Hoppa yfir valmynd
28. maí 2019 Utanríkisráðuneytið

Malaví: Mutharika endurkjörinn – konum fjölgar á þingi og sveitarstjórnum

Ung móðir greiðir atkvæði í kosningunum. Ljósmynd: Mabvuto Banda/IPS - mynd

Peter Mutharika sór embættiseið öðru sinni sem forseti Malaví um hádegisbil í dag eftir umdeildar kosningar og ásakanir stjórnarandstöðunnar um kosningasvik. Yfirkjörstjórn tilkynnti í gær að Mutharika, leiðtogi Lýðræðislega framsóknarflokksins (DPP), hafi unnið nauman sigur í kosningunum í síðustu viku með 38,57% atkvæða. Þá hafði verið aflétt lögbanni á tilkynningu um úrslit forsetakosninganna meðan könnuð voru tilvik þar sem stjórnarandstaðan taldi að stjórnarflokkurinn hefði haft rangt við.

Klerkurinn Lazarus Chakwera, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og formaður Malavíska þingflokksins (MCP), hlaut 35,41% atkvæða í forsetakosningunum, eða rétt tæplega 160 þúsundum atkvæðum færri en Mutharika. Talsmaður flokksins sagði í dag að niðurstaða kosninganna endurspegli ekki vilja kjósenda. Ekki hefur komið til alvarlegra átaka vegna kosninganna en minni háttar róstur hafa verið í sumum kjördæmanna.

Í kosningunum sem fram fóru fyrir réttri viku var auk forsetakosninganna kosið til þings og sveitarstjórna. Íslendingar hafa í þróunarsamvinnu stutt við átak um fjölgun kvenna í sveitarstjórnum, svokallaða 50:50 herferð. Stuðningurinn náði til kvenna í samstarfshéraði Íslands, Mangochi. „Á heildina litið er konum að fjölga bæði á þingi og í sveitarstjórnum þótt þess séu einnig dæmi að sterkar konur hafi fallið út af þingi. Góðu fréttirnar koma hins vegar frá Mangochi þar sem alls voru kjörnar sjö konur í sveitarstjórnina, þar sem engin kona var fyrir,“ segir Lilja Dóra Kolbeinsdóttir forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe.

Hún segir að þessi niðurstaða sé mikill sigur fyrir baráttuna um fjölgun kvenna í sveitarstjórnum, nú séu konur tæplega 30 prósent fulltrúa í sveitarstjórninni í Mangochi, eða 7 af 24, sú yngsta 23 ára. Lilja Dóra nefnir einnig að tvöfalt fleiri konur frá Mangochi eigi nú sæti á þingi, fjórar konur í stað tveggja áður. „Ég tel bæði að sá stuðningur sem við veittum sérstaklega í 50:50 herferðina í Mangochi og svo sérstök HeforShe rakarastofa í nóvember í fyrra hafi hjálpað mikið til. Mangochi er mjög íhaldssamt hérað og þetta er algjört met,“ segir Lilja Dóra.

  • $alt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum