Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2003: Dómur frá 7. apríl 2003

Ár 2003, mánudaginn 7. apríl, er í Félagsdómi í málinu nr. 1/2003:

Alþýðusamband Íslands f.h.

Starfsgreinasambands Íslands

vegna

Alþýðusambands Vestfjarða

vegna

Verkalýðsfélags Vestfirðinga

gegn

Ísafjarðarkaupstað

kveðinn upp svofelldur

d ó m u r:

Mál þetta, sem dómtekið var 18. mars síðastliðinn, er höfðað 20. janúar 2003.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gísli Gíslason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík, fyrir hönd Starfsgreinasambands Íslands, Sætúni l, Reykjavík, vegna Alþýðusambands Vestfjarða, Pólgötu 2, Ísafirði, vegna Verkalýðsfélags Vestfirðinga, Pólgötu 2, Ísafirði.

 

Stefndi er Ísafjarðarkaupstaður, Stjórnsýsluhúsinu, Hafnarstræti 1, Ísafirði.

 

Dómkröfur stefnanda: 

  • Að dæmt verði að stefndi hafi brotið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 með uppsögn trúnaðarmanns stefnanda, Rósu Harðardóttur, úr starfi og synjun um endurráðningu hennar.
  • Að stefndi verði dæmdur til greiðslu sektar samkvæmt 65. gr. laga nr. 80/1938.
  • Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk álags er nemi virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda: 

  • Að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnenda.
  • Að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar en til vara að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af máli þessu.

 

Málavextir:

Þann 28. febrúar 2002 barst Rósu Harðardóttur, sem trúnaðarmanni Verkalýðsfélags Vestfirðinga, bréf stefnda, Ísafjarðarkaupstaðar. Í bréfinu var kynnt sú ráðagerð stefnda að segja öllum starfsmönnum þjónustudeildar Hlífar upp störfum vegna skipulagsbreytinga. Var gert ráð fyrir að uppsagnirnar tækju gildi 1. apríl 2002 og kæmu til framkvæmda að liðnum uppsagnarfresti hvers starfsmanns fyrir sig. Í kjölfar bréfsins barst Rósu uppsagnarbréf 22. mars 2002 þar sem henni var sagt upp störfum frá og með 1. apríl 2002. Var tekið sérstaklega fram að starfsmönnum myndi verða gefinn kostur á endurráðningu, að teknu tilliti til breyttra starfslýsinga og vinnufyrirkomulags og fækkunar stöðugilda. Mun öðrum starfsmönnum hafa borist samskonar bréf. Með bréfi 31. maí 2002 var Rósu tilkynnt að ekki kæmi til endurráðningar hennar og að ráðningarsambandinu myndi þannig ljúka að loknum uppsagnarfresti 30. júní 2002. Í bréfinu er vísað til áðurnefndra skipulagsbreytinga og að ákveðið hefði verið að auglýsa lausar til umsóknar nýjar stöður í þjónustudeildinni. Fór svo að þrír starfsmenn voru ekki endurráðnir, þar á meðal Rósa. Af þessu tilefni var stefnda ritað bréf 12. júní 2002 sem stefndi svaraði 1. júlí 2002. Kemur fram í bréfinu að stefndi taldi þá ákvörðun að endurráða ekki trúnaðarmann stefnanda á engan hátt tengda trúnaðarmannsstörfum hennar. Stefnandi áréttaði mótmæli sín með bréfi 18. júlí 2002. Bauð stefndi þá forsvarsmanni stefnanda til viðræðna um málið en ekki varð árangur af þeim viðræðum eða frekari bréfaskiptum.

 

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því að kveðið sé á um sérstaka vernd trúnaðarmanna stéttarfélaga í 11. gr. laga nr. 80/1938 en þar segi að óheimilt sé að segja trúnaðarmönnum upp vegna trúnaðarmannsstarfa þeirra eða láta þá á nokkurn hátt gjalda þeirra starfa fyrir stéttarfélag sitt. Jafnframt sé kveðið á um það sérstaklega að þurfi atvinnurekandi að fækka starfsmönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Stefnandi telji að stefndi hafi ótvírætt brotið gegn þeirri afdráttarlausu vernd sem 2. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 veiti trúnaðarmanni hans er Rósu Harðardóttur var synjað um endurráðningu þegar starfsmenn þjónustudeildar Hlífar voru endurráðnir. Ekki einasta hafi stefndi brotið gegn þeim áskilnaði að hún hefði átt að sitja fyrir um halda starfi sínu heldur haldið til streitu uppsögn hennar þegar sjö af níu starfsmönnum voru endurráðnir og hún, ásamt einum öðrum starfsmanni í lágu starfshlutfalli, hafi verið gert að láta af störfum.

Rósa hafi sem trúnaðarmaður stefnanda um árabil þurft að standa í ströngu við gæslu hagsmuna félagsmanna stefnanda og forvera hans en mikill styr hafi lengi staðið um starfsemi þjónustudeildar Hlífar. Sem dæmi megi nefna að í þrígang frá árinu 1996 hafi starfsmenn þurft að þola einhliða tilraunir stefnda til að raska starfsöryggi þeirra og starfskjörum. Hafi komið í hlut trúnaðarmannsins að koma fram fyrir hönd starfsmanna ásamt stefnanda í þessum tilvikum. Telji stefnandi einsýnt að Rósa hafi goldið þessa í fyrrasumar. Hafi stefndi engin málefnanleg rök fært fyrir ákvörðun sinni um að knýja á um starfslok Rósu sem réttlættu að hún sæti ekki fyrir um starf heldur þyrfti að sæta því nánast ein að missa starf sitt. Þau rök, sem síðar hafi verið færð fram af hálfu stefnda, séu heldur ekki fullnægjandi rökstuðningur til þess að rýmt sé út þeirri sérstöku réttarvernd sem 11. gr. laga nr. 80/1938 kveði á um. Breyti í því sambandi engu jafnvel þó svo að þau rök hefðu legið ákvörðun stefnda til grundvallar en ekki færð fram eftir á til réttlætingar.

Viðurlög við brotum á lögum nr. 80/1938 séu sekt skv. 65. gr. þeirra. Sé þess því krafist að stefnda verði dæmd sekt fyrir hið ólögmæta brot.

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að Rósa Harðardóttir hafi ekki verið fullgildur trúnaðarmaður skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Komi því ákvæði 11. gr. laganna ekki til skoðunar í tengslum við uppsögn Rósu og synjun á endurráðningu. Skylt sé að leita samþykkis atvinnurekanda fyrir því að starfsmaður gegni trúnaðarmannsstöðu stéttarfélags á vinnustað, sbr. 1. mgr. 9. gr. Fyrir liggi að stefndi hefur aldrei veitt samþykki sitt fyrir því að Rósa gegni stöðu trúnaðarmanns á þjónustudeild Hlífar. Gildi einu í þessu sambandi hvort stéttarfélag hafi sjálft tilnefnt starfsmann sem trúnaðarmann á vinnustað. Sé skyldan til að leita samþykkis vinnuveitanda ófrávíkjanleg skv. fyrrnefndu ákvæði laganna.

Verði ekki fallist á sýknukröfu skv. framansögðu byggir stefndi á því að 1. mgr. 9. gr. laga 80/1938 eigi samt sem áður ekki við þar sem Rósa hafi ekki verið samþykktur trúnaðarmaður fyrir Verkalýðsfélag Vestfirðinga. Um áramót 2000-2001 hafi nokkur verkalýðsfélög á Vestfjörðum sameinast og stofnað hafi verið nýtt sameinað stéttarfélag, Verkalýðsfélag Vestfirðinga. Eitt af þeim stéttarfélögum, sem gengið hafi inn í Verkalýðsfélag Vestfirðinga, hafi verið Verkalýðsfélagið Baldur sem haldið sé fram að Rósa hafi verið trúnaðarmaður fyrir. Verði litið svo á að Rósa hafi verið fullgildur trúnaðarmaður fyrir Verkalýðsfélagið Baldur, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, þá hafi hún aldrei verið samþykkt af stefnda sem trúnaðarmaður fyrir Verkalýðsfélag Vestfirðinga. Hefði nýja stéttarfélaginu borið að leita samþykkis stefnda fyrir því að Rósa gegndi stöðu trúnaðarmanns fyrir það félag. Ekki liggi fyrir að Verkalýðsfélag Vestfirðinga hafi heldur tilnefnt Rósu Harðardóttur í trúnaðarmannsstöðu með formlegum hætti, sbr. lagaskyldu þar að lútandi. Stefndi telji að með niðurlagningu Verkalýðsfélagsins Baldurs við stofnun Verkalýðsfélags Vestfirðinga hafi Rósa ekki lengur uppfyllt skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938. Hefði þurft að koma til sérstaks samþykkis vinnuveitanda á trúnaðarmanni. Þegar af þeirri ástæðu komi ákvæði 11. gr. laganna ekki til skoðunar í tengslum við uppsögn Rósu og synjun á endurráðningu.

Fallist dómurinn ekki á sýknukröfu stefnda skv. framangreindu sé á því byggt að að uppsögn Rósu Harðardóttur hjá þjónustudeild Hlífar og synjun um endurráðningu hafi á engan hátt tengst störfum hennar sem trúnaðarmanns og hún ekki með neinum hætti verið látin gjalda þess að stéttarfélag hafi falið henni að gegna trúnaðarmannastörfum fyrir sig. Þá hafi réttmætar ástæður legið að baki því að Rósa  var ekki látin sem trúnaðarmaður sitja fyrir um að halda vinnunni við endurskipulagningu hjá þjónustudeild Hlífar. Hafi því stefndi ekki brotið í bága við ákvæði 11. gr. laga nr. 80/1938. Stefndi hafi byggt ákvörðun sína um uppsögn Rósu Harðardóttur og synjun endurráðningar á eftirfarandi ástæðum:

Stefndi hafi tekið ákvörðun um það í byrjun árs 2002 að fara út í skipulagsbreytingar á þjónustudeild Hlífar. Hafi ætlunin m.a. verið að breyta vinnufyrirkomulagi og starfslýsingum starfsmanna. Í því skyni hafi verið ákveðið að segja upp ráðningarsamningum allra starfsmanna á þjónustudeild, sbr. bréf stefnda dags. 28. feb. 2002. Endurskipulagning þjónustudeildar hafi verið byggð á vinnuáætlun um framtíðarsýn um skipulag og starfshætti á þjónustudeild Hlífar sem samþykkt hafi verið í félagsmálanefnd stefnda þann 29. janúar 2002. Eins og fram komi í áætluninni hafi ástæða hennar verið langvarandi ósamkomulag starfsfólks á þjónustudeild. Nokkrir aðrir þættir hafi líka valdið því að ráðist hafi verið í breytingarnar, m.a. framkoma Rósu í starfi, ásamt ávirðingum og kvörtunum vegna hennar. Hafi verið gert ráð fyrir að störfum í aðhlynningu fækkaði um tvö til þrjú stöðugildi.

Þrír einstaklingar hafi eftir endurskipulagninguna sótt um tvær stöður sem auglýstar voru, Rósa, Helga Haraldsdóttir og Friðrikka Runný Bjarnadóttir. Hafi stefndi metið Helgu og Friðrikku Runný hæfari til starfans en Rósu. Helga hafi  prófskírteini frá Social- og sundhedsskolen í Viborg Amt í Danmörku og þaðan hafi hún lokið ársnámi sem félags- og heilbrigðisstarfsmaður, þ.m.t. í umönnun og þjónustu við aldraða. Með tilliti til þess hafi stefndi talið sérlega æskilegt og í samræmi við markmið skipulagsbreytinganna að hún yrði ráðin í umrædda stöðu. Þá hafi Friðrikka Runný verið talin betri starfskraftur en Rósa með tilliti til áræðni og árangurs í starfi sem og til hegðunar og framkomu. Hafi ákvörðun um ráðningu Friðrikku Runnýjar ekki síst verið tekin með hagsmuni vistmanna þjónustudeildar í huga sem kvartað hafi undan störfum Rósu.

Við mat á því hvort endurráða ætti Rósu hafi verið höfð hliðsjón af starfsferli hennar, framkomu hennar í starfi sínu ásamt þeim ávirðingum og áminningum sem hún hafi fengið í starfi. Brot Rósu í starfi hafi verið margháttuð og hún hlotið nokkrar áminningar fyrir alvarleg brot í starfi, þar af a.m.k. þrjár skriflegar áminningar. Margsinnis hafi verið kvartað undan henni vegna framkomu í starfi. Telji stefndi réttmætt af sér að hafa gert þá kröfu til Rósu, þó svo að hún hafi haft stöðu sem trúnaðarmaður stéttarfélags á vinnustað, að hún gætti þess að framfylgja sjálf réttum starfsreglum. Þrátt fyrir að gegna starfi trúnaðarmanns sé vitaskuld sá starfsmaður ekki hafinn yfir þær skyldur sem á öðrum verkamönnum hvíla í starfi. Hafi Rósu verið sagt upp störfum í október 2000 og mátt vera fullljóst við afturköllun uppsagnarinnar og af bréfi stefnda í tengslum við það frá 20. okt. 2000 að frekari brot í starfi myndu varða brottrekstur. Engin þeirra áminninga sem Rósu höfðu verið veittar né uppsögnin í október 2000 hafi komið til vegna starfa hennar sem trúnaðarmanns eða tengst því á neinn hátt. Frá því að uppsögn Rósu úr starfi árið 2000 hafi verið afturkölluð hafi áfram komið upp tilvik þar sem kvartað hafi verið undan hegðun hennar í starfi, hvort tveggja frá samstarfsmönnum sem vistmönnum á þjónustudeild. Megi ráða af bréfi læknis þjónustudeildar að hann sé ósáttur við mjög ófagmannleg vinnubrögð hennar. Þá hafi sjúkraliði einnig talið sér vera nánast ómögulegt að starfa með Rósu. Sé því ljóst að Rósa hafi ekki gert bragarbót á framkomu sinni í starfi þrátt fyrir að hafa verið margsinnis aðvöruð af stefnda.

               

Niðurstaða:

Mál þetta á undir dómsvald Félagsdóms samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938 er mælt svo fyrir að á hverri vinnustöð, sbr. nánari skilgreiningu á því hugtaki í 2. mgr. lagagreinar þessarar, þar sem að minnsta kosti fimm menn vinna, hafi stjórn stéttarfélags þess, sem á staðnum er í viðkomandi starfsgrein, rétt til að tilnefna tvo menn til trúnaðarmannsstarfa úr hópi þeirra sem á staðnum vinna. Skal atvinnurekandi samþykkja annan þeirra sem trúnaðarmann stéttarfélagsins á vinnustöðinni. Trúnaðarmaður skal gæta þess að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans og að ekki sé gengið á félagslegan eða borgaralegan rétt verkamanna. Nánar er fjallað um störf og starfshætti trúnaðarmanns í 10. gr. nefndra laga.

Samkvæmt 1. málsl. 11. gr. laga nr. 80/1938 er atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Í 2. málslið lagagreinarinnar er tekið fram að þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni. Þess er að geta að í gildandi kjarasamningi aðila, sem undirritaður var 7. apríl 2001, eru sérstök ákvæði (12. kafli) um trúnaðarmenn þar sem m.a. er fjallað um kosningu þeirra, störf, réttindi og skyldur. Varðandi kosningu trúnaðarmanna er tekið fram í grein 12.1.1 að starfsmönnum sé heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á hverjum vinnustað þar sem starfi 5 til 50 starfsmenn og tvo trúnaðarmenn séu starfsmenn fleiri en 50. Að lokinni kosningu tilnefni viðkomandi verkalýðsfélag trúnaðarmennina. Verði kosningu ekki við komið skuli trúnaðarmenn  tilnefndir af viðkomandi verkalýðsfélagi.

Í aðilaskýrslu formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga, stefnanda í máli þessu, hér fyrir dómi kom fram að Rósa Harðardóttir hefði verið kosin trúnaðarmaður á fundi starfsmanna á árinu 1992 og hefði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, stefnda í máli þessu, verið tilkynnt um það. Af hálfu stefnda hafa ekki verið bornar brigður á þetta og samkvæmt gögnum málsins, sbr. meðal annars bréf stefnda, dagsett 28. febrúar 2002, til Rósu Harðardóttur, og bréf lögmanns stefnda, dagsett 1. júlí 2002, til formanns stéttarfélagsins, er ljóst að stefndi hefur litið á Rósu Harðardóttur sem trúnaðarmann stéttarfélagsins. Að þessu athuguðu þykir haldlaus sú málsástæða stefnda að Rósa Harðardóttir  hafi ekki verið „fullgildur trúnaðarmaður” samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938, eins og það er orðað af hálfu stefnda, enda stenst ekki skilningur stefnda á þessu ákvæði í ljósi orðalags þess og greindra ákvæða kjarasamningsins. Með sömu rökum og hér hefur verið getið, m.a. varðandi þýðingu samþykkis stefnda, verður ekki talið að við stofnun stefnanda við sameiningu nokkurra stéttarfélaga á Vestfjörðum hafi trúnaðarmannsstarf Rósu Harðardóttur fallið niður, enda er ekkert fram komið sem bendir til þess og afstaða stéttarfélagsins gengur gegn því. Samkvæmt þessu verður sýknukrafa stefnda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að Rósa Harðardóttir hafi ekki verið trúnaðarmaður í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 80/1938 og 12. kafla kjarasamnings aðila.

Með bréfi Ísafjarðarbæjar, dagsettu 22. mars 2002, var Rósu Harðardóttur sagt upp starfi sínu frá og með 1. apríl 2002 með umsömdum uppsagnarfresti, sbr. ráðningarsamning hennar við Ísafjarðarbæ. Tekið var fram að uppsögnin væri vegna skipulagsbreytinga, sem ákveðið hefði verið að ráðast í á þjónustudeild Hlífar, er meðal annars myndu leiða til þess að stöðugildum í aðhlynningu á deildinni fækkaði um tvö til þrjú. Fram kom að starfsmönnum yrði gefinn kostur á endurráðningu að teknu tilliti til breyttra starfslýsinga og vinnufyrirkomulags svo og fækkunar stöðugilda. Í framhaldi af þessu voru í aprílmánuði 2002 meðal annars auglýstar lausar til umsóknar tvær 70% stöður á þjónustudeild Hlífar. Sótti Rósa Harðardóttir um stöðu samkvæmt auglýsingunni ásamt tveimur öðrum umsækjendum. Með bréfi 31. maí 2002 tilkynnti Ísafjarðarbær Rósu Harðardóttur að vegna tilvitnaðra skipulagsbreytinga, sbr. bréf bæjarins, dagsett 22. mars 2002, kæmi ekki til endurráðningar hennar og myndi ráðningu ljúka í lok uppsagnarfrests, eða 30. júní 2002.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum 11. gr. laga nr. 80/1938 og sérstaklega 2. málslið lagagreinar þessarar með uppsögn Rósu Harðardóttur og synjun um endurráðningu hennar þegar flestir aðrir starfsmenn þjónustudeildar Hlífar voru endurráðnir. Heldur stefnandi því fram að Rósa Harðardóttir hafi verið látin gjalda trúnaðarmannsstarfa sinna og styður þá staðhæfingu með vísan til ágreiningsmála sem upp hafi komið gagnvart starfsmönnum og mætt hafi á trúnaðarmanninum ásamt stéttarfélaginu.

Ekkert þykir fram komið í málinu sem bendir til þess að uppsögn Rósu Harðardóttur og synjun um endurráðningu samkvæmt bréfum, dagsettum 22. mars og 31. maí 2002, hafi átt rætur að rekja til starfa hennar sem trúnaðarmanns í umræddri starfsstöð stefnda. Ráðstafanir þessar voru því ekki andstæðar 1. málslið 11. gr. laga nr. 80/1038.

Fram hefur komið af hálfu stefnda að uppsögn Rósu Harðardóttur og ákvörðun um að endurráða hana ekki hafi meðal annars verið byggð á tilgreindum ávirðingum hennar í starfi, auk greindra skipulagsbreytinga, svo sem rakið hefur verið af hálfu stefnda í málinu. Fyrir liggur með bréfi forstöðumanns Hlífar, dagsettu 16. október 2000, að Rósu Harðardóttur var sagt upp starfi sínu vegna ávirðinga í starfi. Uppsögninni var mótmælt af hálfu Verkalýðsfélagsins Baldurs með bréfi 17. október 2000, meðal annars á þeim grundvelli að ekki hefði verið staðið rétt að henni með tilliti til andmælaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum. Var og áréttað að Rósa Harðardóttir væri trúnaðarmaður félagsins. Með bréfi forstöðumanns Hlífar, dagsettu 20. október 2000, var uppsögn Rósu Harðardóttur afturkölluð með vísan til stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var og tekið fram að jafnframt hefði verið ákveðið að taka ráðningu hennar til endurskoðunar vegna ávirðinga sem tilgreindar voru í bréfinu. Var henni gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við ávirðingarnar fyrir 27. október 2000. Í framhaldi af því yrði tekin ákvörðun um framhald ráðningarsambands hennar og Hlífar. Bréfinu svaraði Rósa Harðardóttir með bréfi, dagsettu 31. október 2000, þar sem meðal annars kom fram að hún taldi að umræddar ávirðingar gætu ekki verið tilefni til starfsmissis. Þrátt fyrir tilgreind aðfinnsluefni eftir þetta verður ekki séð að stefndi hafi fylgt þessu frekar eftir fyrr en með hinni umdeildu uppsögn Rósu Harðardóttur í bréfi, dagsettu 22. mars 2002.

Eins og fram er komið var ástæða uppsagnar Rósu Harðardóttur samkvæmt bréfi stefnanda frá 22. mars 2002 sögð vera vegna skipulagsbreytinga og sama gildir um bréf stefnda, dagsett 31. maí 2002. Ef ástæða uppsagnarinnar og synjun um endurráðningu að var auki byggð á tilteknum ávirðingum, sem stefndi dregur enga dul á að verið hafi, bar stefnda vegna stöðu Rósu Harðardóttur sem trúnaðarmanns, með réttindum og skyldum samkvæmt I. kafla laga nr. 80/1938, að tjá henni skýlaust að hann teldi starfshætti hennar og framkomu með þeim hætti að varðað gæti uppsögn úr starfi, sbr. og lögmæltan andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það gerði stefndi ekki og tiltók raunar ekki í áðurnefndum bréfum neinar ávirðingar sem uppsagnarástæðu. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af fordæmum Félagsdóms verður að telja að uppsögnin og synjunin um endurráðningu hafi verið brot á meginreglu 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938.

Svo sem réttarágreiningi í máli þessu er háttað eru hins vegar ekki efni til þess að dæma stefnda til greiðslu sektar samkvæmt 70. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 65. gr. sömu laga.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Ísafjarðarbær, braut gegn meginreglu 2. málsliðar 11. gr. laga nr. 80/1938 með uppsögn Rósu Harðardóttur, trúnaðarmanns stefnanda, Verkalýðsfélags Vestfirðinga, og synjun um endurráðningu hennar.

Stefndi er sýkn af sektarkröfu stefnanda í málinu.

Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gísli Gíslason

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum