Hoppa yfir valmynd
27. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 325/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 325/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050026

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. maí 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. maí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. 

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. júní 2018. Með ákvörðun dags. 11. september 2018 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Ungverjalands á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 466/2018, dags. 6. nóvember 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 13. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 14. mars 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 2. apríl 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 12. apríl 2019. Þann 9. maí 2019 afturkallaði kærandi kæru sína til kærunefndar eftir afturköllun Útlendingastofnunar á ákvörðun sinni skv. 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í kjölfarið var mál kæranda fellt niður hjá kærunefnd. Með ákvörðun, dags. 14. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda að nýju um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 14. maí 2019. Þann 16. maí 2019 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvupóst og spurði hvort hún hygðist skila inn nýrri greinargerð. Svar barst sama dag þess efnist að byggja skuli á eldri greinargerð við úrlausn máls kæranda hjá kærunefnd. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. júní 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki. Sama dag sendi kærandi kærunefndinni tölvupóst með vottorði frá ungverskum stjórnvöldum um að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi. Sama dag óskaði kærunefndin eftir því að kærandi myndi biðja ungversk stjórnvöld um öll gögn í máli hans þar í landi. Þann 14. júní 2019 barst svar frá talsmanni kæranda þar sem rakin eru samskipti hennar við ungversk stjórnvöld þar sem m.a. kom fram að þar sem kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi sé ekki ástæða til að veita honum afrit af viðtölum sem hann hafi átt við ungversk stjórnvöld né rökstuðning fyrir verndinni. Hins vegar geti stjórnvöld í Ungverjalandi veitt kæranda vottorð þar sem komi fram að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi.

III. Ákvörðun Útlendingastofnuna

rÍ ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki vegna trúarbragða sinna og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé uppalinn í […] í sjálfsstjórnarhéraðinu Sómalíland. Kærandi tilheyri ættbálkinum […] í Sómalíu sem sé í minnihluta á svæðinu, en stærsti sem og valdamesti ættbálkurinn í landinu þar nefnist […]. Þá séu einnig fleiri ættbálkar sem séu í meirihluta í […] Sómalílandi eins og […] og […]. […]. Kærandi kveðst ekki kunna við þá hugmyndafræði […] sem kennd sé í heimaríki hans og hafi hann því mótmælt henni opinberlega í heimaríki. Hafi öldungar frétt af skoðunum kæranda og komið á heimili kæranda, en kærandi hafi ekki verið heima. Öldungarnir hafi beitt móður kæranda ofbeldi og hótað að myrða hana og í kjölfarið hafi hún flúið til Eþíópíu. Fyrir utan að vera í trúarlegum minnihluta þá tilheyri kærandi ættbálki sem sé í minnihluta í Sómalílandi og af þeirri sök verði kærandi einnig fyrir mismunun í námi og starfi. Flestir samnemendur kæranda úr […] ættbálkinum eða öðrum ættbálkum sem séu í minnihluta á svæðinu hafi verið refsað að ástæðulausu og þeir niðurlægðir fyrir framan samnemendur sína. Margir þeirra hafi hrökklast úr skóla en kærandi hafi verið einn fárra úr minnihlutahópi sem hafi útskrifast.

Kærandi heldur því fram í greinargerð að um 15 ára aldur hafi hann verið frelsissviptur, beittur ofbeldi og […] af meðlimum […] ættbálksins. Kærandi hafi ekki leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda þar sem móðir hans hafi ráðlagt honum að gera það ekki þar sem árásarmennirnir hafi tilheyrt ættbálki sem sé í meirihluta. Kærandi hafi ekki haft tækifæri til að taka þátt í stjórnmálastarfi í heimaríki sökum þess að hann tilheyri […] ættbálkinum. Ástæðu flótta kæranda frá heimaríki megi rekja til stöðu hans í […] ættbálkinum, sem og trúar hans, en kærandi hafi verið talinn trúleysingi og svikari af stjórnvöldum og almenningi í heimaríki þar sem hann hafi mótmælt framgöngu og hugmyndafræði […]. Til að mynda hafi kærandi flutt ræðu á útskriftarathöfn háskólans í […] og í kjölfarið verið hótað lífláti. Í greinargerð kæranda kemur fram að í heimaríki hans séu einstaklingar sem séu álitnir trúleysingjar réttdræpir og telji þeir sem myrði slíkan einstakling að það færi þá nær guði. Kærandi geti ekki dvalið annarsstaðar í Sómalíu þar sem Sómalíland sé öruggasta svæði landsins.

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemd við rannsókn og trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Stofnunin geri lítið úr ættbálkaskiptingu og skipan í Sómalílandi jafnframt sem Útlendingastofnun vísi til úreltra heimilda máli sínu til stuðnings. Kærandi telji ekki hægt að fullyrða að ástandið í Sómalílandi sé með sama móti nú og fyrir um 19 árum síðan. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að lögregluvernd sé aðgengileg kæranda í heimaríki og að […] ættbálkurinn hafi rödd innan lögreglunnar. Jafnframt sé kærandi ósammála staðhæfingu Útlendingastofnunar um að sett lög séu til staðar sem eigi að stemma stigu við ósanngjarni meðferð einstaklinga úr ættbálkum sem séu í minnihluta, en sú staðreynd að þrenns konar löggjöf sé í gildi í Sómalílandi bendi að mati kæranda frekar til þess að engar sérstakar reglur eða ferlar séu til staðar sem tryggi möguleika minnihlutahópa á að fá sanngjarna og réttláta málsmeðferð í heimaríki hans. Kærandi mótmælir einnig því mati Útlendingastofnunar að hann sé ekki í viðkvæmri stöðu, en stofnunin vísar í ákvörðun sinni til þess að mörg ár séu liðin frá því að kærandi hafi orðið fyrir […]. Kærandi heldur því fram í greinargerð að staða hans sé alveg jafn viðkvæm nú í dag eins og hún hafi verið þegar hann hafi verið beittur […]. Þá gerir kærandi að lokum athugasemd við mat Útlendingastofnunar á þeirri hættu sem kærandi standi frammi fyrir vegna trúarskoðana hans, en stofnunin leggi til grundvallar að kærandi sé […]. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé kveðið á um að heimildir beri með sér að trúarlegir minnihlutahópar sem ekki aðhyllist […] eigi á hættu að sæta áreiti og ofsóknum vegna þess, en stofnunin hafi ekki fundið heimildir þess efnis að kærandi eigi á hættu að sæta þeirri meðferð sem hann sjálfur haldi fram. Kærandi telur þessa afgreiðslu Útlendingastofnunar ekki taka tillit til frásagnar kæranda um að hann hafi talað opinberlega gegn […] og sé þess vegna álitinn trúlaus í heimaríki og teljist því hafa stundað guðlast og svikið […]. Þá sé mikill samfélagslegur þrýstingur í Sómalílandi til að vera […]. Kærandi telji vafa leika á hver raunveruleg staða hans sé í heimaríki og hver möguleiki hans á að lifa mannsæmandi lífi og hljóta aðstoð og vernd stjórnvalda gagnvart þeirri mismunun og ofsóknum sem hann hafi orðið fyrir þar í landi. Kærandi heldur því fram að Útlendingastofnun hafi ekki lagt með fullnægandi hætti mat á hvort um sé að ræða samansafn atburða í máli kæranda sem geti haft sömu áhrif og ofsóknir, skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Með þessu hafi Útlendingastofnun ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda, einkum Sómalílandi. Þá sérstaklega skort á sjálfstæði dómstóla þar í landi sem og takmörkun á tjáningarfrelsi. Einnig er fjallað um ættbálkafyrirkomulag í heimaríki kæranda með áherslu á þá ættbálka sem teljist til minnihlutahópa, en félagsleg staða íbúa Sómalílands byggi nánast að öllu leyti á stöðu ættbálks þeirra. Þá er fjallað um trúarbrögð og trúfrelsi í Sómalílandi, en íslam sé ríkistrú Sómalílands og hafi verið lagt bann við trúboði annarra trúarbragða […]. Bannað sé að snúa frá íslamstrú sem og að aðhyllast aðra trú. Þeir sem séu grunaðir um að fylgja ekki ríkistrúnni verði fyrir áreiti og árásum af hendi annarra í samfélaginu. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna og heimilda sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja bæði til trúarbragða sem og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. b- og d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Líkt og komið hefur fram er kærandi […] en ríkistrú Sómalílands sé […]. Vegna trúar sinnar sé kærandi talinn trúleysingi og svikari af stjórnvöldum og almenningi í heimaríki, en kærandi hafi opinberlega mótmælt framgöngu og hugmyndafræði […] í útskriftarathöfn háskólans í […] og í kjölfarið hafi honum verið hótað lífláti. Vegna trúarskoðana sinna hefur kærandi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu meirihlutaættbálsins […], almennra borgara, yfirvalda og mögulegra vopnaðra sveita. Þá tilheyri kærandi ættbálkinum […] í heimaríki sem sé í minnihluta og hafi hann mátt þola ofbeldi m.a. af hálfu ættbálksins […], en kærandi hafi verið pyndaður og beittur […] af hálfu einstaklinga úr […]. Þá hafi kærandi orðið fyrir mikilli mismunun í menntakerfinu, en kærandi hafi m.a. orðið fyrir kynþáttahatri, hann kallaður illum nöfnum auk þess sem honum hafi verið gert torvelt að ganga menntaveginn. Vegna stöðu hans sem meðlimur í […] ættbálkinum hafi kæranda verið mismunað með grófum og kerfisbundnum hætti í heimaríki sem geri honum og öðrum úr […] nánast ómögulegt að lifa mannsæmandi lífi í heimaríki. Mikilvægt sé að tekið sé tillit til þeirrar einstöku stöðu sem kærandi sé í og að lagt verði mat á hana við úrlausn málsins einkum samansafn ástæðna flótta kæranda frá heimaríki. Kærandi óttist yfirvöld í Sómalílandi og geti hann því ekki leitað til þeirra um vernd, en löggæsluyfirvöld séu að yfirgnæfandi meirihluta skipuð […] og einstaklingum úr ættbálkinum […]. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess brjóti slík ákvörðun í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda og almennings vegna trúarskoðana sinna sem og vegna þess að hann tilheyri minnihlutaættbálkinum […]. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki Sómölum, sem komi frá […], aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. Í heimildum sé ástandinu í landinu lýst sem óstöðugu og óvissu jafnframt sem það geti versnað snögglega. Þá ógni hryðjuverkasamtökin […] friði og öryggi í landinu og hafi almennir borgarar látið lífið og slasast í átakakenndu ofbeldi. […]. Af þessu telji kærandi ljóst að raunhæf hætta sé á að hann muni sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga við endursendingu til heimaríkis.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.a.m. vegna almennra aðstæðna í heimaríki. Í greinargerð heldur kærandi því fram að viðkvæmt ástand ríki í Sómalílandi vegna þurrka og yfirvofandi hungursneyðar. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í ríkinu og sómalísk yfirvöld veiti þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi heldur því fram að hann sé útskúfaður af samfélaginu sökum trúar sinnar jafnframt sem hann standi frammi fyrir félagslegri einangrun verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá hafi kærandi þurft að þola mikla mismunun þar sem hann tilheyri […] ættbálkinum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í greinargerð heldur kærandi því fram að hann uppfylli skilyrði 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, en þar komi m.a. fram að einstaklingar sem hafi orðið fyrir nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi teljist til sérstaklega viðkvæmra einstaklinga. […]. Þá hafi kærandi greint frá afar slæmum aðstæðum í Ungverjalandi þar sem hann hafi dvalið áður. Þar í landi hafi kærandi ekki fengið félags- né heilbrigðisaðstoð frá stjórnvöldum jafnframt sem kærandi hafi upplifað fordóma af hálfu almennings. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í komunótur frá Göngudeild sóttvarna þar sem fram kemur að kærandi hafi upplifað vanlíðan, svefnörðugleika og sjálfsvígshugsanir.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi lagt fram gilt ungverskt flóttamannavegabréf til að sanna á sér deili. Var það mat Útlendingastofnunar að þótt kærandi hafi leitt líkur að auðkenni sínu þá taldi stofnunin ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri og að leysa yrði úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Sómalílands. Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé sómalískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Sómalíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Report on Human Rights Practices 2018 – Somalia (US Department of State, 13. mars 2019);
  • World Report 2019 – Somalia (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
  • Country Police and Information Note; Somalia: Majority Clans and Minority Groups in South and Central Somalia (version 3.0) (UK Home Office, 1. janúar 2019);
  • Report of the Secretary-General on Somalia (UN Security Council, 21. desember 2018);
  • Country Policy and Information Note Somalia (South and Central): Security and humanitarian situation (UK Home Office, 1. september 2018);
  • Report of the Independent Expert on the situation of human rights in Somalia (UN Human Rights Council, 19. júlí 2018);
  • Somalia, Year 2017: Update on incidents according to the Armed Conflict Location & Event Data Project (ACLED) (ACCORD, 18. júní 2018);
  • 2017 Report on International Religious Freedom – Somalia (US Department of State, 29. maí 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report. Somalia Security Situation (EASO, 21. desember 2017);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Somalia - SR 28/2016 (Migrationsverket, 7. júlí 2016);
  • Somalia: Lavstatusgrupper (Landinfo, 12. desember 2016);
  • Temanotat Somalia: Klan og identitet (Landinfo, 1. október 2015);
  • Somaliland at the crossroads. Protecting a fragile stability (Institute for Security Studies, 1. október 2015);
  • Myndigheter och klansystem i Somalia (Lifos, 30. nóvember 2012);
  • No redress. Somalia's forgotten minorities (Minority Rights Group International, 29. apríl 2010);
  • The Constitution of the Republic of Somaliland (UNHCR, 31. maí 2001).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Sómalía sambandslýðveldi með tæplega 15 milljónir íbúa. Ríkið lýsti yfir sjálfstæði frá Bretum og Ítölum þann 1. júlí 1960. Þann 20. september 1960 gerðist Sómalía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1990. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1990 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sama ár. Sómalía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 2015.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að árið 1991 hafi sómalíska borgarastyrjöldin brotist út og í kjölfarið hafi ættbálkar í Norður-Sómalíu ákveðið að lýsa yfir sjálfstæði og stofnað lýðveldið Sómalíland. Frá árinu 1991 hafi Sómalíland átt í erfiðleikum með að koma á fót starfhæfu lýðræðisríki en Sómalíland sé ekki viðurkennt af alþjóðasamfélaginu sem sjálfstætt ríki. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að tímabært sé að halda þingkosningar í Sómalílandi þar sem síðast hafi verið kosið þar árið 2005. Þing Sómalílands skiptist í tvær deildir, annars vegar öldungadeild skipaða 86 tilnefndum mönnum, guurti, og hins vegar fulltrúadeild sem samanstandi af 82 kjörnum fulltrúum. Í mars 2017 hafi öldungadeildin samþykkt með kosningum að fresta þingkosningum fram á vorið 2019. Ekki hafi orðið af þeim kosningum heldur og hafi þingkosningum á svæðinu verið frestað ótímabundið. Þá hafi öldungadeildin verið ásökuð um spillingu sem og að beita pólitískum þrýstingi í ýmsum málum. Í nóvember 2017 hafi forsetakosningar átt sér stað í Sómalílandi og í desember sama ár hafi Muse Bihi Abdi tekið við embætti forseta lýðveldisins Sómalílands. Í kjölfarið hafi yfirvöld í Sómalílandi takmarkað tjáningarfrelsi á svæðinu m.a. með því að handtaka eftir geðþótta blaðamenn og einstaklinga sem gagnrýni stjórnvöld.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að starfandi dómstólar séu í Sómalílandi en í ljósi skorts á reynslumiklum dómurum og fullnægjandi skjalavörslu sé ekki hægt að líta til fordæma. Þá sé mikil spilling í dómskerfinu. Löggjöfin í Sómalílandi sé þrískipt; lög íslam (Sharia), venjubundin löggjöf (xeer) og sett lög. Mikið samspil sé á milli hinna þriggja tegunda löggjafar í Sómalílandi, en vegna annmarka í dómskerfinu sem og í opinberum stofnunum hafi xeer lögin, sem séu aðallega notuð í samskiptum ættbálka, mikið vægi í sómalísku samfélagi. Í dómskerfinu séu ákærðir almennt taldir saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð jafnframt sem gjafsókn standi þeim einstaklingum til boða sem ákærðir séu fyrir alvarlega glæpi. Þá séu réttarhöld í Sómalílandi opin almenningi. Í Sómalílandi sé starfandi lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi og heyri stofnanirnar undir svæðisstjórn Sómalílands en ekki ríkisstjórn Sómalíu. Fyrir utan hefðbundna lögreglu (e. Somaliland Police Force) sé Sómalíland einnig með her (e. Somaliland Army) og fari þessar sveitir aðallega með löggæsluvaldið á svæðinu. Varðandi öryggisástandið í Sómalílandi kemur fram í skýrslu EASO að engin skráð hryðjuverkaárás af hálfu hryðjuverkahópsins Al-Shabaab hafi átt sér stað í Sómalílandi frá árinu 2008 og teljist hópurinn ófær um að framkvæma markvissar árásir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu ACCORD sé Sómalíland öruggasta svæðið í Sómalíu og árið 2017 hafi níu einstaklingar látið lífið í Sómalílandi vegna átaka á svæðinu. Í skýrslu Lifos um ættbálkasamfélagið í Sómalíu kemur fram að í starfsliði lögreglunnar í Sómalílandi séu meðlimir allra ættbálkanna og ef einstaklingur sé grunaður um refsiverðan verknað þá séu lögreglumenn frá sama ættbálki til staðar jafnframt sem haft sé samband við ættbálk hins grunaða hverju sinni. Ættbálkasamfélagið sé sterkt í Sómalílandi og sé algengt að deilur séu leystar með samkomulagi samkvæmt xeer lögum á milli ættbálka eða innan ættbálks. Báðir aðilar þurfi vera sammála um að leysa skuli deiluna með samningi samkvæmt xeer og þurfi hann að vera skriflegur og undirritaður af báðum aðilum. Þá segir í skýrslunni að minnihlutahópi sé, samkvæmt stjórnarskrá Sómalílands, heimilt að neita úrlausn deilu við ættbálk sem sé í meirihluta með samningi samkvæmt xeer og fara frekar með málið fyrir dómstóla.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að ættbálkurinn […] sé stærstur í Sómalílandi. Samkvæmt UNHCR séu þeir ættbálkar sem séu í meirihluta í Sómalíu; […], […], […], […], […], […], […], […], […] og […]. Það að tilheyra ættbálki sem sé í minnihluta leiði ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur sé í hættu á að verða fyrir ofsóknum. Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins kemur fram að einstaklingar er tilheyri […] ættbálkinum verði fyrir mismunun í samfélaginu m.a. í störfum sínum. Þá bendi gögn til þess að í norðurhluta Sómalíu, m.a. Sómalílandi, fari ástandið batnandi og að ættbálkar sem séu í meirihluta þar séu umburðarlyndari heldur en á öðrum svæðum í Sómalíu. Þá segir í skýrslu Landinfo frá árinu 2016 að dæmi séu um að ættbálkar í meirihluta og minnihluta í norður- og miðhluta Sómalíu hafi átt í eiginlegu viðskiptasambandi sem þjóni hagsmunum beggja ættbálka. Sem dæmi veiti stærsti ættbálkurinn á svæðinu ættbálkinum sem sé í minnihluta vernd í skiptum fyrir vinnuframlag í þeirri starfsgrein sem einkenni þann ættbálk. Einstaklingar í […] ættbálkinum hafi í gegnum tíðina aðallega starfað við skósmíði, veiði og hárgreiðslu. Í skýrslunni kemur fram að […] ættbálksins hafi í gegnum tíðina verið í viðskiptasambandi við ættbálkana […], […] og […]. Einstaklingar úr […] ættbálkinum séu almennt taldir óhreinir og óæðri í […] samfélagi og samkvæmt þjóðsögum megi rekja það til þess að forfeður ættbálksins hafi borðað kjöt af látinni skepnu en samkvæmt […] og sómalískri menningu sé það óhreint kjöt. Vegna samfélagslegrar stöðu […] sé óheimilt fyrir einstaklinga úr æðri ættbálki að giftast einstaklingum úr […], en það hafi þó gerst og sé einstaklingnum sem tilheyri æðri ættbálkinum að jafnaði afneitað. Einstaklingum í […] sé mismunað í skólakerfinu sem verði til þess að fá börn úr ættbálkinum útskrifist úr skólakerfinu. Þetta hafi orðið til þess að skortur sé á menntuðum einstaklingum í framangreindum ættbálkum sem ýti enn frekar undir fordóma gagnvart ættbálkum á borð við […] sem og félagslega undirokun ættbálksins. Þá kemur jafnframt fram í skýrslunni að ekki séu meiri líkur á að einstaklingar sem tilheyri ættbálkum í minnihluta verði fyrir ofbeldi heldur en aðrir Sómalir.

[…].

Þá kemur fram í ofangreindri skýrslu að yfirvöld í Sómalílandi séu talin umburðarlyndari heldur en yfirvöld í Sómalíu gagnvart öðrum trúarbrögðum og t.a.m. banni stjórnarskrá Sómalílands myndun stjórnmálaflokka út frá trúarlegum viðhorfum, trúarlegum kenningum eða einhverri tiltekinni trú. Þá haldi yfirvöld í Sómalílandi ekki skrá yfir trúarleg samtök á svæðinu jafnframt sem þau geri ekki kröfu um skráningu trúarhópa. Í október 2016 hafi kaþólsk kirkja í […] verið opnuð á ný en henni hafi fyrir atbeina stjórnvalda verið lokað nokkrum árum áður vegna þeirrar hættu sem kristnir hafi staðið frammi fyrir á þeim tíma. Þá hafi stjórnvöld í Sómalíu sýnt viðleitni til breytinga en trúarmálaráðherra landsins hafi m.a. veitt fjármagn í uppbyggingu á svæðum þar sem trúarlegir minnihlutahópar geti iðkað trú sína.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann óttist að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu stjórnvalda og almennings vegna trúarskoðana sinna sem og vegna þess að hann tilheyri minnihlutaættbálkinum […].

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í viðtali hjá kærunefnd, þann 6. júní 2019, var kærandi spurður út í dauða föður síns og kvað hann föður sinn hafa verið myrtan vegna trúar sinnar árið 2000. Aðspurður af hverju kærandi haldi að faðir hans hafi verið myrtur vegna trúar sinnar svaraði kærandi að faðir hans, sem hafi verið […], hafi beðið frábrugðið öðrum […]. Þá hafi faðir kæranda verið stunginn til bana í […] þar sem hann hafi verið að biðja opinberlega. Aðspurður hvort kærandi hafi reglulega farið með föður sínum og beðið með honum í […] svaraði kærandi því játandi en kvaðst ekki hafa verið viðstaddur daginn sem faðir hans hafi verið myrtur. Aðspurður hvenær faðir kæranda hafi haft trúskipti frá […] til […] trúar kvaðst kærandi ekki vita það en kærandi kveðst hafa alist upp í […] trú. Aðspurður hvernig ættbálkur þeirra hafi tekið því að faðir kæranda hafi haft trúskipti svaraði kærandi að ættbálkurinn hafi ekki verið ánægður með það, ættbálkurinn hafi litið á föður kæranda sem trúleysingja. Ættbálkurinn hafi hvatt föður kæranda til að snúa aftur til […] trúar og tjáð föður kæranda að þar sem ættbálkur sé lítill geti hann ekki veitt honum vernd ef hann snúi ekki aftur til […] trúar. Faðir kæranda hafi neitað að snúa aftur til […] trúar sem hafi bundið enda á samskipti ættbálksins við föður kæranda. Aðspurður hvenær þetta hafi átt sér stað svaraði kærandi árið 1999. Næst er kærandi beðinn um að útskýra hvernig standi á því að faðir kæranda hafi iðkað […] trú sína frá fæðingu kæranda en það sé ekki fyrr en árið 1999 sem honum sé útskúfað úr ættbálkinum og síðar myrtur árið 2000. Þessu svarar kærandi að ástæða flótta hans sé í fyrsta lagi að faðir hans hafi tekið upp […] trú og að kærandi hafi verið […] þegar hann hafi verið um fimmtán ára gamall. Í öðru lagi hafi hann flúið vegna þess að hann tilheyri minnihlutaættbálki. Kærunefndin biður kæranda um að tjá sig um staðhæfingu sína varðandi það að faðir hans hafi stundað […] trú í mörg ár áður en hann hafi verið myrtur. Þessu svarar kærandi að eftir fall Sómalíu árið 1990 hafi ekki verið starfhæf yfirvöld í landinu. Engin skipti sér að því hvað aðrir væru að gera og þess vegna gat faðir hans iðkað trú sína opinberlega. Aðspurður hvort kærandi hafi tjáð sig opinberlega um trú sína í heimaríki svaraði kærandi því neitandi. Samkvæmt frásögn kæranda hafi faðir hans iðkað […] trú sína opinberlega í a.m.k. níu ár áður en samskipti hans við ættbálkinn hafi verið rofin. Þá hafi faðir kæranda iðkað trú sína opinberlega í a.m.k. tíu ár áður en hann hafi verið myrtur. Kærandi hefur haldið því fram að hann hafi fylgt föður sínum í […] og beðið með honum. Þar sem langur tími hafi liðið frá því að faðir kæranda hafi snúið frá […] trú til […] þar til hann hafi verið myrtur í […], jafnframt sem ættbálkurinn hafi ekki snúið við honum baki fyrr en a.m.k. níu árum eftir trúskiptin er það mat kærunefndar að þessi atvik styðji ekki nægilega við þá staðhæfingu kæranda að […] verði fyrir ofsóknum í Sómalílandi. Í viðtali kæranda við kærunefnd þann 6. júní 2019 kvaðst kærandi hafa flúið heimaríki árið 2015, þ.e. 15 árum eftir fráfall föður síns. Með tilliti til þess að kærandi og móðir hans hafi getað haldið áfram sínu lífi, rekið fyrirtæki sem og gengið í skóla, í heimaríki í 15 ár án þess að hafa verið áreitt vegna trúar þeirra er það mat kærunefndar að þeim sé ekki ómögulegt að búa í Sómalílandi þrátt fyrir að hafa tekið upp […] trú. Jafnframt rennir það frekari stoðum undir það mat kærunefndar að […] verði ekki fyrir ofsóknum í Sómalílandi að í 5. gr. stjórnarskrá Sómalílands kemur fram að ríkistrú landsins sé […] jafnframt sem rétturinn til að iðka trú sína sé verndaður í 33. gr. stjórnarskrárinnar. Þá banni stjórnarskráin trúskipti […]. Ennfremur er ekkert í þeim gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir sem bendir til þess að þeir sem fara úr […] trú yfir í […] verði fyrir ofsóknum í Sómalílandi. Er það mat kærunefndar að kærandi hafi hvorki leitt að því líkur að […] verði fyrir ofsóknum í Sómalílandi né að faðir hans hafi verið myrtur vegna trúarskoðana sinna. Kærandi telst því ekki hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga vegna stöðu sinnar sem […].

Í viðtali hjá kærunefnd, þann 6. júní 2019, var kærandi spurður út í framfærslu fjölskyldu sinnar og kvað kærandi móður sína hafa séð fyrir fjölskyldunni með fatasölu. Þá kvað kærandi móður sína einnig hafa séð fyrir þeim eftir að faðir kæranda hafi látist. Aðspurður hvort kærandi hafi starfað í heimaríki svaraði kærandi því játandi og kvaðst hafa starfað sem kennari á tölvur, en kærandi sé með BS-próf í tölvunarfræði. Aðspurður hvort það sé algengt að einstaklingar úr hans ættbálki séu með háskólamenntun kvað kærandi svo ekki vera, fæstir úr hans ættbálki klári gagnfræðaskóla vegna áreitis og eineltis. Næst var kærandi beðinn um að tjá sig um þá staðreynd að hann virðist hafa haft góða vinnu í heimaríki sem og móðir hans en þrátt fyrir það kveði kærandi að honum hafi verið mismunað í heimaríki fyrir að tilheyra minnihlutaættbálki. Kærandi kvað fólk þurfa á hans aðstoð að halda til að læra á tölvur og hafi fólk ekki átt neinna kosta völ en að leita til kæranda þar sem hann hafi verið að kenna á tölvur. Kærandi kvaðst ekki hafa verið mismunað á þeim vettvangi og það sama eigi við um móðir hans. Móðir kæranda hafi selt notuð föt og fólk hafi hrellt hana en samt sem áður verslað við hana. Aðspurður hver hafi borgað fyrir skólagöngu kæranda kvað kærandi að hann hafi greitt skólagjöldin sjálfur með því að vinna hjá skósmið. Kærandi heldur því fram að einstaklingar er tilheyri hans ættbálki verði fyrir mismunun í samfélaginu og eigi erfitt uppdráttar. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lýst atviki sem geti talist til ofsókna gagnvart honum í heimaríki vegna þeirrar staðreyndar að hann tilheyri minnihlutaættbálkinum […]. Af frásögn kæranda að dæma hafi hann og fjölskylda hans verið vel stæð enda hafi móðir hans rekið fyrirtæki sem hafi selt föt. Kærandi hafi haft tækifæri til að fara í háskóla og eftir það hafi kærandi rekið sitt eigið fyrirtæki þar sem hann hafi kennt fólki á tölvur. Viðskiptavinir kæranda hafi verið frá mismunandi ættbálkum og kvaðst kærandi ekki hafa verið mismunað á þeim vettvangi. Þrátt fyrir að skýrslur sem kærunefnd hefur skoðað gefi til kynna að einstaklingar úr minnihlutaættbálkum eigi á hættu að verða fyrir mismunun af ýmsu tagi þá hefur kærandi ekki lýst atburðum sem benda til þess að hann hafi orðið fyrir eða eigi á hættu á að sæta mismunun vegna þess að hann tilheyri […] ættbálkinum sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Kærandi hefur, að mati kærunefndar, ekki lýst neinu sem gæti talist til ofsókna gagnvart honum í heimaríki og haft þýðingu í þessu máli. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir til þess að aðstæður í Sómalílandi séu almennt taldar friðsamar og stöðugar. Að teknu tilliti til gagna málsins og fyrirliggjandi heimilda bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í Sómalílandi, á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða á að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðsástand hefur ríkt í heimaríki kæranda, en alþjóðlegar skýrslur benda þó til þess að Sómalíland sé almennt talið eitt friðsælasta og stöðugasta svæðið við skaga Austur- Afríku. Í Sómalílandi sé starfandi ríkisstjórn, dómstólar sem og framkvæmdarvald sem hafi verið kosið með lýðræðislegum kosningum. Ríkisstjórn Sómalílands veitir íbúum svæðisins grundvallarþjónustu jafnframt sem atvinnulíf svæðisins sé farið að laða að sér erlenda fjárfesta sem og þróunaraðstoð.

Af gögnum málsins verður ekki séð annað en að kærandi sé heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 7. júní 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                     Hilmar Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum