Hoppa yfir valmynd
14. desember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður um kröfu um endurupptöku umsóknar um greiðsluuppgjör

CATO Lögmenn ehf.
Sverrir Pálmason
Höfðatúni 2
105 Reykjavík

Reykjavík 14. desember 2012
Tilv.: FJR12080037/16.2.2


Efni: Úrskurður um kröfu um endurupptöku umsóknar [X] um greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010.

Ráðuneytið vísar til kæru yðar vegna umbj. yðar [X], kt. […], dags. 9. nóvember 2012, þar sem þess er krafist að ráðuneytið endurupptaki umsókn félagsins, dags. 11. júní 2010, um frest til greiðsluuppgjörs með heimild í lögum nr. 24/2010.

Málavextir og málsástæður

Með umsókn til tollstjóra, dags. 11. júní 2010, sótti kærandi um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum, samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Tollstjóri hafnaði umsókninni með bréfi, dags. 24. júní 2010. Ákvörðun tollstjóra var kærð til ráðuneytisins sem kvað upp úrskurð, dags. 2. desember 2010. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun tollstjóra um að hafna beiðni kæranda um frest til greiðsluuppgjörs. Lagt var fyrir tollstjóra að taka fyrir þrautavarakröfu kæranda sem var krafa um að frestur til greiðsluuppgjörs tæki til þess hluta virðisaukaskatts sem ekki teldist hluti tollkrítar. Í framhaldinu stefndi kærandi íslenska ríkinu og krafðist þess að úrskurður ráðuneytisins yrði felldur úr gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm 4. júlí 2012 þar sem íslenska ríkið var sýknað.

Kærandi telur að með túlkun dómsins á hugtakinu virðisaukaskattur í skilningi laga nr. 24/2010 hafi verið fallist sjónarmið hans sem hafi verið haldið fram undir rekstri málsins hjá stjórnvöldum þ.e. að virðisaukaskattur skv. 1. gr. laganna nái einnig til virðisaukaskatts sem innheimtur er sem hluti aðflutningsgjalda. Kærandi telur að túlkunin hafi lykiláhrif á úrlausn álitaefnisins og krafðist þess, með bréfi til ráðuneytisins, dags. 14. ágúst 2012, að málið yrði endurtupptekið og honum veitt greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010. Ráðuneytið framsendi kröfuna til tollstjóra með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, þar sem afstaða tollstjóra til endurupptökunnar lá ekki fyrir. Með bréfi, dags. 9. október 2012, hafnaði tollstjóri endurupptökubeiðni kæranda.

Ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2012.
Í ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2012, kemur fram að í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 2370/1998 hafi verið talið að þar sem ákvarðanir skattyfirvalda í málinu hefðu byggt á röngum lagagrundvelli hefðu skattaðilar öðlast lögvarinn rétt til endurupptöku þess. Í þessu máli sé ekki um það að ræða að ákvörðun tollstóra hafi byggst á röngum lagagrundvelli. Þvert á móti hafi ákvörðun um synjun réttilega verið tekin á grundvelli 1. tl. 2. gr. laga nr. 24/2010 þar sem beiðandi uppfyllti ekki skilyrði ákvæðisins. Ákvörðunin hafi því verið tekin á réttum lagagrundvelli og hafi verið staðfest með Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júlí 2012. Dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að 1. gr. laga nr. 24/2010 tæki einnig til virðisaukaskatts sem innheimtur sé sem hluti aðflutningsgjalda en jafnframt að vegna vanskila kæranda á rúmlega 3.500.000 kr. aðflutningsgjalda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði 1. tl. 2. gr. laga nr. 24/2010 til að fá greiðslufrest á virðisaukaskatti.

Varðandi það álitaefni hvort heimild sé fyrir hendi til endurupptöku málsins þá kemur fram í ákvörðun tollstjóra að umboðsmaður Alþingis hafi í álitum sínum lýst þeirri afstöðu sinni að stjórnvöldum kunni að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna t.d. þegar lagalegar forsendur ákvörðunar hafi breyst verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin eða ákvörðun hafi byggst á röngum lagagrundvelli, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3927/2003. Því hafi ekki verið hnekkt að synjun tollstjóra hafi verið byggð á réttum lagagrundvelli þrátt fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. Þó dómur liggi fyrir um rýmra gildissvið 1. gr. laga nr. 24/2010 þá breyti það ekki þeirri staðreynd að félagið uppfyllti ekki skilyrði laganna þegar umsókn var synjað.

Í endurupptökubeiðni sé því haldið fram að kærandi hafi gert greiðslusamkomulag við tollstjóra og sé því í raun búin að greiða að fullu öll aðflutningsgjöld og þ.a.l. gjöld skv. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 24/2010. Greiðsluáætlun sem hafi verið undirrituð 15. september 2009 hafi verið vegna virðisaukaskatts tímabilið 2009-24 en ekki vegna aðflutningsgjalda í tolli. Fleiri greiðsluáætlanir hafi kærandi ekki gert við innheimtumann ríkissjóðs. Aðflutningsgjöld í tolli vegna ársins 2009 séu enn ógreidd og því sé það ekki rétt að kærandi sé búin að greiða öll gjöld skv. 1. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 24/2010.

Það var því mat tollstjóra að ekki hafi komið upp þau atvik sem leiði til þess að endurupptaka beri mál kæranda. Sé þá aðallega til þess að líta að félagið uppfylli ekki skilyrði þágildandi laga nr. 24/2010. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að taka til greina þrautavarakröfu beiðanda skv. úrskurði ráðuneytisins. Ljós sé að ákvörðunin myndi byggja á sama lagagrundvelli og því bæri endurupptaka ekki annað með sér en synjun á ný. Með vísan til framangreinds var ekki talið að lagaskilyrði stæðu til þess að verða við endurupptökubeiðni kæranda og var henni því hafnað.

Málsástæður kæranda.

Í kæru, dags. 9. nóvember 2012, kemur fram að skýrt sé kveðið á um það í 1. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem eru í vanskilum með virðisaukaskatt sem gjaldféll fyrir 1. janúar 2010, gátu sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Með öðrum orðum þá nái heimild tollstjóra til þess að samþykkja frest til greiðsluuppgjörs eingöngu til þeirra skatttegunda sem tilgreindar eru í 1. gr. laganna þar á meðal til virðisaukaskatts.

Tollstjóri og síðar ráðuneytið hafi byggt afstöðu sína á því er virðist eigin flokkun skatta og hafnað umsókn kæranda með þeim rökum að vanskil félagsins vegna aðflutningsgjalda í tolli hafi verið til staðar. Aðflutningsgjöld í tolli séu ekki tilgreind í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010 og hafi kærandi þar af leiðandi ekki verið talin uppfylla skilyrði 1. tl. 2. gr. laganna.

Í kærunni er þess krafist að ráðuneytið endurupptaki mál kæranda og umsókn hans, dags. 11. júní 2010, um frest til greiðsluuppgjörs, með heimild í lögum nr. 24/2010, verði samþykkt af ráðuneytinu. Vísað er til þess að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4067/2011 hafi ekki verið fallist á túlkun tollstjóra á 1. gr. laga nr. 24/1010 heldur hafi verið tekið undir sjónarmið kæranda og komið fram að ákvæðið ætti að skýra beint eftir orðanna hljóðan og það tæki til alls virðisaukaskatts, líka þess sem innheimtur er sem hluti aðflutningsgjalda. Eftir dóminn liggi því fyrir ótvíræð túlkun dómstóla þess efnis að virðisaukaskattur sem innheimtur er sem hluti aðflutningsgjalda teljist vera virðisaukaskattur í skilningi laga nr. 24/2010.

Hvað varði heimild kæranda til endurupptöku sé það almennt viðurkennt að ef ákvörðun stjórnvalds hafi farið í bága við lagaákvæði eða lagalegar forsendur hafi breyst verulega, þá hafi það verið talið gefa tilefni til endurupptöku að beiðni aðila máls. Í því sambandi er vísað til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2370/1998, 3927/2003 og 4254/2004 en einnig megi hafa til hliðsjónar 4. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003.

Í ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2012 sé því hafnað að álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2370/1998 eigi við í máli kæranda með þeim rökum að í álitinu hafi réttur aðila til endurupptöku byggst á því að ákvörðunin sem slík þurfi að byggja á röngum lagagrundvelli og slíkt eigi ekki við í máli kæranda. Þessu mótmælir kærandi harðlega. Tilefni kvörtunarinnar í áliti umboðsmanns hafi verið dómur Hæstaréttar frá árinu 1996, bls. 4248 þar sem ágreiningur aðila hafi verið afmarkaður svo: "Ágreiningur aðila máls þessa fjallar um það, hvort framlag sjálfstætt starfandi atvinnurekanda til lífeyrissjóðs af eigin vinnu vegna þess hluta, sem almennt greiðist af vinnuveitanda, teljist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt, svo að draga megi það frá atvinnurekstrartekjum, áður en skattstofn er ákveðinn." Af þessu megi ráða að álit umboðsmanns eigi við í þessu máli. Ágreiningur þessa máls varði hvað teljist vera aðrir skattar í skilningi 1. tl. 2. gr. laga nr. 24/2010 með hliðsjón af 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2010. Ef notast sé við sambærilega túlkun og tollstjóri notist við í ákvörðun sinni þegar kemur að hugtakinu lagagrundvöllur hefði umboðsmaður Alþingis hafnað því að kvörtunaraðilinn hefði átt rétt til endurupptöku. Þetta sé útskýrt enn frekar í áliti umboðsmanns nr. 3927/2033 þar sem segi "...að í stjórnsýslurétti hefur almennt verið gengið út frá því að þegar lagalegar forsendur upphaflegrar ákvörðunar hafa breyst verulega, þannig að ljóst sé að ákvörðunin geti ekki lengur byggst á upphaflegum lagagrundvelli, kunni aðili máls að eiga kröfu til þess að stjórnvöld taki beiðni hans um endurupptöku til greina,". Óumdeilt sé að álit umboðsmanns eigi við í máli kæranda eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4067/2011.

Þá kemur fram í kærunni að kærandi hafi gert samkomulag við tollstjóra í kjölfar úrskurðar ráðuneytisns, dags. 2. desember 2010, og hafið að greiða inn á þau aðflutningsgjöld í tolli sem falli ekki undir greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010. Það sé fráleitt að ætla að á meðan kærandi leitaði réttar síns um hvað teldist virðisaukaskattur skv. lögum nr. 24/2010 væri hann að greiða inn á aðrar kröfur tollstjóra á hendur honum en aðflutningsgjöld í tolli sem féllu ekki undir greiðsluuppgjör skv. lögum nr. 24/2010.

Ennfremur kemur fram að kærandi hafi haft til þess réttmætar væntingar að með því að gera áðurnefnt greiðslusamkomulag við tollstjóra og ef fallist yrði á túlkun hans á hugtakinu virðisaukaskattur yrði umsókn hans skv. lögum nr. 24/2010 samþykkt. Þá verði að telja það réttlátt, eðlilegt og sanngjarnt að úrskurðir stjórnvalda séu teknir í samræmi við lög sem eru í gildi á þeim tíma sem ákvörðun var tekin. Í þessu samhengi sé vert að vekja athygli á þeirri stöðu sem kærandi hafi verið í á þeim stíma sem úrskurðað var í máli hans og þeirri stöðu sem hann var í eftir eftir dóm héraðsdóms. Á þeim tíma sem úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp hafi kærandi þurft að gera upp kr. 21.998.557 til að uppfylla skilyrði laganna að mati stjórnvalda. Eftir dóm héraðsdóms sé ljóst að hann hafi einungis átt að greiða kr. 3.524.177 til að eiga rétt á úrræðinu. Augljóst sé að mun auðveldara hefði verið að fjármagna greiðslu hinnar síðarnefndu fjárhæðar ef það hefði þýtt að kærandi hefði getað bjargað rekstri sínum.

Allan vafa um hvort kærandi uppfylli skilyrði laga nr. 24/2010 og eigi rétt á því að málið verði endurupptekið og hvort umsókn hans verði samþykkt beri að túlka kæranda í hag. Ríkisvaldið hafi verið að bregðast við mjög alvarlegu ástandi í viðskiptalífinu í kjölfar bankahruns með lögunum um greiðsluuppgjör og meðal annars með það í huga að koma í veg fyrir fjölda gjaldþrota hjá lögaðilum og einstaklingum í atvinnurekstri eins og fram komi í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 24/2010.

Athugasemdir tollstjóra, dags. 10. desember 2012.
Ráðuneytið óskaði eftir hreyfingaryfirliti úr tekjubókhaldskerfi ríkisins frá tollstóra með tölvubréfi, dags. 4. desember 2012. Tollstjóri óskaði þá eftir því að koma að frekari útskýringum um málið og bárust þær með bréfi, dags. 10. desember 2012.

Í bréfinu kemur fram að vegna umfjöllunar í kæru um greiðslusamkomulag kæranda við tollstjóra og réttaráhrif þess vilji embættið benda á að í synjunarbréfi til kæranda, dags. 9. október 2012, hafi verið tekið fram að kærandi hafi ekki greitt inn á aðflutningsgjöld þau sem um er deilt. Greiðslur þær sem félagið hafi innt af hendi hafi farið inn á elsta tímabil gjaldflokksins KA í samræmi við reglur um greiðsluforgang hjá innheimtumönnum ríkissjóðs en þær voru ekki inntar af hendi með fyrirmælum um að þær ættu að ganga upp í aðflutningsgjöld þau sem um er deilt. Þessi skilningur hafi falist í ofangreindum ummælum í synjunarbréfi til kæranda.

Þá kemur fram í bréfinu að í janúar 2011 hafi lögmaður félagsins verið í sambandi við deildarstjóra lögfræðideildar embættisins vegna úrskurðar sem ráðuneytið kvað upp í desember 2010. Hafi lögmanninum verið leiðbeint um stöðu og greiðslu umræddra gjalda. Jafnframt hafi lögmanninum verið bent á að þær greiðslur sem bærust inn á þann gjaldflokk yrðu skoðaðar sem greiðsla á aðflutningsgjöldum, þ.e. þeim hluta gjaldflokksins sem skilgreindur er sem "tollur" í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Greiðslur hafi borist á tímabilinu 18. febrúar 2011 til 15. júní 2011 að upphæð kr. 1.340.936. Í samræmi við leiðbeiningar verði að líta svo á að þær greiðslur hafi farið upp í aðflutningsgjöldin ein. Eftir stendur að skuld vegna þessara gjalda nam um kr. 2.200.000 fyrir utan vexti, á þeim tímapunkti er umsækjendur um greiðsluuppgjör áttu að hafa staðið skil á gjöldum sem ekki féllu undir greiðsluuppgjör sem var 30. júní 2011. Á þeim degi hafði félagið ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 24/2010, sem sé aðalatriði málsins. Það sé rangur skilningur kæranda að samkomulag hafi verið um að greiðslur sem höfðu borist eftir 30. júní 2011 hafi átt að fara upp í aðflutningsgjöldin enda kváðu lagafyrirmæli um að greiðslur skyldu berast fyrir 30. júní 2011 og því hafi greiðslur eftir það tímamark enga þýðingu í máli þessu.

Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, gátu lögaðilar sem voru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem höfðu gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4067/2011 uppkveðnum 4. júlí 2012 kemur fram að talað sé um virðisaukaskatt í 1. gr. laga nr. 24/2010 án nokkurrar takmörkunar. Samkvæmt dóminum verður að skýra ákvæðið beint eftir orðanna hljóðan og tekur ákvæðið því til alls virðisaukaskatts, líka þess sem innheimtur er sem hluti aðflutningsgjalda.

Kærandi hefur gert kröfu til þess að beiðni hans um frest til greiðsluuppgjörs, dags. 11. júní 2010, verði endurupptekin og samþykkt þar sem virðisaukaskattur í tolli hafi átt að falla undir 1. gr. laga nr. 24/2010 skv. dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Í 2. gr. laga nr. 24/2010 voru talin upp þau skilyrði sem varð að uppfylla til þess að umsækjandi fengi frest til greiðsluuppgjörs. Samkvæmt 1. tl. 2. gr. þurfti umsækjandi meðal annars að vera í skilum með aðra skatta og gjöld en þau sem tilgreind voru í 1. gr. laganna. Eins og dómur héraðsdóms ber með sér var skuld kæranda meiri en sem nam virðisaukaskatti eða þá kr. 3.524.177. Fram kemur í dóminum að ekki sé hægt að fallast á að skuldin sé svo lág fjárhæð að líta hafi mátt fram hjá henni eða flokka alla skuld kæranda sem virðisaukaskatt. Kæranda hafi því borið að að greiða þessa skuld eða semja um greiðslu hennar þannig að hún teldist ekki vera í vanskilum þegar hann lagði fram umsókn sína um greiðslufrest eða a.m.k. áður en umsóknarfrestur var útrunninn. Íslenska ríkið var því sýknað af kröfum kæranda um að felldur yrði úr gildi úrskurður ráðuneytisins, dags. 2. desember 2010.

Fyrir liggur að kærandi var í vanskilum með aðflutningsgjöld í tolli vegna ársins 2009 þegar umsóknarfrestur rann út til að sækja um frest til greiðsluuppgjörs 1. júlí 2011 skv. lögum nr. 24/2010. Með vísan til forsendna héraðsdómsins og þar sem skilyrði fyrir fresti til greiðsluuppgjörs skv. 1. tl. 2. gr. laganna, sem voru ófrávíkjanleg, voru ekki uppfyllt, telur ráðuneytið ekki vera lagaheimild til þess að endurupptaka umsókn kæranda um frest til greiðsluuppgjörs skv. lögum nr. 24/2010. Ráðuneytið telur í þessu tilliti ekki skipta máli hvort vilji eða geta hafi verið til að greiða greiða skuldina. Ákvörðun tollstjóra er því staðfest.

Úrskurðarorð
Ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2012, um að hafna endurupptökubeiðni kæranda, dags. 27. ágúst 2012, um að umsókn um frest til greiðsluuppgjörs verði samþykkt, er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum