Hoppa yfir valmynd
25. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

„Vonin býr í Afríku“

Ljósmyndir: gunnisal - mynd

„Á degi Afríku fagnar heimurinn miklum fyrirheitum og tækifærum hinnar fjölbreyttu og þróttmiklu heimsálfu,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni Dags Afríku sem er haldinn hátíðlegur 25. maí ár hvert. „Vonin býr í Afríku,“ bætti hann við og vísaði til ungu kynslóðarinnar í Afríkuríkjum þar sem sjö af hverjum tíu íbúum er yngri en þrjátíu ára.

Dagur Afríku hefur verið haldinn hátíðlegur frá stofnun samtaka um einingu Afríku 25. maí 1963 sem breyttist síðar í Afríkusambandið (AU). Dagurinn nefndist lengi vel frelsisdagur Afríku.

Allt frá því Ísland hóf formlega tvíhliða þróunarsamvinnu á áttunda áratug síðustu aldar hafa samstarfsríkin fyrst og fremst verið í Afríku. Í dag eru samstarfsríkin tvö, Malaví og Úganda, auk þess sem greint hefur verið frá því að Síerra Leóne verði innan tíðar samstarfsríki Íslands. Verkefni íslenskrar þróunarsamvinnu hafa síðustu árin einkum verið unnin í samvinnu við héraðsstjórnir í samstarfsríkjunum þar sem lögð hefur verið áhersla á umbætur í grunnþjónustu sveitarfélaganna við íbúana, einkum á sviði lýðheilsu, vatns- og hreinlætismála og menntunar. Mannréttindi, jafnrétti kynjanna og sjálfbær þróun eru leiðarljós í þróunarsamvinnu Íslands.

António Guterres lagði áherslu á það í ávarpi sínu að horfurnar út við sjóndeildhringinn fyrir Afríku væru bjartar þrátt fyrir margvíslegar áskoranir sem hamli því að álfan blómstri. Hann nefndi sérstaka heimsfaraldur kórónuveirunnar og hrikalegra áhrifa hennar á hagkerfi álfunnar ásamt loftslagsbreytingum, viðvarandi stríðsátökum og alvarlegum matarskorti. Hann minnti líka á að innrásin í Úkraínu gerði illt verra og hefði alvarlegar afleiðingar í þróunarríkjum, ekki síst í Afríku.

Afríkubandalagið hefur tilnefnt árið 2022 sem ár næringar. Guterres hvatti til þess í ávarpi sínu að heimurinn taki undir með öllum íbúum Afríku um að efla fæðuöryggi og tryggja næringu hvers og eins. „Við verðum einnig að efla viðleitni okkar til að binda enda á heimsfaraldurinn, umbylta alþjóðlegu fjármálakerfi, stöðva loftslagsbreytingar og þagga niður í byssum allra átaka.“

Þá hét hann því að Sameinuðu þjóðirnar myndu styðja og standa stolt með íbúum álfunnar um velmegandi og friðsæla Afríku.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum