Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2020

Þriðjudaginn 21. apríl 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Kristinn Tómasson læknir og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. janúar 2020, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. desember 2019, um synjun á umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með læknisvottorði, dags. 20. nóvember 2019, sótti kærandi um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu barns. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. desember 2019, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að veikindi hennar væru ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. janúar 2020. Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 24. janúar 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að henni hafi verið hafnað um lengingu fæðingarorlofs, þrátt fyrir alvarleg veikindi fyrstu þrjá mánuðina eftir fæðingu sem hafi gert það að verkum að hún hafi ekki getað sinnt barninu. Þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi verið undirliggjandi hafi hann aldrei komið fram áður en það sé þekkt staðreynd að líkamlegt álag eins og fæðing geti virkjað MS sjúkdóminn. Eftir fæðingu hafi kærandi fengið heiftarlegt MS kast og lamast í vinstri hlið. Í kjölfarið hafi hún fengið greiningu. Vegna þessa hafi faðir barnsins þurft að taka sitt orlof fyrstu mánuðina í lífi barnsins en það hafi haft mikil áhrif þar sem hann hafi ætlað að taka það eftir orlof móður. Í staðinn þurfi móðir að vera lengur frá vinnumarkaði sem hafi alvarleg áhrif á tekjur fjölskyldunnar. Þess vegna fari kærandi fram á tveggja mánaða aukagreiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem sé að finna heimildarákvæði til að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Samkvæmt 5. mgr. sömu greinar skuli rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu.

Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingarinnar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Í athugasemdum við 6. gr. laga nr. 136/2011, sem breytt hafi 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000, komi síðan fram að lagt sé til að í 3. mgr. 17. gr. laganna verði skýrt kveðið á um að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Þá hafi forveri úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, ítrekað staðfest í úrskurðum sínum að til þess að veikindi veiti heimild til framlengingar fæðingarorlofs þurfi þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett séu fram í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 og löggjafinn hafi kosið að takmarka heimildir til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda við þau veikindi ein sem rekja megi til fæðingarinnar, sbr. til dæmis úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 18/2014.

Tvö læknisvottorð hafi borist í málinu, dags. 15. júlí og 20. nóvember 2019, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs. Í læknisvottorði B taugalæknis, dags. 15. júlí 2019, sem hafi ekki borist Fæðingarorlofssjóði fyrr en 15. nóvember 2019, kemur einungis fram að viðkomandi hafi ekki getað séð um nýfætt barn sitt í tvo mánuði frá X til X 2019 vegna taugasjúkdóms. Í framhaldinu hafi kæranda verið sent bréf, dags. 18. nóvember 2019, þar sem henni hafi verið leiðbeint um að senda nýtt læknisvottorð á réttu formi með þeim upplýsingum sem þar séu tilgreindar svo að unnt væri að ákvarða um rétt til framlengingar fæðingarorlofs. Í kjölfarið hafi borist nýtt læknisvottorð frá B taugalækni, dags. 20. nóvember 2019, þar sem sjúkdómsgreining móður sé tilgreind sem Multiple sclerosis G35. Þá segi í reit vegna sjúkdóms móður á meðgöngu: „Engin einkenni þá“. Í reit vegna sjúkdóms móður eftir fæðingu segi: „Tveimur vikum eftir fæðingu fær sjúklingur slæmt mænubólgukast með miklum verkjum, skyntruflun og máttminnkun í vinstri hlið. Greinist svo með mjög virkan MS sjúkdóm 4 vikum eftir fæðingu. Í niðurstöðu skoðunar sé skráð: „Skyntruflun og máttminnkun í vinstri hlið auk verkja. MR sýndi útbreiddar skellur bæði í höfði en þó sérstaklega mænu“. Þá komi fram í læknisvottorðinu að sjúklingur hafi verið skoðaður og staðreynt að um greindan sjúkdóm væri að ræða X 2019, eða tæpum mánuði eftir fæðingu barns X 2019 en sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart X 2019. Með bréfi til kæranda, dags. 2. desember 2019, hafi henni verið synjað um framlengingu fæðingarorlofs þar sem af læknisvottorðum væri ráðið að veikindi hennar væru ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar.

Í umsögn C sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. janúar 2020, sem hafi komið að mati á læknisvottorðunum segi meðal annars: „Ég sem sérfræðilæknir Fæðingarorlofssjóðs fór yfir þessi vottorð og mat það svo að ólíklegt væri að MS sjúkdómur sem gerir fyrst vart við sig 2 vikum eftir fæðingu tengist fæðingunni sjálfri. Í læknisvottorðum B eru ekki færð nein rök fyrir slíku eða bent á að það séu tengsl milli fæðingar og MS sjúkdóms“. Þá segi jafnframt í umsögn C:

„Ljóst er að MS er alvarlegur sjúkdómur og skv. vottorðum hefur […] ekki getað séð um barn sitt þennan tilgreinda tíma. Skv. minni kunnáttu er þekkt að algengara sé að MS köstum fækki heldur á meðgöngunni sjálfri, en aukist aftur á fyrstu mánuðum eftir fæðingu. Ýmislegt getur sett af stað MS kast, eins og álag, verkir, veikindi, þreyta og fleira sem mætti í raun heimfæra á allt ferlið, meðgöngu, fæðingu og ástand eftir fæðingu, eins og álag við að sjá um lítið barn, ef því er að skipta, en ég met það svo að ólíklegt væri að MS kast sem kemur 2 vikum eftir fæðingu megi rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar og falli þar með ekki undir reglur sjóðsins hvað slíka lengingu varðar“.

Þannig liggi fyrir samkvæmt læknisvottorði B, dags. 20. nóvember 2019, að kærandi hafi fengið slæmt mænubólgukast með miklum verkjum, skyntruflunum og máttminnkun í vinstri hlið tveimur vikum eftir fæðingu barns og svo verið greind með mjög virkan MS sjúkdóm 4 vikum síðar. Í læknisvottorðinu komi hins vegar ekkert fram um það að veikindi kæranda megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar og það sama gildi líka um fyrra vottorð B. Samkvæmt umsögn C sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs telji hann ólíklegt að MS sjúkdómur sem geri fyrst vart við sig tveimur vikum eftir fæðingu barns tengist fæðingunni sjálfri. Þannig verði hvorki séð af þeim tveimur læknisvottorðum sem hafi borist frá B né umsögn C að veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar. Að mati Fæðingarorlofssjóðs uppfylli kærandi því ekki skilyrði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu.

Með vísan til alls framangreinds telji Vinnumálastofnun - Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 2. desember 2019.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda hafi hún í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með 17. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Þá kemur einnig fram að styðja skuli þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi samkvæmt ákvæði 17. gr. með vottorði læknis en það sé lagt í hendur tryggingayfirlæknis að meta hvort lenging fæðingarorlofs verði talin nauðsynleg. Enn fremur segir að önnur veikindi foreldra eða barna lengi ekki fæðingarorlof. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 var ákvæði 17. gr. laga nr. 95/2000 breytt og kveðið á með skýrari hætti að skilyrði þess að heimilt sé að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu sé að hún hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum við ákvæðið segir að ekki sé um að ræða breytingu á framkvæmd þar sem efnislega samhljóða ákvæði hafi verið að finna í reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Barn kæranda fæddist X 2019. Í læknisvottorði B, dags. 15. júlí 2019, kemur fram að kærandi hafi ekki getað séð um nýfætt barn sitt á tímabilinu X til X 2019 vegna taugasjúkdóms. Í öðru vottorði sama læknis, dags. 20. nóvember 2019, kemur fram að tveimur vikum eftir fæðingu hafi kærandi fengið slæmt mænubólgukast með miklum verkjum, skyntruflunum og máttminnkun í vinstri hlið. Kærandi hafi verið greind með MS sjúkdóm fjórum vikum eftir fæðingu barnsins. Í umsögn C sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. janúar 2020, kemur fram að hann hafi farið yfir framangreind vottorð og metið það svo að ólíklegt væri að MS sjúkdómur sem geri fyrst vart við sig tveimur vikum eftir fæðingu tengist fæðingunni sjálfri. Í læknisvottorðunum séu hvorki færð nein rök fyrir slíku né bent á að það séu tengsl á milli fæðingar og MS sjúkdóms.

Til þess að heimild til framlengingar fæðingarorlofs verði veitt vegna veikinda þurfa þau tvímælalaust að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Löggjafinn hefur kosið að takmarka heimildir til framlengingar fæðingarorlofs vegna veikinda við þau veikindi ein sem rekja má til fæðingar barns. Af fyrirliggjandi læknisvottorðum verður hins vegar ekki séð að mati nefndarinnar að þau veikindi kæranda sem þar eru greind megi beinlínis rekja til fæðingar barns hennar. Samkvæmt því sem þar greinir voru veikindi kæranda undirliggjandi og komu fyrst fram tveimur vikum eftir fæðingu barns. Að því virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um rétt til lengingar fæðingarorlofs. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 2. desember 2019, um synjun á umsókn A, um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum