Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Brýnt að nota bílbelti og huga að umhverfi vega

Brýnt er að herða aðgerðir til að lagfæra umhverfi vega í því skyni að draga úr slysahættu vegna umferðaróhapps til dæmis ef bíll ekur útaf. Þetta kom meðal annars fram í máli Auðar Þóru Árnadóttur, deildarstjóra hjá Vegagerðinni, á fundi um umferðaröryggismál í dag.

Frá fundi um umferðaröryggismál sem haldinn var í tilefni af umferðaröryggisviku.
Frá fundi um umferðaröryggismál sem haldinn var í tilefni af umferðaröryggisviku.

Liður í dagskrá umferðaröryggisviku sem nú stendur var fræðslufundur um stöðu umferðaröryggismála og var fundurinn einkum ætlaður stjórnmálamönnum og fjölmiðlum. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, setti fundinn og sagði meðal annars frá lagabreytingum og setningu reglugerða sem taka gildi á morgun, föstudag 27. apríl, og varða hert viðurlög við umferðarlagabrotum.

Sigurður Helgason, verkefnastjóri hjá Umferðarstofu, ræddi meðal annars um kostnað af völdum umferðarslysa sem hann sagði að væri samkvæmt rannsóknum milli 22 og 29 milljarðar króna árlega hér á landi. Sagði hann þetta þýða kringum 85 þúsund króna kostnað á hvern íbúa landsins.

Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, greindi frá helstu orsökum alvarlegra umferðarslysa hérlendis. Sagði hann hraðakstur vera orsök í þriðjungi tilfella og sagði aldursflokkinn 17 til 20 ára vera tíðastan í þeim flokki. Ágúst sagði notkun öryggisbelta þýðingarmesta atriðið hvað umferðaröryggi varðaði. Ef notkun bílbelta yrði 100% mætti staðhæfa að mun færri myndu slasast í umferðinni.

Auður Þóra Árnadóttir, deildarstjóri hjá Vegagerðinni, ræddi umferðaröryggi á vegakerfinu. Sagði hún tölur sýna að um 40% af heildarakstri landsmanna væri í dreifbýli og því væri þýðingarmikið að huga að umhverfi vega til að auka enn á umferðaröryggi. Ráðast þyrfti í enn markvissari aðgerðir til að draga úr hættu á því að fólk slasist þegar eitthvað bregður útaf við aksturinn og taldi hún brýnt að líta á þetta sem stórverkefni sem leggja yrði verulega fjármuni í. Hún sagði Vegagerðina nýverið hafa tekið upp nýja staðla um vegrið og sýndi nokkur dæmi um hvar nauðsynlegt væri að lengja vegrið og sagði það verða gert í sumar.

Egill Bjarnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði það stefnu lögreglunnar að vera enn sýnilegri og auka með því öryggisvitund borgaranna. Sagði hann það reynslu lögreglunnar eftir að lögð var aukin áhersla á þessa stefnu við stofnun embættisins að umferðarhraði á höfuðborgasvæðinu færi minnkandi um leið og meira sæist til lögreglunnar.

Í lokin ræddi Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi og formaður Umferðarráðs, um hlutverk sveitarfélaga. Hann sagði brýnt að sveitarfélög sinntu þessum málaflokki og nefndi að eftir að tekinn var upp 30 km hámarkshraði í mörgum hverfum Reykjavíkur hefði slysum fækkað snarlega.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira