Hoppa yfir valmynd
11. desember 2023 Dómsmálaráðuneytið

Íslendingar fá þjálfun í greiningu og meðferð mansalsmála

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE) ásamt Eystrasaltsráðinu (CBSS) stóð fyrir hermiþjálfun í mansalsmálum í byrjun nóvember og tóku fimm ríki þátt; Ísland, Svíþjóð, Þýskaland, Litháen og Finnland. Á þessari verklegu æfingu var lögð áhersla á að efla getu þátttakenda til þess að bera kennsl á mansal, aðstoða þolendur og saksækja gerendur. Þátttakendur fengu þjálfun í verklagi til að takast á við algengustu tegundir mansals á þessu svæði, þar á meðal vinnumansali, þvingaðri þátttöku í glæpastarfsemi og mansali barna.

Tíu manna teymi fór frá Íslandi til að taka þátt í þjálfuninni. Þeir sem sóttu þjálfunina voru frá lögreglu og ákæruvaldi, Útlendingastofnun, Bjarkarhlíð, félagsþjónustu og vinnueftirliti verkalýðshreyfingarinnar, auk sjálfstætt starfandi lögmanns sem tók þátt í þjálfuninni sem tók um viku. Leikarar brugðu sér í hlutverk þolenda mansals og léku ákveðin tilvik eftir handriti á hverjum degi. Nemendum á námskeiðinu var skipt í teymi eftir fagstéttum þvert á lönd og þurftu að nýta og deila sinni þekkingu og reynslu og læra hvert af öðru.

Að lokinni hermiþjálfun var hópurinn boðaður í dómsmálaráðuneytið og gerði þar grein fyrir því hvernig þjálfunin gekk. Var það einróma álit þátttakenda að þjálfunin hafi verið vel heppnuð.
Þátttakendur hefðu öðlast mikla og hagnýta reynslu og tengslin á milli þeirra verið styrkt, sem hafi komið sér að góðum notum strax við komuna aftur til landsins. Eins og áður sagði fóru tíu manns frá Íslandi á æfinguna en þar að auki var Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðstoðarsaksóknari hjá lögreglunni á Suðurnesjum einn af skipuleggjendum æfingarinnar og aðstoðarframkvæmdastjóri hennar.

Sjá frétt ÖSE um mansalshermiþjálfun

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum