Hoppa yfir valmynd
27. september 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 398/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 27. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 398/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22090048 og KNU22090049

 

Beiðni [...], [...] og barna þeirra um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 28. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2020, um að synja [...] (hér eftir K), [...] (hér eftir M) og börnum þeirra, [...], fd. [...], (hér eftir A), [...], fd. [...], (hér eftir B) og [...], fd. [...], (hér eftir C), öll ríkisborgarar Norður Makedóníu, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Kærendur og börn þeirra komu aftur hingað til lands 26. júní 2021 og sóttu á ný um alþjóðlega vernd. Hinn 4. nóvember 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, um að synja kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi ásamt því að brottvísa þeim frá landinu og ákvarða þeim tveggja ára endurkomubann. Hinn 19. september 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda og barna þeirra um endurupptöku ásamt fylgigögnum.

Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra og barna þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er þess krafist að kærunefnd endurupptaki mál kærenda og barna þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og veiti þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að læknisfræðileg gögn sem þau hafi lagt fram til stuðnings beiðni um endurupptöku varpi skýrari ljósi á alvarleika veikinda A og ástæður þess að flutningur þeirra til heimaríkis sé ekki raunhæfur kostur. A hafi undirgengist aðgerð á Landspítalanum 29. ágúst 2021 þar sem vandamál í hnéskel hafi verið lagfært. Hún sé í endurhæfingu og þurfi á frekari sjúkraþjálfun að halda svo hún nái fullum bata. Samkvæmt mati læknis hafi ekkert verið gert vegna framangreinds í heimaríki. Þá liggi fyrir staðfesting þess efnis að ekki hafi verið hægt að framkvæma umrædda aðgerð þar í landi. Kærendur telja, með vísan til framangreinds, að fjölskyldan þurfi að dvelja lengur á Íslandi svo að A geti lokið meðferð sem hún hafi ekki aðgang að í heimaríki.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í úrskurðum kærunefndar nr. 101/2019 frá 28. febrúar 2019 og 529/2021 frá 4. nóvember 2021 var lagt mat á aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki og byggt á gögnum sem þá lágu fyrir. Komist var að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður þeirra í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku lögðu kærendur m.a. fram afrit af göngudeildarnótum frá bæklunarskurðdeild Landspítalans, dags. 31. janúar 2019 til 31. maí 2022. Kemur þar m.a. fram að A hafi glímt við endurtekin liðhlaup á vinstri hnéskel (e. recurrent dislocation of patella). Hinn 29. nóvember 2021 hafi hún undirgengist aðgerð á Landspítalanum þar sem hnéskelin hafi verið sett á réttan stað. Hinn 4. janúar 2021 hafi gips verið tekið af fæti A og henni vísað í sjúkraþjálfun. Að mati sérfræðilæknis þurfi hún á góðri þjálfun að halda í að minnsta kosti sex mánuði. Fram kemur að A hafi komið í endurmat 31. maí 2022 eftir að hún misstigið sig og fundið fyrir verkjum í hné. Skoðun hafi verið óbreytt og læknir hafi ekki talið ástæðu til frekari rannsókna eða aðgerða. Útskýrt hafi verið fyrir K og A að útlit væri gott. Hreyfiferill væri góður, hnéskelin væri á sínum og stað og engin áberandi bólga sæist. Þá lögðu kærendur fram afrit af bréfi sem þau kveða að sé staðfesting læknis frá Norður-Makedóníu þess efnis að ekki hafi verið hægt að framkvæma umrædda aðgerð þar í landi.

Málsástæður sem kærendur byggja nú á í beiðni sinni um endurupptöku eru samhljóða fyrri umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd. Kærunefnd tók afstöðu til þeirra málsástæðna í úrskurðum nefndarinnar frá 28. febrúar 2019 og 4. nóvember 2021. Kom m.a. fram í úrskurði nefndarinnar frá 28. febrúar 2019 að kærendur hafi lagt fram læknisfræðileg gögn frá heimaríki sem hafi borið með sér að A hafi átta sinnum leitað til lækna vegna liðhlaups í hné og verið skoðuð af allt að sjö læknum í Skopje, þ. á m. sérfræðilæknum. Að virtum framlögðum heilsufarsgögnum og fyrirliggjandi landaupplýsingum var það mat kærunefndar að A hafi aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki. Ríkisborgurum Norður Makedóníu sé tryggður í lögum réttur til heilbrigðisþjónustu og miðist kostnaðarþátttaka einstaklinga við tekjur þeirra. Þá kom fram í úrskurði kærunefndar frá 4. nóvember 2021 að ekki hafi verið lögð fram gögn eða málsástæður sem hafi breytt afstöðu nefndarinnar varðandi framangreint.

Að framangreindu er ljóst að A hefur þegar farið í aðgerð vegna þess heilsufarsvandamáls sem umsóknir kærenda og barna þeirra og beiðni um endurupptöku grundvallast á. Af framlögðum heilsufarsgögnum verður ekki annað ráðið en að aðgerðin hafi skilað árangri. Þá liggur fyrir að A hefur verið í sjúkraþjálfun og undir eftirliti lækna hér á landi í rúma níu mánuði. Það er mat kærunefndar, að virtum framlögðum gögnum, að A sé ekki í meðferð sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa. Þá telur kærunefnd ekkert hafa komið fram sem raskar mati kærunefndar í framangreindum úrskurðum þess efnis að A hafi aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að þau nýju gögn sem kærendur hafa lagt fram með beiðni sinni nú leggi ekki frekari grunn að málsástæðum þeirra og barna sinna eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp framangreinda úrskurði hafi verið ófullnægjandi eða rangur. Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kærenda og barna þeirra hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda og barna þeirra hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum