Hoppa yfir valmynd
11. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 148/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 148/2022

Miðvikudaginn 11. maí 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. desember 2021 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 22. nóvember 2021. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 9. desember 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 16. desember 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2022. Með bréfi, dags. 11. mars 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. apríl 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi glímt við heilsubrest eftir eineltisáreiti sem hún telji að rekja megi meðal annars til veikinda vegna myglu í húsnæði B. Kærandi hafi starfað í rúmlega X ár hjá fyrirtækinu en eftir að mygla og rakaskemmdir hafi greinst í húsnæðinu árið X hafi heilsa hennar versnað verulega og hafi hún til að mynda fengið vottorð frá ofnæmissérfræðingi þess efnis að hún mætti ekki starfa í húsnæðinu vegna þeirra skaðlegu áhrifa sem vera þar hefði á öndunarfæri og heilsu hennar almennt. Ekki hafi liðið á löngu þar til að hún hafi verið borin þungum sökum um brot í starfi sem hafi leitt til frekari veikinda og uppsagnar í framhaldinu.

Allar götur frá starfslokum haustið X hafi kærandi sótt meðferð við veikindunum, bæði andlegum sem og líkamlegum. Kærandi hafi til að mynda farið í gegnum ferli hjá VIRK árið 2018 þar sem hún hafi sótt námskeið og meðferðir. Hún hafi verið „útskrifuð“ hjá VIRK því að ekki hafi verið talið að VIRK kæmist lengra með hana í átt að starfshæfni. Kærandi hafi sótt sálfræðitíma og stundað líkamsrækt mjög reglulega, auk þess sem hún hafi farið reglulega í sjúkraþjálfun allt frá starfslokum til dagsins í dag.

Frá starfslokum hafi kærandi átt við andlega vanlíðan að stríða og þá helst í formi kvíða og streitu, auk þess sem hún hafi átt við hjartsláttartruflanir að stríða og óþægindi í öndunarvegi/ lungum. Einnig hafi vandamál í hnjám, mígreni, bakverkir og þreyta verið nokkuð daglegt brauð frá þessum sama tíma.

Kærandi hafi oftsinnis leitað til heimilislæknis og sérfræðilækna vegna kvilla sinna og þrátt fyrir að ekki liggi fyrir sérstök sjúkdómsgreining, ef frá sé talið mígreni, hnévandamál og hjartsláttartruflanir, þá hafi heimilislæknir metið sem svo að hún hafi ekki starfsgetu, auk þess sem starfsendurhæfing VIRK hafi verið hætt. Þrátt fyrir þetta hafi umsókn hennar um örorku hjá Tryggingastofnun verið vísað frá þar sem endurhæfing væri ekki talin fullreynd.

Á sama tíma og hún hafi sótt um örorkumat hjá Tryggingastofnun hafi hún sent umsókn til lífeyrissjóðs um greiðslu örorkulífeyris, byggða á sömu gögnum og send hafi verið til Tryggingastofnunar, og hafi hún fengið um hæl mat læknis lífeyrissjóðsins án nokkurra vandkvæða.

Kærandi vilji í fyrsta lagi taka fram að hún hafi stundað endurhæfingu með einum eða öðrum hætti allt frá starfslokum án þess að hafa fengið bót meina sinna og hún hafi fullnýtt það tímabil sem greiddur sé endurhæfingarlífeyrir fyrir. Kærandi hafi hitt sálfræðing í líklega 15 skipti á meðan á meðferð hjá VIRK hafi staðið, hún hafi verið í sjúkraþjálfun mjög reglulega og hafi stundað líkamsrækt oft í viku. Kærandi átti sig ekki á hvað hún geti gert meira eða betur svo að umsókn hennar fái framgöngu hjá Tryggingastofnun.

Í öðru lagi sé kærandi enn að bíða eftir að komast í liðskipti á hné með tilheyrandi verkjum og óþægindum sem dragi þó ekki úr henni að mæta í líkamsrækt og gera eins vel og hún geti hverju sinni. Kærandi sé verkjuð í baki flesta eða alla daga, hún fái reglulega mígreniköst með tilheyrandi óþægindum, auk þess sem hjartsláttartruflanir stríði henni reglulega og til að mynda sé hún þessa dagana með sérstakan búnað á sér sem vonandi gefi skýrari mynd af stöðu mála. Kærandi þurfi að vanda hvert hún fari og í hvaða húsnæði því að ef loftgæði séu ekki góð fái hún stíflur í nef, verði hás og eigi jafnvel erfitt með andardrátt.

Í þriðja lagi hafi kærandi fengið mat hjá lífeyrissjóði út frá sömu gögnum og forsendum eins og áður segi og henni finnist hróplegt ósamræmi í meðferð mála hjá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun. Kærandi hafi skilað gögnum á skrifstofu lífeyrissjóðs, hafi verið boðuð stuttu seinna til trúnaðarlæknis sjóðsins og fáum dögum seinna hafi verið komið samþykki fyrir greiðslum vegna örorku.

Tryggingastofnun telji að endurhæfing sé ekki fullreynd, þrátt fyrir að hún hafi staðið yfir í þá 36 mánuði sem greiddur sé endurhæfingarlífeyrir. Kærandi hafi ekki einu sinni fengið samtal við tryggingalækni og hvað þá skoðun.

Í fjórða lagi standi kærandi alveg á gati eftir niðurfellingu málsins hjá Tryggingastofnun um hvað taki við og henni finnist rökstuðningur niðurstöðunnar sem meðal annars segi að fyrir liggi aðgerð í hnjáskiptum og því sé endurhæfing ekki fullreynd. Hvað taki við hjá manneskju eins og kæranda sem hafi vottorð þess efnis að hún sé engan veginn hæf til atvinnuþátttöku á sama tíma og réttur hennar til endurhæfingarlífeyris sé fullnýttur. Kærandi spyr hvaða kerfi grípi manneskju í þessum aðstæðum ef ekki almannatryggingakerfið.

Kærandi fari fram á að niðurstaða Tryggingastofnunar sé endurmetin og ef niðurstaða standi að hún verði upplýst um hvert hún geti snúið sér næst og hvað taki við.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 9. desember 2021, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Í reglugerð nr. 661/2020 sé nánar fjallað um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Við afgreiðslu á umsókn kæranda hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 22. nóvember 2021, læknisvottorð, dags. 29. nóvember 2021, og spurningalisti, dags. 30. nóvember 2021.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. desember 2021, hafi umsókn kæranda verið synjað með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar. Í gögnum málsins komi fram að búast megi við því að færni aukist með tímanum. Þá komi fram að fyrirhuguð sé liðskiptaaðgerð á vinstra hné í C í byrjun næsta árs ef ekkert óvænt gerist.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 29. nóvember 2021.

Kærandi hafi verið í endurhæfingu og verið á endurhæfingarlífeyri á tímabilinu febrúar 2019 til loka árs 2021, eða í alls 36 mánuði. Hún hafi því tæmt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Síðasta endurhæfingartímabilið hafi verið 1. ágúst 2021 til 31. desember 2021. Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki yrði um frekari framlengingu að ræða.

Tryggingastofnun hafi vegna framkominnar kæru farið á ný yfir gögn málsins, einkum í ljósi nýrra gagna sem hafi fylgt með kæru til úrskurðarnefndar, meðal annars bréf frá D, dags. 11. febrúar 2022, og E, dags. 23. febrúar 2022. Þá hafi Tryggingstofnun kynnt sér athugasemdir kæranda í bréfi til úrskurðarnefndar.

Í endurhæfingaráætlun, dags. 3. júní 2021, sem hafi legið til grundvallar síðasta tímabili endurhæfingar, sé lögð áhersla á sjúkraþjálfun, æfingar heima með Zoom aðstoð frá einkaþjálfara D, hreyfingu utanhúss eftir getu, hvatningu til að nota sundlaugar sér til styrkingar og eftirlit heimilislæknis. Fram komi að áætlað sé að kærandi fari aftur út á vinnumarkað eftir sex mánuði.

Í eldri gögnum, þar með talið læknisvottorði, dags. 20. janúar 2021, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri komi fram að ekki hafi verið mikil virkni í endurhæfingu kæranda um nokkurt skeið vegna verkja frá hnjám og hjartsláttartruflana. Hún hafi farið í aðgerð á hné í C í júní 2020 og fari innan skamms í aðgerð á hinu hnénu, einnig erlendis.  

Af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að unnið sé markvisst að því að bæta heilsufar kæranda með endurhæfingu og læknismeðferðum, innan þeirra marka sem aðstæður hafi leyft vegna Covid-19. Í læknisvottorði, dags. 29. nóvember 2021, komi fram, eins og áður segi, að fyrirhuguð sé liðskiptaaðgerð á vinstra hné í C í byrjun árs 2022. 

Að mati Tryggingastofnunar sé eðlilegt með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að bíða og sjá hvaða áhrif sú aðgerð muni hafa hvað varðar frekari endurhæfingu kæranda og endurkomu á vinnumarkað. Af þeim sökum sé ekki tímabært að leggja með formlegum hætti mat á það hvort umsækjandi uppfylli með gerð örorkumats skilyrði laga til greiðslu örorkulífeyris samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Bent sé á að líkamleg og/eða andleg færniskerðing umsækjanda um örorkulífeyri þurfi ekki einungis að vera veruleg heldur verði einnig að liggja fyrir að um sé ræða örorku til langframa.

Á meðan ekki liggi fyrir hvaða árangur verði af fyrirhugaðri hnéaðgerð og endurhæfingu að öðru leyti sé ekki tímabært að leggja mat á örorku kæranda samkvæmt lögum um almannatryggingar. 

Sú staðreynd að réttur til endurhæfingarlífeyris hafi verið tæmdur breyti ekki framangreindu mati stofnunarinnar. Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum, sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar, í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. desember 2021 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð F, dags. 29. nóvember 2021. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„MIGREN

HYPERTENSIO ARTERIALIS (HT)

BAKVERKUR

ÞREYTA

HYPOTHYROIDISM, UNSPECIFIED

SUPRAVENTRICULAR TACHYCARDIA

PRIMARY GONARTHROSIS, BILATERAL

WOLFF PARKINSON WHITE SYNDROME

ASMI ÁN OFNÆMIS“

Um fyrra heilsufar segir:

„Margvíslegur heilsufarsvandi sl. árin.

Ofþyngd, magabandsaðgerð haust 2017, kæfisvefn, asthma og WPW, ablationaðgerð 2016. Verkir frá hnjám.

Follicular carcinoma greint 2009. Undirgekkst thyroidectomiu. . Eftirlit hjá innkirtlalækni.

Löng bakverkjasaga.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Verður óvinnufær 14. 11 2017 eftir eineltisáreiti á vinnustað ásamt einkennum frá lungum vegna myglu í húsi B. Hún er frá mestmegnis vegna andlegrar vanlíðanar, kvíða og sreitu með tilheyrandi somatiskum einkennum.

Henni var vísað í Virk í byrjun árs 2018. Hún hefur á þessum tíma einnig farið að finna meira hjartsláttaróreglu og stendur til að gera aðra aðgerð á hjára v. þessa.

Hefur daglega bakverki, er í sjúkraþjálfun í hverri viku og stundar æfingar þess á milli til að styrkj abak. Hún er einnig með hnéarthrosis og fór í liðskiptaaðgerð á vi. hné í C og er á leið í aðgerð á hinu hnénu á sama stað eftir næstu áramót ef aðstæður leyfa.

30.12.2020 SÓ HNÉLIÐUR H:

Eins og sást á rtg. mynd 08.11.19 er veruleg medial arthrosa. Á álagsmyndum sem teknar voru þá var liðbilið einungis 1mm.

Það er töluverð rýrnun á mediala meniscnum í liðbilinu og töluverðar subchondral reactivar breytingar m.a. með beinbjúg báðum megin við liðbilið, sérstaklega femur megin um miðbik perifert. Það hefur myndast lobuleruð menisc cysta framanvert undir liðcapsulu, mælist 5cm craniocaudalt og meðfram mediala liðbilinu og bungar mest 10mm út frá yfirborðinu. Lateral liðbilið er betur varðveitt en nokkuð slit er retropatellert. Krossbönd eru heil að sjá svo og collateral ligament.

NIÐURSTAÐA:

Langt gengin medial arthrosa með reactívum beinbjúg.

26.11.2021 RTG HÆGRA HNÉ MEÐ ÁLAGI:

Samanburðar er gerður við rannsókn frá 08.11.19.

Liðbilið er nánast uppurið nú við álag. Nabbamyndun við aðlæga liðfleti medialt sem fyrr. Slitbreytingar í femoropatellar liðnum eins og áður. Exostosa medialt proximalt á proximala fibula sem fyrr.

NIÐURSTAÐA:

Langt gengin arthrosa medialt. Vægur progress frá fyrri rannsókn.“

Í lýsingu læknisskoðunar kemur fram:

„Merki slitbreytinga í hæ. hné en ör eftir viðgerð á vi.

Merki e. aðgerð á skjaldkirtli.

Dreifð palpeymsli í stoðkerfi, háls og herðar. ásamt paraspinaleymslum thoracolumbalt.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum eftir læknismeðferð. Um horfur á aukinni færni segir:

„Fyrirhuguð liðakiptaaðgerð í C á vi. hné i byrjun næsta árs ef ekkert óvænt gerist.“

Einnig liggur fyrir meðal gagna málsins læknisvottorð F, dags. 20. janúar 2021, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Með kæru fylgdi bréf frá G, íþróttafræðingi hjá D, dags. 11. febrúar 2022, þar sem segir:

„A […] hefur tjáð undirrituðum að hún hafi fengið neitun um örorkubætur á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Þessa staðhæfingu legg ég í mikinn efa þar sem A hefur stundað styrktarþjálfun í D frá því snemma veturinn 2018 og á þeim tíma sinnt sinni þjálfun af mikilli alvöru og náð miklum framförum. Samhliða þjálfuninni hefur hún mætt mjög reglulega í sjúkraþjálfun auk þess að fara í nudd og tilheyrandi meðferðir til að ná sem mestum og hröðustum bata.

Styrktarþjálfun A snýst að miklu leyti um að ná styrk í neðri hluta líkamans og takmarka verki og er til þess beitt öllum þeim aðferðum er hægt er hér á landi. Auk þessrar sérhæfðu þjálfunar hefur áhersla verið lögð á heildarstyrk alls líkamans og hreyfanleika liðamóta.

Mitt mat er að A hafi reynt allt sem mögulegt er til að lagfæra það sem amar að henni og staðið sig mun betur á þeim vígstöðum en flestir sem ég hef komist í tæri við á 22 ára þjálfunarferli. Hún hefur mætt að jafnaði 3x í viku allan þennan tíma, fjögur ár, án þess að missa úr meira en 3-4 æfingar í beit.

Liðskiptaaðgerð A hefur verið frestað e-ð fram á vor amk vegna covid ástandsins og dagsetning á aðgerðina er ekki enn komin með tilheyrandi vandræðum fyrir A.“

Einnig liggur fyrir bréf H, sjúkraþjálfara hjá E, dags. 23. febrúar 2022, sem fylgdi með kæru. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„A […] hefur verið í sjúkraþjálfun […] frá 5. júní 2020 vegna verkja í hægra hné en hún hefur síðan hún mætti í sjúkraþjálfun verið að bíða eftir liðskiptum á hægra hné. A hefur síðan 5. júní 2020 mætt samviskusamlega að jafnaði 1-2x í viku í sjúkraþjálfun og hefur hún í heildina mætt 108 sinnum í sjúkraþjálfun.

A tjáði undirrituðum að hún hafi fengið neitun um örorkubætur á þeim forsendum að endurhæfing sé ekki fullreynd. Eins og staðan er í dag er erfitt að sjá hvað A getur gert betur. Hún hefur mætt í sjúkraþjálfun, farið í nudd ásamt því að stunda styrktarþjálfun í D síðan um veturinn 2018 þar sem hún mætir að jafnaði 3x í viku og missir vart úr tíma. Liðskiptaaðgerð á hægra hné hjá A hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna Covid og er dagsetning ekki enn komin sem veldur því að undanfarið yfir A farið aftur og fengið meiri verki hjá hægra hné. A hefur í gegnum tíðina fengið sterasprautu í hnéð en hefur ekki fengið sprautu nýlega þar sem ekki má gefa þannig sprautu ef það eru innan við þrír mánuði í liðskiptaaðgerð á hné (sem í dag enginn veit hvenær verður).

Í sjúkraþjálfun hefur verið lögð áhersla á verkjameðferð í kringum hnéð með mjúkvefjalosun, nuddi sem og lasermeðferð. Auk þess hefur A verið að gera styrkjandi æfingar með áherslu á neðri hluta líkamans. Þó svo að það sé hægra hnéð sem er mest að hrjá A í dag þá hefur hún einnig verið slæm í mjóbaki, brjóstbaki og öxlum og hefur verið tekið á því í meðferð þegar við á.

Mér þykir það ljóst að A hefur reynt allt sem hún mögulega getur til þess að verða betri og hefur hún mætt samviskusamlega í sjúkraþjálfun sl. 20 mánuði. Einnig er það líklegt að verkurinn muni ekki minnka fyrr en hún fær loksins að fara í liðskiptaaðgerðina.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi þreytu, verki, astma, mígreni, hjarta og óreglu á starfsemi skjaldkirtils. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja og að fæturnir gefi sig. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að það hafi hjálpað henni hingað til hversu lífsglöð og jákvæð hún sé.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af geðrænum og líkamlegum toga og hefur hún verið í umtalsverðri endurhæfingu vegna þeirra í 36 mánuði en ekki er heimilt samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð að greiða endurhæfingarlífeyri í lengri tíma. Í læknisvottorði F, dags. 29. nóvember 2021, segir að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist með tímanum og er í því sambandi vísað í fyrirhugaða hnéaðgerð í C.

Af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um heilsufar kæranda, fær úrskurðarnefnd ráðið að kærandi þurfi læknismeðferð við sinni slitgigt áður en tímabært verði að reyna hugsanlega starfsendurhæfingu á ný. Þá horfir úrskurðarnefndin til þess að kærandi hefur nú þegar reynt starfsendurhæfingu í 36 mánuði.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að frekari starfsendurhæfing sé ekki raunhæf að sinni eins og ástandi kæranda er háttað. Úrskurðarnefndin telur því rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er felld úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. desember 2021, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar á ný til mats á örorku kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum