum nemenda sem eiga í geðrænum og félagslegum vanda og geta ekki nýtt sér skólavist í almennum skólum. Varðandi hæfniskröfur er tilgreint í auglýsingunni að leitað sé að umsækjanda sem hafi stjórnunarhæfileika og reynslu af stjórnun, hafi kennaramenntun og sérfræðiþekkingu á sviðum skólans, reynslu af kennslu og vinnu með börn og unglinga og sé lipur í mannlegum samskiptum.

Fyrir kærunefnd jafnréttismála hafa verið lögð gögn varðandi kæranda og þá sem ráðin var í starfið. Ekki eru efni til þess að bera saman starfshæfni annarra en kæranda og þeirrar sem ráðin var eða leggja mat á annað en þau sjónarmið sem koma fram um hæfni þessara umsækjenda við ráðninguna en þau sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur byggir á. Samanburður á starfshæfni kæranda og þeirrar sem ráðin var er óhjákvæmilegur svo leysa megi úr því álitaefni hvort brotið hafi verið gegn 24. gr. laga nr. 96/2000.

Kærandi hefur lokið kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands. Sú sem ráðin var hefur lokið kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands og hefur einnig lokið 60 eininga framhaldsnámi í sérkennslu frá sama skóla. Kærandi hefur auk kennaraprófs BA-próf í norsku og leiklist frá Háskóla Íslands, cand. philol.-próf í leiklistarfræðum frá háskólanum í Ósló, fyrri hlutapróf í psychodrama frá Norsk Psykodrama Institutt, advanced diploma í psychodrama frá Northern School of Psychodrama í Bretlandi og Ph.D. í leiklistarfræðum frá háskólanum í Norwich í Bretlandi. Bæði hafa lokið starfsleikninámi á vegum Kennaraháskóla Íslands og sótt ýmis námskeið, meðal annars um sérkennslu, auk þess sem kærandi hefur sótt fjölda námskeiða á sviði leiklistar.

Kærandi á að baki 17 ára starfsreynslu bæði við almenna kennslu og sérkennslu. Auk þess hefur hann verið stundakennari við Þroskaþjálfaskóla Íslands og háskólann í Austur-Anglíu. Sú sem ráðin var hefur 20 ára starfsreynslu við Safamýrarskóla, sem er sérskóli fyrir mikið fatlaða nemendur, og eins árs kennslureynslu við Einholtsskóla, sem er sérskóli fyrir unglinga með félags-, hegðunar- og tilfinningalega erfiðleika. Kærandi býr að nokkurri stjórnunarreynslu. Hann var skólastjóri Hvammshlíðarskóla í fjögur ár, Grunnskólans á Bíldudal í eitt ár og forstöðumaður skóladagheimilis í Reykjavík í tvö ár. Þá var hann leikhússtjóri á Akureyri í tvö ár, auk þess sem hann hefur unnið við leikstjórn. Sú sem ráðin var í umrædda stöðu var skólastjóri Safamýrarskóla í eitt ár og skólastjóri Einholtsskóla í eitt ár. Hún var aðstoðarskólastjóri við Safamýrarskóla í 14 ár og rak leikskóla í hálft ár.

Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að bæði kærandi og sú sem ráðin var í starfið fullnægja skilyrðum laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996, og teljast því hæf til að gegna umræddri stöðu. Bæði hafa aflað sér framhaldsmenntunar, kærandi á sviði leiklistar, en sú sem ráðin var á sviði sérkennslu.

Kennslureynsla þeirrar sem ráðin var er nokkuð lengri en kæranda auk þess sem kennslureynsla hennar er eingöngu innan sérskóla. Bæði hafa þau gegnt stöðu skólastjóra, kærandi í fimm ár í almennum grunnskólum, en sú sem ráðin var í tvö ár sem skólastjóri sérskóla og 14 ár sem aðstoðarskólastjóri sérskóla. Stjórnunarreynsla þeirrar sem ráðin var er því nokkuð lengri og öll innan sérskóla. Auk þess hafa bæði stjórnunarreynslu utan skólakerfisins, kærandi sem leikhússtjóri og forstöðumaður skóladagheimilis og sú sem ráðin var sem leikskólastjóri. Þá hefur sú sem ráðin var unnið í Hinu húsinu um fjögurra ára skeið með unglingum sem hafa verið félagslega illa settir.

Af því sem rakið hefur verið er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærandi og sú sem ráðin var séu að minnsta kosti jafnhæf þegar litið er til almennra hæfnisskilyrða. Við mat á hæfni þeirra þykir hins vegar vega þyngra framhaldsmenntun konunnar á sviði sérkennslu og löng starfs- og stjórnunarreynsla hennar á sviði sérskóla. Telja verður því að hún hafi meiri sérfræðiþekkingu á sviðum skóla eins og hér um ræðir eins og gerð var krafa um í auglýsingu um starfið. Þykir auglýsing þessi hafa verið eðlilega úr garði gerð, enda fól hún ekki í sér ólögmæt hæfisskilyrði. Verður ekki talið að við veitingu starfsins hafi verið byggt á öðrum atriðum en ráða mátti af auglýsingunni.

Með vísan til þess sem að framan greinir, þar með talið upplýsinga um kynjahlutfall skólastjóra í Reykjavíkurborg, þykir fræðsluráð Reykjavíkur hafa lagt eðlileg og málefnaleg sjónarmið til grundvallar og er því ekki talið hafa mismunað kæranda eftir kynferði. Það er álit kærunefndar jafnréttismála að við ráðningu í stöðu skólastjóra fyrir nemendur í geðrænum og félagslegum vanda, hafi fræðsluráð Reykjavíkur ekki brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

  

 

Ragnheiður Thorlacius

Björn L. Bergsson

Ása Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum