Hoppa yfir valmynd
21. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Biðtími styttur í sáttameðferð

Dómsmálaráðuneytið hefur unnið að því að stytta biðtíma mála hjá fjölskyldusviði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og þá ekki síst í málum sem bíða sáttameðferðar. Ráðuneytið hefur leitast við að styrkja stoðir Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega en embættið sinnir sáttameðferð fyrir öll sýslumannsembætti landsins.
Til þess að stytta sérstaklega biðtíma eftir viðtali hjá sérfræðingum í málefnum barna sem sinna meðal annars sáttameðferð, hefur ráðuneytið nú ákveðið að veita embættinu á höfuðborgarsvæðinu, sem sinnir sáttameðferð á landsvísu, rekstrarstyrkingu sem nemur 11 milljónum króna.

Þá mun dómsmálaráðuneytið jafnframt, til móts við félagsmálaráðuneytið, koma að fjármögnun tilraunaverkefnisins Samvinna eftir skilnað (SES) sem framlengt hefur verið til júní 2022. Í Samvinna eftir skilnað gefst foreldrum sem eru að skilja eða slíta sambúð tækifæri til þess að prófa námskeið í 18 stafrænum áföngum. Verkefnið felur því í sér boð um snemmtækan stuðning fyrir foreldra sem standa í skilnaði eða sambúðaslitum og miðar að því að leysa úr ágreiningi foreldra áður en til sáttameðferðar kemur.

Aðgerðin kemur til stuðnings verkefnum þeirra sérfræðinga hjá sýslumönnum sem sinna fjölskyldumálum. Markmiðið er að innleiða og þróa nýtt vinnulag í félagsþjónustu og efla félagslega ráðgjöf með áherslu á skilnaðarmál, forsjár- og umgengnismál. Sýslumenn eru í lykilhlutverki þegar kemur að upplýsingagjöf um fyrrnefnt verkefni. Hlutverk sýslumanna lýtur aðallega að því að upplýsa foreldra barna, sem sækja um skilnað, um rafrænu námskeiðin sem og að upplýsa um einstaklingsráðgjöf og námskeið sveitarfélaganna.

Standa vonir til þess að með því að veita ráðgjöf og þjónustu á fyrri stigum hjá félagsþjónustu verði hægt að draga úr ágreiningi milli foreldra og fækka þeim málum sem enda hjá sýslumönnum. Þannig verði hægt að bæta þjónustuna við fjölskyldur og þau börn sem málin varða. Framangreindar aðgerðir ásamt öðrum sem ráðuneytið og Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafa þegar gripið til og eru í undirbúningi, eru taldar tryggja að embættinu takist að bæta þjónustu sína til lengri tíma og þá sérstaklega hvað varðar sáttameðferð í ágreiningsmálum tengdum börnum.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu

www.samvinnaeftirskilnad.is

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum