Hoppa yfir valmynd
6. september 2019 Innviðaráðuneytið

Samband íslenskra sveitarfélaga mælir með að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti þingsályktunartillögu um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í dag. Sigurður Ingi sagði ánægjulegt að í fyrsta skipti hafi nú litið dagsins ljós heildarstefna í málefnum sveitarfélaga. Ráðherra segir stefnuna metnaðarfulla og eina áhugaverðustu tillögu til umbóta í opinberri stjórnsýslu í langan tíma. Stefnumótunin væri vönduð og víðtækt samráð hafi verið við sveitarfélög og íbúa landsins.

Í lok landsþings var samþykkt tillaga stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að mæla með því að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2023. Í samþykkt þingsins segir: „Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.

„Ég er sannfærður um það, gangi þessi tillaga fram og fái stuðning Alþingis, þá er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að efla sveitarstjórnarstigið, auka sjálfbærni sveitarfélaganna þannig að þau geti betur nýtt tækifærin sem ég nefndi áðan, bætt þjónustu við íbúana og unnið markvisst að því að ná árangri gagnvart öllum þeim áskorunum sem þau standa frammi fyrir,“ sagði Sigurður Ingi.

Í þingsályktunartillögunni er áhersla lögð á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi þeirra, sjálfsstjórn sveitarfélaga og ábyrgð þeirra og loks að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Stefnumörkuninni fylgir aðgerðaráætlun til fimm ára og tilgreindar eru ellefu aðgerðir sem vinna ber að til að ná settum markmiðum. 

Mikill ávinningur af sameiningu sveitarfélaga
Ráðherra fjallaði sérstaklega um þá aðgerð í stefnunni sem kveður á að sett verði að nýju ákvæði í sveitarstjórnarlög um lágmarksíbúafjölda. Slíkt ákvæði var í lögum frá 1961 til ársins 2011.

Ráðherra sagði að gangi þessi tillaga eftir kunni sveitarfélögum að fækka um helming á tímabilinu. Hann sagði ávinninginn af þessari aðgerð mikinn. „Sveitarfélögin verða betur í stakk búin til að sinna skyldum sínum og þjóna íbúunum sem best. Þau munu ráða betur við verkefni sín án þess að þurfa að reiða sig á umtalsverðan stuðning úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða reka sín mál í gegnum frumskóg byggðasamlaga og samstarfssamninga. Sjálfbærni þeirra eykst – lýðræðislegt umboð styrkist – og stjórnsýsla verður enn betur í stakk búin að mæta auknum kröfum um gæði og skilvirkni,“ sagði Sigurður Ingi.

Ráðherra sagði hagræn áhrif einnig verða umtalsverð. Í nýrri greiningu tveggja sérfæðinga væri talið að fjárhagslegur ávinningur í kjölfar þessarar aðgerðar gæti numið á bilinu þrír til fimm milljarðar króna á ári. Þá fjármuni væri hægt að nota til að bæta þjónustu við börn og unglinga eða greiða niður skuldir og lækka þar með kostnað. Þá skapi tillagan frekari grundvöll til að færa fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga, sem auki sjálfsábyrgð og lýðræðislega aðkomu á sveitarstjórnarstigi að staðbundnum málefnum.

Minni byggðalög fari ekki halloka 
Sigurður Ingi sagði mikilvægt að gæta þess að breytingar af þessu tagi hafi ekki þau áhrif að minni byggðarlög fari halloka í stærri stærri sveitarfélögum, að allt vald færist til stærri staðanna í sameinuðu sveitarfélagi. „Það er ábyrgðarhluti og skylda hverrar sveitarstjórnar að sjá til þess að svo verði ekki – að valdi sé dreift, að íbúar séu hafðir með í ráðum, að gæðum samfélagsins sé skipt á sanngjarnan hátt,“ sagði ráðherra.

Ráðherra fjallaði einnig um tillögu um stóraukinn stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar en drög að reglum þar að lútandi eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Samkvæmt tillögunni gæti á bilinu 10 til 15 milljarðar runnið til sveitafélaga í tengslum við þetta átak, til niðurgreiðslu skulda, til að styrkja innviði í nýsameinu sveitarfélagi, eða til nýsköpunar. Nýmæli við þessa framsetningu á reglum væru að nú geti hvert sveitarfélag séð hve mikill stuðningurinn er óháð því hvaða sveitarfélagi það hyggst sameinast. 

Þá fjallaði ráðherra starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og kynjajafnrétti meðal sveitarfstjórnarfólks. Samkvæmt tillögunni skal vinna greiningu á starfsaðstæðum og starfskjörum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hér á landi og bera saman við aðstæður annars staðar á Norðurlöndum. 

Þá sagði hann að einni aðgerð væri ætlað að stuðla að aukinni fjölbreytni í atvinnulífi um allt land og bæta forsendur fyrir jöfn tækifæri sveitarfélaga óháð stærð og staðsetningu til sjálfbærs vaxtar. „Ég tel mikilvægt að samhliða stefnumörkuninni verði ráðist í átak til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Með því móti verði leitast við að styrkja atvinnugrundvöll í nýsameinuðum sveitarfélögum víða um land, og nýta um leið stafræna innviði,“ sagði ráðherra. Aðgerðin miðar að því að unnin verði greining á stöðu þessara mála sem nýtist við að móta aðgerðaáætlun um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Sterk og sjálfbær sveitarfélög
Sigurður Ingi kom víða við í ræðu sinni og fjallaði um verkefnið Ísland ljóstengt, uppbyggingu samgönguinnviða um allt land, stórsókn í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu, almenningssamgöngur, loftslagsmál og hvernig Ísland og Norðurlöndin verði áfram í forystu þjóða heims að tryggja félags- og mannréttindi.

Ráðherra sagði þátt sveitarfélaga í nýsköpun og framfaramálum seint ofmetin. Ríkisstjórnin þurfi öfluga liðsmenn í loftslagsbaráttunni og þar geti hitt stjórnsýslustigið – sveitarfélögin – komið sterkt inn.
Hann lýsti sérstakri ánægju með frumkvæði sveitarfélaga í að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í sína stefnumótun og þróa mælikvarða sem segja til um framganginn. „Ég tel að hér geti íslensku sveitarfélögin búið til ferla og verklag sem nýst geta sveitarstjórnarstiginu í öðrum löndum og lýsi ég yfir vilja okkar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til að styðja sveitarfélögin enn frekar við þetta verkefni,“ sagði ráðherra. Hann hvatti loks sveitarfélög til að standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu þar sem íslensk sveitarfélög miðluðu af góðri reynslu sinni á þessu sviði.

Þingsályktunartillagan er í samráðsgátt stjórnvalda og allir geta sent inn umsögn eða ábendingar til og með 10. september. Stefnt er að framlagningu þingsályktunartillögunnar á Alþingi í byrjun október.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum