Hoppa yfir valmynd
17. maí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vegrún, nýtt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði kynnt

Stefán Pétur Sólveigarson vöruhönnuður, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Hörður Lárusson, fulltrúi hönnunarteymis Kolofon. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti á Djúpalónssandi á föstudag Vegrúnu, nýtt merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði.

Vegrún er afurð samstarfshóps á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingar við uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Verkefnið er ein afurða stefnumarkandi landsáætlunar um uppbyggingu innviða 2018-2029.

Merkingarkerfið var hannað til að samræma merkingar, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna og auka bæði gæði og öryggi á ferðamannastöðum og öðrum áfangastöðum í náttúru landsins. Vegrún stendur öllum til boða, jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum, sem hyggjast setja upp merkingar á slíkum stöðum.

Vegrún er hönnuð af hönnunarteyminu Kolofon&co, sem var valið eftir valferli sem 23 aðilar tóku þátt í. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur séð um verkstjórn og samráð og verið tengi­liður milli þeirra sem komu að verkefninu.

Hönnun kerfisins hófst haustið 2020 og var aðaláhersla lögð á að skapa heildstætt kerfi þar sem gæði og  virðing fyrir náttúru og umhverfi eru höfð að leiðarljósi.

 „Vegrún er frábært dæmi um afrakstur árangursríkrar vinnu þvert á ráðuneyti og  stofnanir og með aðkomu fleiri hagaðila,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með Vegrúnu fáum við langþráða samræmingu í merkingum á friðlýstum svæðum og ferðamannastöðum og heildstætt kerfi sem sækir innblástur í íslenska náttúru. Það miðar að því að merkingar falli betur að íslensku landslagi og upplifun gesta verður jákvæðari.“

„Við viljum að upplifun gesta á ferðamannastöðum sé framúrskarandi. Með góðum merkingum aukum við öryggi allra og styðjum við uppbyggingu ferðamannastaða um allt land. Þetta verkefni er því mikilvægt framfaraskref í ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Vegrúnu verður hægt að nálgast á vefnum godarleidir.is. Vefurinn er hugsaður sem upphafsreitur fyrir alla þá sem huga að uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum.

 
  • Vegrún merkingakerfið var hannað til að samræma merkingar. - mynd
  • Ráðherra með hluta teymisins sem stendur að hönnun og gerð Vegrúnar. - mynd
  • Vegrún, nýtt merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði kynnt - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum